Kolfinna Sigrún Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 13. desember 1953. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 13. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Hagalín Kristjánsson, f. 14. október 1926, d. 14. ágúst 1974, og Elín Guðjónsdóttir, f. 18. júní 1931, d. 10. maí 2003.

Systkini Kolfinnu eru: Kristján, f. 1. nóvember 1949, kvæntur Hildi Hermannsdóttir; Barði, f. 21. febrúar 1951, d. 23. október 1987; María, f. 14. júní 1957, gift Jóni Heiðari Guðjónssyni; Haraldur, f. 28. júní 1958, d. 28. júlí 2008.

Kolfinna giftist 29. ágúst 1976 Hlöðveri Sigurðssyni, f. 29. ágúst 1946. Dætur þeirra eru: 1) Elín Guðný, f. 22. apríl 1986, gift Sæmundi Maríel Gunnarssyni, f. 18. júní 1982, börn þeirra eru: Hlöðver Gunnar, f. 7. júní 2013, og Kolfinna Rósa, f 19. október 2014. 2) María Peta Hagalín, f. 11. september 1988, gift Magnúsi Aldan Guðlaugssyni, f. 17. maí 1991, börn þeirra eru: María Rós, f. 6. janúar 2011, Haraldur Elí, f. 30. maí 2014, Andrea Mist, f. 22. ágúst 2014, Magnús Aldan, f. 5. mars 2020, og Barði Aldan, f. 30. maí 2021. 3) Kolfinna Hagalín, f. 6. ágúst 1990.

Kolfinna fæddist á Vesturgötu 35 í Reykjavík en fluttist fimm ára gömul með fjölskyldu sinni að Básenda 6 þar sem hún sleit barnsskónum. Kolfinna og Hlöðver hófu búskap árið 1974 og bjuggu fyrst um sinn á Sólvallagötu 66 í Reykjavík. Árið 1987 fluttust þau í Hamrahverfið í Grafarvogi þar sem þau bjuggu sér og dætrum sínum heimili í 30 ár. Síðustu sex árin hafa þau hjónin búið í Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ ásamt dætrum sínum og fjölskyldum.

Kolfinnu var kaupmannseðlið í blóð borið en starfsferill hennar hófst í Krónunni í Mávahlíð í verslun foreldra hennar. Kolfinna og Hlöðver unnu mikið saman á þeim tæpu 50 árum sem þau fengu saman. Fyrst um sinn voru þau í sjoppurekstri, síðar stofnuðu þau fiskvinnsluna Humal. Fóru til Bandaríkjanna og lærðu kertaskurð og opnuðu verslunina Blóm og kerti. Þau stofnuðu Hlöllabáta árið 1986 og sinntu þeim rekstri til ársins 2012 þegar þau seldu. Kolfinna var sælkeri mikill og hafði gaman af því að útbúa góðan mat og í gegnum tíðina tók hún að sér að sjá um veitingar í veislur fyrir vini og kunningja.

Síðasta verkefni Kolfinnu var rekstur fjölskyldunnar á Litlu kaffistofunni við Suðurlandsveg.

Útför Kolfinnu verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 27. nóvember 2023, klukkan 13.

Í dag kveð ég með söknuði Kollu mágkonu, leiðir okkar hafa legið saman yfir 50 ár og hún því stór hluti af okkar lífi, hún var sterkur persónuleiki sem lét sér annt um stórfjölskylduna og fólk almennt. Við deildum nánast uppeldi Guðmundar sonar míns fyrstu fimm árin en þá voru Kolla og Hlölli barnlaus og hann fékk svo sannarlega að njóta þess. Það breytti litlu þó Kolla og Hlölli eignuðust þrjár dætur, hún hafði alltaf áhuga á að fylgjast með hvað frændsystkinin væru að gera, alltaf boðin og búin að aðstoða þegar til hennar var leitað. Kolla frænka gat svo oft reddað hlutum ef eitthvað vantaði, t.d. poppkornsvél á skólaskemmtun, henni fannst það bara ekkert mál.

Kolla var óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir, þau hjónin voru frumkvöðlar, saman fóru þau til Ameríku, lærðu kertagerð og opnuðu síðan verslunina Blóm og kerti, þar voru meðal annars seld handskorin kerti eftir Kollu sem prýddu mörg heimili. Seinna opnuðu þau Hlölli svo Hlöllabáta sem var nýjung í skyndibitum hér á landi. Kolla stóð vaktina þar til þau seldu árið 2012 en þá hafði Kolla greinst með krabbamein.

Útlitið var ekki gott en hún fór til Noregs í meðferð með góðum árangri þó sjúkdómurinn hafi ekki horfið.

Kolla var alltaf ákveðin í að láta krabbameinið ekki stjórna sér, leit á það sem verkefni sem hún tókst á við af æðruleysi. Kollu leið best þegar mikið var um að vera, hún var skipulögð, afskaplega flink í matargerð og veisluhöld lágu vel fyrir henni sem margir nutu góðs af, þar með talin mín fjölskylda. Kolla kenndi postulínsmálun í mörg ár enda mjög listræn, hún var gjafmild og lét sig ekki muna um að gefa heilu matarstellin.

Síðustu árin rak fjölskyldan Litlu kaffistofuna, það tók Kollu ekki langan tíma að gera hana að sínu með persónulegum hlutum og notalegu umhverfi. Sem dæmi er allt leirtau þar handmálað eftir Kollu.

Þarna naut hún sín vel, ákveðin í að mæta til vinnu hvernig sem henni leið, óhætt er að segja að hún hafi staðið þar lengur en mögulegt var, fór jafnvel í lyfjameðferð og aftur til vinnu en svona var hún, vera með og hafa gaman meðan hægt var.

