Skammtímaleiga Á myndinni sést að margar íbúðanna hafa ekki fasta íbúa.
Skammtímaleiga Á myndinni sést að margar íbúðanna hafa ekki fasta íbúa. — Ljósmynd/X
Ragnhildur Helgadóttir ragnhildurh@mbl.is Um helgina var vakin athygli á því á samfélagsmiðlinum X að í fjölbýlishúsinu við Bríetartún 9 til 11 væri stór hluti íbúða notaður undir skammtímaleigu til ferðamanna. Á mynd sem þar birtist má sjá að 29 íbúðir eru í eigu SIF Apartments. Í aðeins fimm íbúðum virðist fólk hafa fasta búsetu. Af heimasíðu SIF Apartments má greinilega sjá að fyrirtækið rekur gistiþjónustu fyrir ferðamenn.

Ragnhildur Helgadóttir

ragnhildurh@mbl.is

Um helgina var vakin athygli á því á samfélagsmiðlinum X að í fjölbýlishúsinu við Bríetartún 9 til 11 væri stór hluti íbúða notaður undir skammtímaleigu til ferðamanna. Á mynd sem þar birtist má sjá að 29 íbúðir eru í eigu SIF Apartments. Í aðeins fimm íbúðum virðist fólk hafa fasta búsetu. Af heimasíðu SIF Apartments má greinilega sjá að fyrirtækið rekur gistiþjónustu fyrir ferðamenn.

Á miðlinum kemur fram nokkur gremja sökum þess að íbúðirnar hafi upphaflega verið hugsaðar sem viðbót við almennan markað, en ekki til útleigu til ferðamanna.

Þróunin kemur á óvart

Í apríl 2018 fjallaði Morgunblaðið um það að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefði synjað því að veita gistileyfi fyrir 38 íbúðir við Bríetartún 9-11. Í húsinu eru alls 94 íbúðir.

Stuttu síðar var synjuninni hins vegar snúið við. Í umfjöllun Morgunblaðsins kom fram að sennilega væri án fordæmis að svo margar íbúðir í nýju húsi væru leigðar út til ferðamanna.

Hjálmar Sveinsson var formaður umhverfis- og skipulagsráðs árið 2018. Er hann þar enn fulltrúi. Hann segir þetta slæma þróun sem komi sér á óvart. „Ég er mjög hissa á henni.“

Hjálmar segist ekki hafa verið upplýstur um að gistileyfið hefði fengist samþykkt. „Ég vissi ekki að þessu hefði verið snúið við og ég tel það miður. Mér finnst mikilvægt að það sé lögð öll áhersla á að byggja íbúðir fyrir fólk sem býr hér og starfar.“

Hann tekur einnig fram að þetta sé leiðinlegt fyrir aðra íbúa í húsinu. Einhverjir hafi sennilega keypt íbúðir í Bríetartúni 9-11 ómeðvitaðir um að stór hluti hússins væri nýttur í hótelrekstur. „Ég skil íbúa mjög vel sem hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar það kemur í ljós.“

Hjálmar segist þó hlynntur því að fólk geti nýtt eigin íbúðir í skammtímaleigu. Það hafi sjálft ráðstöfunarrétt á eigin eignum. „En það horfir öðruvísi við ef kannski einhverjir efnaðir einstaklingar fara að kaupa margar íbúðir, taka þær út af almenna markaðnum og reka þær sem skammtímaleiguíbúðir.“

Hann nefnir til dæmis nýlega tölfræði sem bendir til þess að hærra hlutfall skammtímaleiguíbúða sé í Reykjavík en í öðrum borgum. „Það þarf örugglega að setja meiri takmörk á það ef það er rétt,“ segir Hjálmar.

Skammtímaleiga heimil á uppbyggingarreitum

Björn Axelsson skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar segir borgina sennilega vera með hvað stífastar reglur af sveitarfélögum landsins hvað viðkemur skammtímaleigu íbúða. Óheimilt sé að breyta íbúðum í gististarfsemi á íbúðarsvæðum og mörgum svæðum innan miðborgarinnar.

Björn skýrir að heimilt sé að vera með skammtímaleigu á uppbyggingarreitum, en Bríetartún stendur einmitt innan eins slíks. Ákvörðunin um að veita íbúðunum gistileyfi var tekin af skipulagsyfirvöldum borgarinnar. „Það var metið á þessum tíma að þetta ætti að ganga upp hvað þennan reit varðar,“ segir Björn.

Björn nefnir að mikið sé um hótel á svæðinu. Stefna borgarinnar sé að beina gististarfsemi í auknum mæli út úr miðborginni og út í jaðra hennar. Til dæmis við Bríetar- og Borgartún. „Við höfum reynt að fría miðborgina og ýta þessu inn á aðalgötur eða sérstaka uppbyggingarreiti,“ segir Björn.

Þetta er því að hans sögn alveg í samræmi við stefnu borgarinnar. Hann bendir á að borgin hafi einnig verið að herða reglur í tengslum við gistirými. „Fólk hefur fundið gloppur í kerfinu og við herðum reglurnar alltaf smátt og smátt til að halda betur utan um þetta,“ segir Björn.

Spurður hvort gistileyfi yrði veitt núna, kæmi þetta aftur upp, svarar Björn því játandi. „Ég hugsa það. Þetta er alltaf mat hverju sinni, en ég held það.“ Sé litið til heildarsvæðisins megi sjá að þar sé talsverð uppbygging íbúða sem ætlaðar eru fyrir almennan markað. Til dæmis við Borgartún.

Björn nefnir að stórt vandamál við gistirekstur í borginni séu útleigurými sem rekin eru í óleyfi. Slíkur rekstur sé víða. „Það er eftirlitið með þeim sem er hvað síst sinnt af hálfu ríkisins. Sem er stór biti markaðarins sem væri annars íbúðir á almennum markaði.“

Höf.: Ragnhildur Helgadóttir