Áfram verður boðið upp á flug milli Reykjavíkur og Húsavíkur næstu mánuðina en flugfélagið Ernir hefur flogið til Húsavíkur síðustu ellefu árin. Þessi leið hefur ekki verið ríkisstyrkt en Ernir og Vegagerðin hafa nú samið um að Ernir fljúgi til Húsavíkur næstu þrjá mánuðina

Áfram verður boðið upp á flug milli Reykjavíkur og Húsavíkur næstu mánuðina en flugfélagið Ernir hefur flogið til Húsavíkur síðustu ellefu árin.

Þessi leið hefur ekki verið ríkisstyrkt en Ernir og Vegagerðin hafa nú samið um að Ernir fljúgi til Húsavíkur næstu þrjá mánuðina. Að sögn Einars Leifssonar fjármálastjóra Ernis felur samkomulagið í sér að Vegagerðin geti framlengt samninginn í mánuð til viðbótar að hámarki.

Mikil viðurkenning

„Fyrir samfélagið fyrir norðan er flott að Vegagerðin og ríkið skuli hafa samþykkt að taka þátt í þessu. Í því felst ákveðin viðurkenning fyrir samfélagið á Húsavík og nágrenni,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið en hvað gerist að samningstíma liðnum sé of snemmt að segja til um.

Einar segir þó að það myndi ekki koma sér sérstaklega á óvart ef flug til Húsavíkur yrði þá sett í útboð innan EES.

Samið var um að Vegagerðin styrkti fjórar ferðir milli Reykjavíkur og Húsavíkur á samningstímanum. Að sögn Einars verður þó flogið fimm sinnum í viku og Ernir hafi því viljað bæta við einni ferð. Flogið verður á mánudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum og á fimmtudögum verða tvær ferðir.

Einar tók við sem fjármálastjóri Ernis fyrr á árinu eftir breytingar á eignarhaldi flugfélagsins. Hann segist hafa séð fljótlega að eitthvað þyrfti að breytast varðandi flugið til Húsavíkur. Of mikið tap væri á þeirri leið sem gæti vitaskuld ekki gengið til lengdar.

Sterk viðbrögð

Aðalsteinn Baldursson verkalýðsleiðtogi á Húsavík sagði í samtali við mbl.is í september að síminn hefði vart stoppað eftir að sögusagnir fóru á kreik um að fluginu yrði hætt. Það mætti bara ekki gerast.

„Þetta flug skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli á öllum sviðum,“ sagði Aðalsteinn meðal annars við mbl.is.

Hægt er að sjá flugáætlunina á vef fyrirtækisins ernir.is og opnað hefur verið fyrir sölu á flugmiðum til loka febrúar. kris@mbl.is