Fæðuöryggi „Reikna má fastlega með því að landbúnaður muni aukast mest á bestu landbúnaðarsvæðunum.“
Fæðuöryggi „Reikna má fastlega með því að landbúnaður muni aukast mest á bestu landbúnaðarsvæðunum.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu og það gerum við með framleiðslu matvæla.

Vigdís Häsler

Þegar gustar á sviði stjórnmálanna er fyrsta upplifunin oft á tíðum að stuðningurinn virðist vera að hverfa. Einn reyndasti stjórnmálamaður okkar tíma sagði eitt sinn að þegar slík staða væri uppi þá þýddi lítið annað en að stíga fast niður og setja kassann út.

Landbúnaður er fagnaðarerindið sem vísað hefur verið til á tyllidögum, með tiltölulega meinlausa ásýnd þar sem heldur lítið hefur verið gert úr þjóðhagslegu mikilvægi hennar. Gjáin á milli neytenda og þeirra sem hafa verið í forystu fyrir hagsmuni bænda síðustu tíu ár eða svo hefur farið svo ört stækkandi að atvinnugreinin er farin að þurfa að verjast hugmyndafræði um allt aðra hluti en það sem samfélagið hefur þegar samþykkt. Einfalt dæmi: aflífun dýra til manneldis og nýting og framleiðsla á hliðarafurðum dýra, en stundum er vísað til þessara breytinga í umræðunni sem Disney-áhrifanna.

Einfalt mál er að benda og vísa til þess að allt hafi verið miklu betra forðum daga. Raunin virðist þó vera að kerfið og stöðuna eins og hún horfir við okkur nú megi að stórum hluta rekja til ákvarðana fortíðar. Frá þeim tíma þegar menn sannfærðu sig um að kerfið væri fínt og engu mætti breyta, þegar það blasir síðan við að kerfið hefur einkennst af miðstýringu og stöðnun í stað grósku og hraðra tækniframfara. Er landbúnaðurinn orðinn að fagnaðarerindinu sem boðað er á fjandsamlegum stöðum?

Reikna má fastlega með því að landbúnaður muni aukast mest á bestu landbúnaðarsvæðunum, þar sem hægt er að ná mestri hagkvæmni. Því verða sveitarfélög að tryggja flokkun landbúnaðarlands í því tilliti, eftir notkunarmöguleikum, til að tryggja framleiðslu og gæta að fæðuöryggi þjóðar. Undirstaða atvinnugreinarinnar er og verður í mjólkur- og kjötframleiðslu enda skilyrði fyrir slíkri framleiðslu hagstæð og lítil hætta á stórum áföllum sem haft geta áhrif á þjóðaröryggi. Aftur á móti verðum við einnig að horfa til aukinnar sjálfbærni og nýsköpunar í þessu sambandi og til þess hvernig við náum fullkominni nýtingu afurða og ekki síst hliðarafurða. Við þurfum að sýna ábyrgð, enda um 345 milljónir manna sem búa við óöruggt fæðuframboð í heiminum.

Þessa stundina er umtalsvert fjallað og rætt um getu kerfisins, samfélagsins, þegar við stöndum andspænis hættu. Hver ættu viðbrögð okkar að vera? Búum við sem þjóð við fullnægjandi áfallaþol sem segir til um möguleika okkar til að takast á við og komast yfir hamfarir með viðbúnaði; t.a.m. spám um náttúruhamfarir, innviðum almannavarna, tryggingum og varnaraðgerðum, t.d. varnargörðum?

Landbúnaður er innviður, sagði Eggert Skúlason við mig. Og óneitanlega telst stöðug landbúnaðarframleiðsla hluti af mikilvægum mótvægisaðgerðum sem miða að því að milda og jafnvel draga úr þeim skaða sem verður í kjölfar hamfara af völdum náttúrunnar eða af mannlegum toga. Landbúnaðarframleiðsla er samfélagslega mikilvægt verkefni, verkefni sem samfélagið verður að halda til að tryggja öryggi íbúanna og grunnþarfir þeirra. Á móti verður landbúnaðurinn að vera undir það búinn að takast á við áföll og ráða við margar mismunandi gerðir atvika. Rafmagnsleysi í kjölfar óveðurs getur magnað afleiðingar atburðar, en sé einblínt á verndun ómissandi innviða mun okkur takast að tryggja ómissandi grunnþjónustu samfélagsins.

Ef ekki er hægt að tryggja órofinn rekstur og framleiðslu landbúnaðarvara vegna þess að bændum fækkar vegna dapurra starfsskilyrða, sem auðveldlega má leysa sé vilji til, er okkur veruleg hætta búin. Um þessar mundir gustar um starfsumhverfi bænda og nú sem aldrei fyrr þurfa bændur og aðrir þeir sem innan atvinnugreinarinnar starfa að stíga fast niður og setja kassann út. Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu og það gerum við með framleiðslu matvæla. Atvinnugreinin er hluti af mikilvægum innviðum og ber ábyrgð á neyðarbirgðum landsmanna, sem er okkar hlutverk í almannavarnarstarfi. Krafa bænda um að stjórnvöld tryggi starfsskilyrði og afkomu í landbúnaði er ekki úr lausu lofti gripin. Sú krafa byggist á þeirri almennu skynsemi sem fæðuöryggi og sjálfsaflahæfi þjóðar er, en krafan vísar einnig í þær skyldur sem stjórnvöld hafa undirgengist með lögum og stefnu stjórnvalda um þjóðaröryggi. Bændur hafa í gegnum tíðina sýnt að þeir vilja aðlagast, breyta og bæta og það hafa þeir svo sannarlega gert enda árangur íslenskra bænda í að framleiða meira af hágæðamatvælum, fyrir minna, eftirtektarverður.

Kassann út og stjórnvöld á vagninn.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.