Ingibjörg Árnadóttir fæddist 22. október 1924. Hún lést 1. nóvember 2023.

Útför Ingibjargar fór fram 16. nóvember 2023.

Ég var næstelst af barnabörnum Ingu og var svo lánsöm að fá að eyða miklum tíma með henni. Ég bjó erlendis en sumur og jól kom ég heim og var með ömmu og fékk að fylgja henni flestallt sem hún fór. Man ég eftir okkur gangandi stokkinn á leið í Hlíðaskóla þar sem hún vann og ræddum um heima og geima á leiðinni. Ef maður fór eitthvað að lýjast og kvarta undan þreytu benti hún á einhvern blett fram undan og spurði: „Af hverju hleypur þú ekki þangað, þú getur þá hvílt þig á meðan ég næ þér.“ Tók maður þá á sprett og náði svo kannski mínútu hvíld. Ekki var nú hvíldin mikil en sálrænt virkaði þetta og maður hélt endurnærður áfram.

Amma var mikil skíðakona og studdi okkur barnabörnin í okkar skíðaiðkun með ráðum og dáð. Hún skíðaði ferð eftir ferð með mér sem barn og get ég enn þann dag í dag heyrt óminn af „beygja hnén, Inga, beygja hnén!“ þegar ég skíða niður Bláfjallabrekkurnar. Fátt fannst henni skemmtilegra en að komast upp í fjall og anda að sér fjallaloftinu og fylgjast með okkur barnabörnunum og seinna barnabarnabörnunum skíða niður.

Á unglingsárum mínum bjuggum við mamma á hæðinni fyrir ofan mömmu. Ef amma var heima tók hún oft á móti mér með nýbökuðum pönnukökum eftir skóla. Þegar ég fór að fara á böll og út á lífið vakti hún eftir mér og var alltaf ljós í glugganum hjá henni sem slokknaði um leið og ég gekk fram hjá. Ekki vildi hún þó gangast við því daginn eftir, hún hefði bara verið að lesa bók og tilviljun ráðið að hún hætti þarna. Fannst óþarfi að ég væri að hafa áhyggjur af því að halda vöku fyrir henni.

Amma þekkti allt landið og hafði ferðast um það víða. Þegar ég vann á hálendinu norðan Vatnajökuls fylgdist hún vel með, ræddi um hvar ég hafði verið og hvaða leið hefði verið farin. Iðulega átti hún til góðar og oft meinfyndnar sögur af fyrri ferðum um sömu slóðir. Það var alltaf gott að koma til ömmu, hvort sem það var til að spjalla eða bara til að horfa út um gluggann og fylgjast með lífinu og tilverunni. Einhvern tímann ræddum við um líf eftir dauðann. Amma var nú ekki alveg viss en það vissi hún að maðurinn lifir áfram í minningum okkar sem eftir erum og þegar við framkvæmum og kennum áfram það sem okkur var kennt. Amma mun því lifa áfram hjá mér í öllum þeim ótalmörgu verkum sem hún kenndi mér; þegar ég brýt saman þvott, baka pönnsur á tveimur pönnum, anda djúpt að mér tæru fjallalofti og kalla á eftir syninum niður skíðabrekkurnar: „Og muna svo að beygja hnén!“

Inga Sóley Kristjönudóttir.