Sendiherrann Avraham Nir segist bjartsýnn á að hægt verði að bæta samskipti Íslendinga og Ísraelsmanna eftir að stríðinu í Gasa lýkur.
Sendiherrann Avraham Nir segist bjartsýnn á að hægt verði að bæta samskipti Íslendinga og Ísraelsmanna eftir að stríðinu í Gasa lýkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Ísland er einstakur staður fyrir mér,“ segir Avraham Nir, sendiherra Ísraels á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið, en hann kemur úr mikilli skákfjölskyldu í Ísrael. „Einn stærsti skákklúbburinn í Ísrael heitir í höfuðið á frænda mínum og faðir minn var forseti klúbbsins,“ segir Nir, sem lærði mannganginn ungur að árum.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Ísland er einstakur staður fyrir mér,“ segir Avraham Nir, sendiherra Ísraels á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið, en hann kemur úr mikilli skákfjölskyldu í Ísrael. „Einn stærsti skákklúbburinn í Ísrael heitir í höfuðið á frænda mínum og faðir minn var forseti klúbbsins,“ segir Nir, sem lærði mannganginn ungur að árum.

Hann rifjar upp að hann var tíu ára gamall þegar Bobby Fischer og Boris Spasskí mættust í einvígi aldarinnar í Laugardalshöllinni, og segir að það hafi haft mjög mótandi áhrif á sig. „Allir í Ísrael voru á bandi Fischers og allir á móti Spasskí, því hann var fulltrúi Sovétríkjanna,“ segir Nir.

Hann sjálfur hafi hins vegar farið að halda með Spasskí, aðallega því að honum hafi mislíkað hvernig Fischer hegðaði sér. „Ég áttaði mig þar á því, tíu ára gamall, að það skipti ekki máli hvað hinir eldri sögðu, maður ætti alltaf að mynda sér sína eigin sjálfstæðu skoðun á því sem er að gerast,“ segir Nir.

Áfallið mikið

Talið berst að ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs og átökunum milli Ísraelshers og hryðjuverkasamtakanna Hamas, sem hófust með grimmilegri árás samtakanna á suðurhluta Ísraels. Áætlað er að um 1.200 manns hafi fallið í árásinni, auk þess sem 240-250 manns voru teknir sem gíslar. Er þetta mannskæðasta árás á gyðinga frá því í helförinni.

Nir segir að áfallið hafi verið mikið fyrir Ísraelsmenn, sem séu enn að takast á við afleiðingar árásarinnar. „Við erum enn að bera kennsl á fólk og komast að afdrifum þess, hvort það féll í árásinni eða var tekið sem gíslar,“ segir Nir.

Hann segir Ísraelsmenn enn vera í sárum vegna árásarinnar og bætir við að talsmenn Hamas-samtakanna hafi heitið því að Hamas myndi „endurtaka“ 7. október allt þar til Ísraelsríki hættir að vera til. Ísraelsmenn líti því svo á að þeir séu að berjast til þess að fá bæði gíslana til baka, en einnig til að tryggja að Hamas-samtökin geti ekki ógnað Ísraelsríki framar.

Nir bætir við að árásin 7. október hafi ekki þjónað neinum tilgangi fyrir Palestínumenn, heldur hafi hún einungis þjónað hagsmunum Hamas-samtakanna og klerkastjórnarinnar í Íran, sem eigi nú í deilum við flest ríki Mið-Austurlanda, ekki bara Ísrael.

Skeyta engu um eigin þjóð

Talið berst að Hamas-samtökunum og hvernig þau hafi nálgast stríðið við Ísraelsmenn. Nir segir aðspurður ljóst að samtökin skeyti nákvæmlega engu um örlög almennra Palestínumanna á Gasasvæðinu.

Hann nefnir sem dæmi að þegar barist var í nágrenni al-Shifa-sjúkrahússins í Gasaborg hafi Ísraelsher flutt 300 lítra af eldsneyti til sjúkrahússins svo að það yrði ekki eldsneytislaust. Þá hafi Ísraelar komið með hitakassa fyrir fyrirbura og boðið aðstoð við að flytja þá brott, en fengið neitun. „Hamas vill hafa þau þar, því það er vopn í áróðursstríðinu á meðan hermenn okkar hætta lífi sínu til þess að reyna að koma þeim í skjól.“

Hann víkur einnig að þeim mannfallstölum sem hafa borist frá Gasasvæðinu. „Það er mikið af tölum sem eru ekki endilega réttar, því þær koma frá heilbrigðisráðuneytinu á Gasasvæðinu. En hvað þýðir það í raun? Því ráðuneytið er hluti af stjórnvöldum þar, og stjórnvöld þar eru Hamas-samtökin, sömu samtök og brenndu börn lifandi, nauðguðu konum og myrtu, bundu mæður við börn sín og brenndu á lífi. Þetta er ríkisstjórnin á Gasasvæðinu, þetta er heilbrigðisráðuneytið, þannig að augljóslega er ekki hægt að treysta fréttatilkynningum frá þeim, líkt og sást 17. október,“ segir Nir.