Það er af mörgu að taka þegar ég hugsa um Kollu mágkonu, fyrst og fremst var hún mikil fjölskyldukona, þau voru einstaklega samrýnd fjölskylda.

Síðustu þrjár vikurnar var Kolla á spítala en ég var stödd á Spáni og talaði oft við hana í myndsamtali sem var ómetanlegt og margt rætt. Kolla vissi í hvað stefndi en ætlaði ekki að gefast upp, það var ýmislegt sem hún þurfti að gera og skipuleggja, það var miklu skemmtilegra að hafa jákvæða hugsun og gera lífið bærilegra fyrir þá sem í kringum hana voru. Síðustu vikuna var Kolla á líknardeildinni, ég heimsótti hana þangað, það var sama æðruleysið og áður, hún ræddi dauðann, hræddist hann ekki, fullviss um að hún fengi góðar móttökur í Sumarlandinu. Hún vildi vissulega vera lengur með fjölskyldunni sem hún elskaði mest af öllu, sjá barnabörnin vaxa og fullorðnast en hún var þakklát fyrir góðu árin sem hún fékk með þeim.

Elsku Kolla það er svo margt sem fer í gegnum hugann, þakklæti, væntumþykja, góðar og skemmtilegar minningar en í dag er það söknuður.

Far þú í friði, elsku Kolla.

Hildur mágkona.

Elsku Kolla besta frænka mín. Það er ekki auðvelt að kveðja.

Básendafjölskyldan hefur alltaf haldið góðu sambandi síðan Ella afasystir gerði og sá um brúðkaupsveislu foreldra minna Ragga og Rósu 1960. Þið voruð svo miklir snillingar í bakstri og matargerð. Þetta var miklu flottara hjá ykkur en á Hilton í París. Það var sama hvað þið gerðuð.

Einnig þegar þú fórst í kertagerðina. Mikið var ég stolt þegar þú varst í Laugardalshöllinni að skera út kerti á Heimilissýningunni. Eða postulínsmálningin! Drottinn minn hvað þetta var glæsilegt. Ekki var leiðinlegt að koma í Básendann þegar þið voruð búin að breyta í „Bed and breakfast“, þetta var á upphafsárum ferðaþjónustunnar, alltaf sömu frumkvöðlarnir. Þið voruð snillingar að búa til vinnu.

Alltaf var vel tekið á móti okkur eftir að þið Hlölli byrjuðuð búskap og minnist ég margra stunda á Gerðhömrum.

Hlölli, Ella, Mæja, Kolla og fjölskyldur, missir ykkar er mikill. Ég bið góðan guð að styrkja ykkur.

Hver minning er dýrmæt perla.

Englarnir taka vel á móti elsku Kollu

Jóna frænka á Grundó,

Jóna Björk Ragnarsdóttir.

Orð fá vart þessum nýja veruleika lýst. Nú hefur hún elsku Kolla okkar yfirgefið þennan heim, eftir langa baráttu við illvígt krabbamein.

Kolla var einstök, fyrirmynd og vinur allra. Það voru aldrei til vandamál, það voru bara brettar upp ermar og málið leyst. Hún var svona manneskja sem maður myndi óska sér sjálfur að vera; gríðarlega sterk, þrautseig og hörkudugleg. Sú sem alltaf var hægt að stóla á.

Kolla var lánsöm kona og átti gæfuríkt líf, hamingjusamlega gift hinum góðhjartaða og duglega Hlölla og áttu þau saman þrjár yndislegar, fallegar og vel gefnar dætur, sem ég er stoltur af að fá að kalla frænkur mínar.

Ég og Kolla áttum það sameiginlegt að deila afmælisdegi, 13. desember. Ég var afmælisgjöf hennar er ég kom í heiminn, þann ágæta föstudag árið 1985. Það er sannur heiður að fá að deila þessum degi með þessari einstöku manneskju.

Þegar ég var ungur, enn í skóla og bjó í Gerðhömrunum, þá var ég ávallt velkominn til Kollu frænku og Hlölla, þar sem við krakkarnir lékum saman. Eitt sinn gekk ég það langt að óska mér að Kolla og Hlölli væru foreldrar mínir. Þau komu ávallt fram við okkur systkinin sem sín eigin.

Þegar ég var nýkominn með bílpróf horfði ég öfundaraugum á alla í kringum mig vera að fá sér einkanúmer. Kolla stökk þá til og bauðst til að kaupa það fyrir mig, jafnvel þótt mamma og pabbi sýndu mótspyrnu, í þeim tilgangi að kenna mér gildi peninga og að safna þeim.

Kolla, Hlölli og dætur þeirra heimsóttu oft á tíðum sumarbústað sem fjölskyldan átti við Apavatn, sem bar það fallega nafn Systrasel. Í hvert mál framkallaði Kolla dýrindis kræsingar. Það var aldri setið að auðu borði hjá Kollu. Ég man alltaf eftir henni sem miklum og góðum gestgjafa þar sem hún tók ávallt vel á móti manni og lét manni líða eins og það væri gaman að sjá mann og að maður væri velkominn. Þannig var hún Kolla, umhugað um að fólk færi frá henni hamingjusamt, glatt – og satt.

Ég veit að þú ert á friðsælum og góðum stað með foreldrum þínum og bræðrum. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að við hér á jörðu niðri söknum þín, alla daga, alltaf.

Megir þú hvíla í friði, elsku Kolla mín. Þú átt alltaf stað í hjarta mínu og minningarnar um þig munu lifa áfram.

Guðjón Jónsson.