Litla-Hraun Glæpir síðustu daga virðast tengjast á einn hátt eða annan.
Litla-Hraun Glæpir síðustu daga virðast tengjast á einn hátt eða annan. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið mikilvægt að vanda umfjöllun um glæpahópa á Íslandi. Eins og greint hefur verið frá rannsakar lögreglan núna hvort skotárásin í Úlfarsárdal í síðasta…

Baksvið

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið mikilvægt að vanda umfjöllun um glæpahópa á Íslandi. Eins og greint hefur verið frá rannsakar lögreglan núna hvort skotárásin í Úlfarsárdal í síðasta mánuði og hnífaárásin í Grafarholti sem og líkamsárásin á Litla-Hrauni, sem áttu sér stað í síðustu viku, tengist. Rekja má slóð glæpa sem virðast hver af öðrum tengjast svipuðum mönnum og ákveðnum hópum. Þessir hópar eru að sögn Helga jaðarsettir ungir karlmenn og fer vandinn vaxandi. Í glæpahópum sé gildismat annað en hjá almenningi og því hætta á að þegar fjallað er um glæpina og gert meira úr mönnunum en raun ber vitni þá fari þeir að líta á sig sem „stóra karla“.

„Það er ákveðin hætta fyrir okkur hvernig við fjöllum um þetta, að gefa þeim ekki eitthvert mikið vægi – að þetta séu einhverjir „alvöru kaldir karlar á jaðrinum“ – og að það verði ekki einhver glamúrvæðing hópanna,“ segir Helgi og bætir við að með því gætum við í raun gefið þeim enn meira vægi.

„Þetta er fín lína sem við verðum feta því við viljum ekki að [glæpahóparnir] festist í sessi,“ segir Helgi.

Má ekki glamúrvæða þetta

Hann bætir við að ákveðinn fréttaflutningur gæti í raun alið á þátttöku í svona hópum, sérstaklega fyrir unga karla á jaðrinum sem gætu lesið um þessa hópa og talið glæpahópana samanstanda af merkilegum mönnum í „alvöru“ gengjum eins og tíðkast í Bandaríkjunum og annars staðar á Norðurlöndunum.

„Þá verður það bara sjálfstæður gjaldmiðill fyrir þá og styrkleikamerki, þannig að það þarf að huga að því við umfjöllun að gefa þeim ekki of mikið vægi. Þetta eru nokkuð óformlegar hópamyndanir og ekki kannski búið að festa sig í sessi. Það eru klárlega erjur og ég hef grun um að þetta séu erjur sem tengjast einhverju ólöglegu sem þú deilir ekki með öðrum,“ segir Helgi.

Hann ítrekar viðvaranir sínar við því að meðlimir hópanna séu „glamúrvæddir“ í fjölmiðlum. „Það má ekki gefa þeim þannig sess að þeir séu orðnir einhverjir rosalegir karlar og það sé verið að fjalla um þá sem „stórkarla úr undirheimunum“. Þetta má ekki líta út fyrir að vera „kúl“.“

Skortir samtal við mennina

Hann segir að stöðva þurfi þessa þróun glæpahópa á Íslandi svo að óbreyttir borgarar verði ekki fyrir barðinu á þeim og svo að þeir hreinlega drepi ekki hver annan. Réttarvörslukerfið sé mikilvægur hlekkur í þessu en einnig sé nauðsynlegt að ná samtali við mennina sjálfa.

„Það sem skiptir líka máli er að ná til leiðtoganna því að leiðtogar eru mjög mikilvægir í svona hópamyndunum. Það þarf að ná samtali við þá um hvað sé að gerast og í raun og veru fá þá til að sjá að það er ekkert „kúl“ að bera vopn, það er ekkert „kúl“ að enda í fangelsi og það er ekkert „kúl“ að deyja. Það þarf einhvern veginn að koma því til skila að þessi heimur er innantómur,“ segir Helgi.

Einhvern veginn þurfi að ná samtali við þessa hópa og ekki sé víst að lögreglan geti sinnt því samtali í ljósi tortryggni þessara manna til hennar. Hann kveðst þó ekki vera að gera lítið úr mikilvægi lögreglunnar með því að segja að hún eigi ekki endilega að eiga þetta samtal.

„Auðvitað þurfa menn að stöðva þessa atburðarás með afgerandi hætti í gegnum réttarvörslukerfið en um leið þarf að ná samtalinu við þessa hópa, einstaklinga og sérstaklega leiðtoga,“ segir Helgi.

Þurfum að sýna þeim að önnur tækifæri standi þeim til boða

Hann segir nauðsynlegt að sýna mönnunum sem taka þátt í þessum glæpahópum að þeir eigi raunveruleg tækifæri á venjulegu lífi. Þess vegna sé nauðsynlegt að ná að tala við þá. Þetta séu drengir sem margir hverjir séu hæfileikaríkir og geti gert margt.

Hóparnir séu að einhverju leyti myndaðir af drengjum sem telja sig ekki skulda samfélaginu neitt. Þeim líði eins og allir hafi alltaf verið á móti þeim og telji sig ekki hafa neina raunverulega möguleika á að ná sér aftur á strik.

„Þeir geta gert svo margt annað. Það þarf að koma því á framfæri og rjúfa þennan vítahring sem menn eru að koma sér í,“ segir Helgi að lokum.