Sigurður Ingi Sigurpálsson
Sigurður Ingi Sigurpálsson
Þegar á að fara að nota almannafé í að bjarga einkafyrirtækjum, erum við þá ekki komin af leið?

Sigurður Ingi Sigurpálsson

Við skulum hafa samúð með Grindvíkingum þegar þeir neyðast til þess að yfirgefa heimili sín allslausir vegna jarðskjálfta og yfirvofandi eldgoss og vita ekki hvort þeir muni geta snúið aftur. Þó að þetta séu aðeins veraldlegar eigur þá skipta þær máli og eru oft hjartfólgnar eigendum.

Þá eigum við sem samfélag að aðstoða Grindvíkinga og aðra sem verða fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara. Stjórnvöld eiga að koma þeim til aðstoðar þegar svona atburðir gerast því í því felst samhjálpin. Sú aðstoð sem stjórnvöld eru að veita íbúum Grindavíkur er til fyrirmyndar og vonandi munu þau halda áfram aðstoð til að venjulegt fólk geti snúið aftur til síns hversdagslífs án mikilla vandkvæða.

Þegar á að fara að nota almannafé í að bjarga einkafyrirtækjum, erum við þá ekki komin af leið? Því þegar opinber rekstur er seldur er allt sem viðkemur þeim rekstri reiknað inn í kaupverðið og þar með allir áhættuþættir sem að því koma, s.s. staðsetning. Yfirleitt er það þannig að fyrirtæki á markaði bera alla áhættuna en á móti fá þeir líka allan arðinn. Það er því undarlegt að skattgreiðendur einir kosti aðgerðir sem fara á í til að reyna að lágmarka skaða einkafyrirtækja sem þau kunna að verða fyrir, þegar eigendur þeirra hefðu átt að þekkja áhættuna vegna staðsetningarinnar.

En þetta er ekki nýtt af nálinni hér á Íslandi því þegar hætta steðjar að stórum einkafyrirtækjum eru stjórnvöld alltaf tilbúin til þess að hlaupa til og bjarga þeim með almannafé. Þetta höfum við öll séð gerast nokkrum sinnum, bæði í hruninu 2008, covid-faraldrinum og nú sjáum við það gerast enn og aftur. Stjórnvöld virðast vilja bjarga einkafyrirtækjum með almannafé án þess að gera nokkra kröfu um að þau gefi eitthvað til baka, er það í lagi? Hvað gerist svo þegar þetta er yfirstaðið? Er eigendum þeirra þá bara klappað á bakið og sagt við þá „verði ykkur að góðu“?

Það mætti halda að hér á Íslandi sé það regla fremur en undantekning að ef þú kaupir rekstur af hinu opinbera þá njótir þú gróðans sem myndast en ef það eru einhver áföll eiga skattgreiðendur að borga brúsann. Er það eitthvað sem við erum sátt við?

Ég óska þess að Grindvíkingar komist í gegnum þessa erfiðu tíma og geti haldið áfram tilveru sinni án vandkvæða.

Höfundur er nemi.

Höf.: Sigurður Ingi Sigurpálsson