Vöktun Nýlega úrskurðaði Persónuvernd að byggingavöruverslun væri heimilt að ganga lengra en lögin kveða á um við öflun persónuupplýsinga þegar viðskiptavinur greiðir með reiðufé, því það samræmist tilgangi laganna.
Vöktun Nýlega úrskurðaði Persónuvernd að byggingavöruverslun væri heimilt að ganga lengra en lögin kveða á um við öflun persónuupplýsinga þegar viðskiptavinur greiðir með reiðufé, því það samræmist tilgangi laganna. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Töluvert umtal hefur skapast í kringum nýlegan úrskurð Persónuverndar þar sem neytandi kvartaði yfir því að byggingavöruverslun hefði það fyrir reglu að krefja viðskiptavini um skilríki og kennitölu ef þeir greiddu með reiðufé við kaup á vörum fyrir meira en 50.000 kr

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Töluvert umtal hefur skapast í kringum nýlegan úrskurð Persónuverndar þar sem neytandi kvartaði yfir því að byggingavöruverslun hefði það fyrir reglu að krefja viðskiptavini um skilríki og kennitölu ef þeir greiddu með reiðufé við kaup á vörum fyrir meira en 50.000 kr. Benti kærandi á að í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er miðað við að seljandi verði að afla tiltekinna upplýsinga um kaupandann ef reiðufé er notað í viðskiptum fyrir meira en jafnvirði 10.000 evra, eða 1,5 milljónir króna á núverandi gengi. Engu að síður úrskurðaði Persónuvernd byggingavöruversluninni í hag með vísan til markmiða laganna.

Ingvar Smári Birgisson lögmaður hefur bent á að margt sé bogið við innihald og útfærslu laganna og að það kunni ekki góðri lukku að stýra hvernig lögin skylda fyrirtæki og einstaklinga til að taka að sér löggæsluhlutverk.

Kostar líklega milljarða ár hvert

„Um er að ræða nokkurra ára gamla löggjöf sem var innleidd í gegnum EES-samninginn og ætlað að stórbæta varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Fela lögin það m.a. í sér að fyrirtæki og einstaklingar sem starfa í atvinnugreinum sem þykja áhættusamar m.t.t. þess að þvætta fé eru skyldug til að innleiða ýmiss konar varnir,“ útskýrir Ingvar en meðal þeirra sem falla undir ákvæði laganna eru bankar og fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, fasteignasölur, lögmenn, listmuna- og skartgripasalar og byggingavöruverslanir.

„Fyrirtækjum sem falla undir lögin, svokölluðum tilkynningarskyldum aðilum, ber að gera áhættumat á rekstri sínum og greina veikleika og styrkleika með tilliti til mögulegs peningaþvættis. Þá þurfa þau að framkvæma áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum og eftir atvikum safna alls kyns upplýsingum og greina viðskiptahegðun þeirra. Ef grunur er um að peningaþvætti eigi sér stað ber fyrirtækjunum skylda til að tilkynna það til lögreglunnar ella sæta viðurlögum fyrir aðgerðarleysi.“

Ingvar segir það geta verið mjög íþyngjandi að fullnægja kröfum laganna, en fyrirtækin þurfa sjálf að bera allan kostnað af því að halda úti þessu eftirliti með viðskiptavinum sínum. „Kostnaðurinn liggur t.d. í þjálfun starfsfólks, kaupum á utanaðkomandi sérfræðiþjónustu og -ráðgjöf, jafnvel áskrift að tölvukerfum fyrir öflun og úrvinnslu viðskiptagagna og áreiðanleikakannana. Fyrir íslenskt atvinnulíf hleypur kostnaðurinn vafalaust á mörgum milljörðum króna árlega en erfitt er að meta af nokkurri nákvæmni hver ávinningurinn af þessu er í baráttunni við peningaþvætti,“ segir Ingvar og bætir við að kostnaður fyrirtækja af regluvörslu hafi farið hratt vaxandi síðastliðin ár enda aukist eftirlitskröfur stjórnvalda með atvinnulífinu frá ári til árs.

Stangast á við trúnaðarskyldu

Eins hefur Ingvar áhyggjur af því í hversu snúna stöðu lögin setja íslenska lögmannastétt. „Lögmenn eru í mjög sérstöku hlutverki og hafa ríka trúnaðarskyldu gagnvart skjólstæðingum sínum. Hins vegar eru lögin skrifuð þannig að varnir gegn peningaþvætti vega í mörgum tilvikum þyngra en trúnaður á milli lögmanns og umbjóðanda hans. Lögmenn standa því frammi fyrir því að þurfa að tilkynna til lögreglunnar fólk sem hefur leitað til þeirra eftir ráðgjöf eða þjónustu ef grunur er um peningaþvætti. Þetta grefur auðvitað undan því viðkvæma hlutverki sem lögmenn gegna í samfélaginu.“

Þá segir Ingvar að mál byggingavöruverslunarinnar sýni vel að það sé tilhneiging eftirlitslöggjafar að ganga sífellt lengra. „Í þessu tilviki hefur fyrirtækið væntanlega metið áhættu og túlkað ákvæði laganna sem svo að öruggast væri fyrir reksturinn að miða við mun lægri upphæð en lagatextinn tilgreinir, til að hafa vaðið fyrir neðan sig.“

Loks segir Ingvar rétt að staldra við þegar lögin setja fólk og fyrirtæki í þá stöðu að þurfa að vakta og tilkynna samborgara sína fyrir hugsanleg brot, ef einhver grunur er fyrir hendi. „Í mannkynssögunni hefur það sjaldan reynst vel þegar hið opinbera felur fólki að fylgjast með samborgurum sínum, og hótar þeim viðurlögum sem trassa að tilkynna grunsamlegt athæfi til stjórnvalda.“

Atvinnulífið í
löggæsluhlutverki

Fyrirtæki bera sjálf kostnaðinn af því að skima eftir vísbendingum um að viðskiptavinir þeirra þvætti peninga.

Þau þurfa m.a. að leggja út fyrir sérfræðiráðgjöf, þjálfun starfsfólks og áskrift að tölvukerfum.

Kostnaðurinn hleypur væntanlega á milljörðum en erfitt er að meta ávinninginn.

Varasamt þegar lögin skylda fólk til að vakta samborgara sína og tilhneiging eftirltslöggjafar að ganga sífellt lengra.