Tvær mismunandi reglur

Hann vísar þar í sprengingu sem varð við al-Ahli-sjúkrahúsið, þar sem heilbrigðisráðuneytið var fljótt til að saka Ísraelsmenn um að hafa ráðist á sjúkrahúsið og drepið um 500 manns. Flestir fjölmiðlar hins vestræna heims endurtóku þær ásakanir athugasemdalaust.

Nir nefnir sem dæmi að yfirstjórn Ísraelshers hafi þar verið 99% viss innan við fimmtán mínútum síðar um að ábyrgðin á sprengingunni lægi ekki hjá sér, en beðið hefði verið með yfirlýsingar þar til það væri algjörlega öruggt. Sú bið hafi hins vegar reynst dýrkeypt, þar sem hin ranga frétt hefði farið á flug í millitíðinni. Hið rétta hafi verið að eldflaug frá Palestínumönnum, sem átti að enda í Ísrael, hafi bilað, og að mannfallið hafi að mati Ísraela verið innan við fimmtíu manns.

„Og svo vorum við komin í stöðu þar sem Biden Bandaríkjaforseti sagðist hafa heimildir frá Pentagon um að það hefðu ekki verið Ísraelsmenn [sem réðust á sjúkrahúsið], og franska leyniþjónustan sagði að þetta væri ekki Ísrael, en þá voru margir fjölmiðlar víða um heim sem greindu frá því en létu enn sem hin útgáfan sem sett hefði verið fram væri möguleg,“ segir Nir og segir það sérstakt að sumir fjölmiðlanna hafi í því tilfelli látið eins og Biden Bandaríkjaforseti og Hamas-samtökin hefðu sama trúverðugleika.

Hann nefnir það atvik sem eitt dæmið um það hvernig Hamas-samtökin og Ísraelsmenn fylgi mismunandi reglum í stríðinu. „Þeir láta eins og þeir séu í götuáflogum meðan við reynum að fylgja þeim reglum sem gilda,“ segir Nir og bætir við að Hamas-samtökin sjái ekkert athugavert við það að falsa upplýsingar.

„Þú sérð stundum myndir af palestínskum börnum sem hafa dáið, en þegar uppruni myndanna er kannaður kemur í ljós að þær eru frá sýrlenska borgarastríðinu, þar sem Assad myrtu um 80% af palestínskum flóttamönnum sem voru í flóttamannabúðum þar. Þær myndir eru svo notaðar núna sem myndir af börnum sem Ísraelsmenn eru sagðir hafa drepið á Gasasvæðinu núna,“ segir Nir.

Hann tekur sérstaklega fram að sérhvert mannslíf sem tapist sé harmleikur fyrir fjölskyldur og aðstandendur viðkomandi. Það hafi hins vegar enginn Ísraeli óskað eftir því að fara í stríð gegn Hamas, ekki frekar en vesturveldin hafi óskað eftir því á sínum tíma að kljást við og ráða niðurlögum al-Kaída-samtakanna eða Ríkis íslams á sínum tíma.

Ljóst að byggja þarf upp samskipti þjóðanna að nýju

Nir segir aðspurður ljóst að samband Ísraels og Íslands hafi farið versnandi með árunum. Hann segir það skiljanlegt að almenningur á Íslandi hafi samúð með Palestínumönnum, en Mið-Austurlönd séu flókin og ástandið langt í frá hvítt eða svart. „Það er í lagi að standa með Palestínumönnum, og það er jafnvel í lagi að gagnrýna Ísrael, en fólk þarf þá betur að reyna skilja raunveruleikann, kynna sér staðreyndir og draga ályktanir af þeim, en ekki af slagorðum fólks sem segist vera friðsamt, en er í raun að kalla eftir útrýmingu Ísraels,“ segir Nir.

Hann segir þó ljóst að þörf sé á að byggja upp samskipti þjóðanna tveggja að nýju, og að það muni gerast smátt og smátt. Fyrst þurfi þó núverandi átökum að ljúka. „Við munum ekki snúa huga allra í einu, það er ómögulegt, en það sem við getum gert er að finna þrjú til fjögur verkefni þar sem Íslendingar og Ísraelar geta unnið saman,“ segir Nir og nefnir sem dæmi að þau gætu verið í hátæknigeiranum eða í samvinnu háskóla eða menningarskiptum. „Og þegar fólk sæi að þau verkefni ganga vel, þá væri hægt að víkka samskiptin út þaðan,“ segir Nir.

Hann bætir við að hann sé bjartsýnn á að hægt sé að bæta samskipti Íslendinga og Ísraela eftir að stríðinu lýkur. „Fólk í Ísrael elskar Ísland og Ísraelar eru mjög opnir gagnvart Íslandi og Íslendingum, þrátt fyrir að íslenska þjóðin sé nú gagnrýnin á Ísrael,“ segir Nir.