Færslan Hér má sjá færsluna hjá sir David Attenborough en fyrir neðan textann birti hann myndina sem sést hér til hliðar. Myndinni hefur verið deilt margoft.
Færslan Hér má sjá færsluna hjá sir David Attenborough en fyrir neðan textann birti hann myndina sem sést hér til hliðar. Myndinni hefur verið deilt margoft. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Helgadóttir ragnhildurh@mbl.is Spurður hvernig hann meti stöðuna á Reykjanesskaga segir Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði, stóru sprunguna á jaðri flekamótanna vera að jafna sig. Jarðskorpan sé að finna jafnvægi eftir gliðnunina.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ljósmynd sem ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is Árni Sæberg tók af vitanum á Þrídröngum heldur áfram rafrænu flakki sínu um heimsbyggðina í gegnum samfélagsmiðla. Í vikunni tók fjölmiðlamaðurinn kunni sir David Attenborough sig til og birti myndina á Facebook. Þar hafa tæplega níu hundruð gefið Facebook þumalinn og milli 100 og 200 höfðu deilt myndinni áfram.

„Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en Raxi [Ragnar Axelsson ljósmyndari] hringdi og sagði mér frá þessu,“ segir Árni Sæberg þegar málið er borið undir hann en Árni eyðir ekki miklum tíma á samfélagsmiðlum.

Með myndinni fylgdi smá fróðleikur þar sem fram kemur að vitinn hafi verið byggður árið 1939 og um sé að ræða Þrídranga við Íslandsstrendur en Þrídrangar eru um 10 km vestur af Heimaey. Einnig fylgir hlekkur sem leiðir lesandann inn á blaðagrein og þar má sjá að myndin er merkt Morgunblaðið/Árni Sæberg.

Yrsa sá tækifæri

Árni hefur ekki komist hjá því að taka eftir vinsældum þessarar ljósmyndar því einstaklingar hafa margoft tekið sig til og birt hana á samfélagsmiðlum í gegnum árin. Þegar heimsfrægt fólk hefur birt myndina hefur hún farið á mikið rafrænt flakk.

„Mér skilst að deilingar á samfélagsmiðlum séu 30 milljónir. Ég man að söngvarinn Justin Bieber deildi henni á netinu eftir að hann var á Íslandi. Það er allur gangur á því hvort það kemur fram hver tók myndina,“ segir Árni og kippir sér ekki mikið upp við þetta. „Ég er samt feginn að það hafa ekki 30 milljónir manna hringt og beðið um leyfi,“ segir Árni og hlær við.

Árni hefur myndað fyrir Morgunblaðið í liðlega fjörutíu ár en myndin birtist í blaðinu 20. september árið 2009 eða fyrir rúmum fjórtán árum þegar hann og Freysteinn heitinn Jóhannsson unnu að umfjöllun um Þrídranga. Árni segist einhvern tíma hafa sýnt Yrsu Sigurðardóttur glæpasagnahöfundi myndina. Varð Yrsu þá aðá orði að þarna mætti búa til mikinn hrylling. kris@mbl.is

Höf.: Kristján Jónsson