Jólatónleikar Hefð hefur skapast fyrir því að allir söngvararnir komi saman á svið í lokaatriði tónleikanna.
Jólatónleikar Hefð hefur skapast fyrir því að allir söngvararnir komi saman á svið í lokaatriði tónleikanna. — Ljósmynd/Gunnhildur Lind
Árlegir jólatónleikar Hljómlistarfélags Borgarfjarðar verða haldnir í Hjálmakletti í sjöunda sinn sunnudaginn 10. desember. Á tónleikunum koma fram Borgfirðingar sem allir eiga það sameiginlegt að geta sungið, en hafa þó mismikla reynslu af því að koma fram

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Árlegir jólatónleikar Hljómlistarfélags Borgarfjarðar verða haldnir í Hjálmakletti í sjöunda sinn sunnudaginn 10. desember. Á tónleikunum koma fram Borgfirðingar sem allir eiga það sameiginlegt að geta sungið, en hafa þó mismikla reynslu af því að koma fram.

Þóra Sif Svansdóttir, formaður Hljómlistarfélags Borgarfjarðar og söngkennari í Tónlistarskóla Borgarfjarðar, segir markmiðið með tónleikunum að draga fram tónlistarfólk úr héraðinu og veita því tækifæri til að koma fram.

„Við erum að reyna að efla fólk, reyna að fá það út úr skelinni og hvetja það til að gera meira. Það má stíga út úr skelinni!“ segir Þóra ánægð með framgang verkefnisins síðustu ár, enda hafa 37 mismunandi söngvarar, sem allir tengjast Borgarfirði á einhvern hátt, tekið þátt í tónleikunum frá upphafi. Auk gesta úr héraði er síðan ávallt einn aðalgestur, eða landsþekktur söngvari, segir Þóra og bætir við að í ár sé aðalgestur tónleikanna Daníel Ágúst Haraldsson. Daníel Ágúst þekkja flestir, en hann er meðal annars meðlimur hljómsveitanna Nýdönsk og GusGus, ásamt því að vera Idol-dómari, svo eitthvað sé nefnt.

Þannig koma fram nýir söngvarar á ári hverju, í bland við aðra sem áður hafa stigið á svið á jólatónleikunum. Þóra segist vera dugleg að sækja tónlistarviðburði í héraðinu og fylgjast þannig með upprennandi söngvurum. Hún segir að fyrstu árin hafi þurft að hafa eilítið fyrir því að fá fólk til að stíga á svið, en nú sé það farið að sækjast eftir að taka þátt í tónleikunum. Þá hafa nemendur úr Tónlistarskóla Borgarfjarðar ávallt tekið þátt í tónleikunum, en Þóra segir það frábært tækifæri fyrir nemendur skólans að fá að syngja á stórum tónleikum.

Þóra segir tónleikana eins konar samfélagsverkefni. Lagt sé upp með að halda miðaverði í lágmarki og að öll þjónusta í kringum tónleikana sé úr héraðinu. Sem dæmi sjá kvenfélagskonur úr Kvenfélagi Borgarness um kaffisölu, Gunnhildur Lind ljósmyndari í Borgarnesi sér um að taka myndir, Kvikmyndafélag Borgarfjarðar hefur séð um að taka tónleikana upp, Prentþjónusta Vesturlands sér um að prenta miða og miðarnir eru síðan seldir í Brúartorgi, sem er gjafa-, prjóna- og ljósmyndaþjónusta í Borgarnesi. Þannig leggjast allir á eitt og úr verður ógleymanleg kvöldstund, segir Þóra sem hvetur fólk til að næla sér í þá miða sem eftir eru.