Friðbjörn Þórðarson fæddist í Skálabrekku á Húsavík 6. júlí 1943. Árið 1945 færði fjölskyldan sig um set í Bröttuhlíð, er foreldrar hans höfðu keypt. 7. nóvember 1988 flytur Bjössi í nýbyggt hús sitt, Skálabrekku 13, við hliðina á Bröttuhlíð ásamt eiginkonu sinni og börnum þeirra. Friðbjörn lést á heimili sínu 18. nóvember 2023 og lauk þá rúmlega áttatíu ára búsetu hans í sömu götunni.

Foreldrar hans voru Þórður Friðbjarnarson, f. 7.11. 1898 í Rauðuskriðu í Aðaldal, d. 11.4. 1966, verkamaður og bóndi, og Dalrós Hulda Jónasdóttir, f. 10.9. 1910 í Móbergi á Húsavík, d. 19.2. 2001, húsfreyja. Börn þeirra voru tíu, Kristín Aðalheiður, látin, Kristján Sigurður, látinn, Njáll Trausti, látinn, Rósa, bús. á Húsavík, Jónas Þór, bús. í Reykjavík, Jónasína Kristjana, bús. í Sandgerði, Friðbjörn, sem hér er minnst, Vigdís Guðrún, bús. í Hafnarfirði, Skarphéðinn, látinn, og Sólveig, bús á Húsavík.

Eiginkona Friðbjörns frá 4. október 1975 er Sigurrós Þórarinsdóttir, f. 18.5. 1957 í Skógum í Öxarfirði, sjúkraliði á HSN Húsavík. Foreldrar Þórarinn Björnsson, f. 24.9. 1933 í Skógum, d. 1.12. 2009 á Húsavík, bóndi og hreppstjóri í Sandfellshaga Öxarfirði, og Erla Dýrfjörð, f. 19.3. 1939 á Siglufirði, húsfreyja, bús á Kópaskeri. Systkini Rósu eru Margrét, Ólöf, Björn Hólm, Anna Jóhanna, Sigþór og Rúnar. Börn Bjössa og Rósu eru: 1) Sigurrós, f. 83. 1976 á Húsavík, starfar hjá Icelandair á Keflavíkurflugvelli, börn hennar eru Alexander, f. 9.9. 1997 á Húsavík, nemi í Háskóla Íslands, sambk. Margrét Áslaug Heiðarsdóttir, f. 17.2. 1998, og Tinna Rós Dýrfjörð, f. 2.5. 1999 á Húsavík, starfar í Apóteki Hafnarfjarðar. 2) Þórður, f. 17.7. 1980 á Húsavík, flugumferðarstjóri, þjálfunarstjóri í flugumferðarstjórn hjá Isavia ANS í Reykjavík, sonur hans og Guðrúnar Snæbjartar Þóroddsdóttur er Nóel Björn, f. 22.11. 2011 í Reykjavík.

Skólaganga Friðbjörns var við Barnaskóla Húsavíkur. Tíu ára gamall byrjaði hann að vinna launaða vinnu sem sendill á gamla sjúkrahúsinu á Húsavík. Eitt sumar var hann á Heiði á Langanesi hjá Jónasi Bjarnasyni afa sínum, eftir það tók við ýmis vinna sem til féll á Húsavík s.s. á síldarplönum, eitt sumar við byggingu hafnargarðsins og annað sumar í vegavinnu hjá Guðmundi Jónassyni móðurbróður sínum. Þegar Friðbjörn er 16 ára fer hann á vertíð til Vestmannaeyja og einn túr á varðskip um vorið ásamt Hreiðari heitnum Olgeirs. jafnaldra sínum og frænda. Eftir það taka við vertíðir í Sandgerði, Ólafsvík og fleiri stöðum ásamt tilfallandi vinnu á Húsavík. Árið 1967 byrjar Friðbjörn að keyra vörubíl hjá Húsavíkurbæ og árið eftir fer hann í meirapróf til Akureyrar. 1972 gerist hann meðeigandi í Bifreiðastöð Húsavíkur og var eftir það sjálfstætt starfandi bifreiðastjóri með eigin bíl til starfsloka ásamt því að fara til sjós á Húsavík yfir veturinn nokkur síðustu starfsárin. Friðbjörn var einn af stofnendum Trésmíðaverkstæðisins Norðurvíkur á Húsavík ásamt Sigtryggi Sigurjónssyni og Aðalsteini Jónassyni mági sínum og var eigandi þar til margra ára.

Kveðja frá eiginkonu

lífið er svo undarlega unaðslegt með þér

út og suður upp og niður í allar
áttir fer

hver dagur felur í sér gleði og í huga sólin hlær

hamingjan er sem fallegt blóm sem í hjörtum okkar grær

ég tileinka þér helming þessa hjarta sem ég á

og heyri líka hjarta þitt í sama
takti slá

kannski er ég draumhugi en draumar eru spor

í dansi þeirra er lifa í von um dirfsku ást og þor

hamingjunnar blóm er hér

í hjartans geymslustað

elska fæðir elsku af sér

ástin sannar það

er angan þessa blóms mér berst þá hugsa ég til þín

það bætir raunir sérhvers dags og léttir verkin mín

ég lít oft upp í himininn og skrifa á dúnmjúk ský

skilaboðin ég elska þig og hef svo vinnu á ný

(Hörður Torfason)

Elsku vinur, allar góðar vættir geymi þig þar til við hittumst næst.

Sigurrós (Rósa).

Í dag kveðjum við fjölskyldan elsku pabba minn hann Bjössa í Bröttuhlíð sem lést eftir níu mánaða hetjulega baráttu við krabbamein.

Hann var einstakur pabbi og afi, duglegur, ósérhlífinn og góð fyrirmynd í svo mörgu og vildi fyrst og fremst allt fyrir okkur fjölskylduna gera. Hann vann alla tíð mikið en þar fyrir utan var hann afar heimakær og naut sín vel með góða bók. Endalausar góðar minningar streyma fram sem ég ætla að hafa fyrir mig. Það sem ég á eftir að sakna þín, elsku pabbi minn, missirinn er mikill og tilhugsunin um að þú sért farinn svo óraunveruleg.

Takk fyrir öll þín gæði við mig og börnin mín.

Þín dóttir,

Rósa.

Sigurrós
Friðbjarnardóttir.

Elsku afi minn.

Alla mína ævi hef ég verið algjör afastelpa, ég vissi ekki um neitt betra en stórt afaknús og að sitja við eldhúsborðið hjá þér og spila olsen við þig. Ég heyri þig ennþá segja „nei,nei,nei“ í hvert sinn sem þú dróst vitlaust spil svo hristir þú bara höfuðið og brostir til mín. Og allar bíómyndirnar sem við horfðum á saman eftir að ég varð eldri, já það væri af mörgu að taka sem við gerðum saman.

Þegar ég kom í heimsókn til ykkar ömmu var það alltaf það fyrsta sem ég heyrði þegar ég vaknaði, „Nei, ert þú vöknuð elskan mín? Viltu að afi eldi hafragraut handa þér? Eða viltu ristað brauð og kakó?“ Og áður en ég náði að svara varst þú staðinn á fætur og farinn inn í eldhús. Þannig varst þú tilbúinn að gera allt fyrir mig. Mér fannst morgunmaturinn hjá þér alltaf bragðast best því þú gerðir hann af svo mikilli væntumþykju.

Ég hef oft fengið að heyra það frá þeim sem þekkja þig að þú værir svo yndislegur eðalmaður og ég hafi algjörlega dottið í afa- og ömmulukkupottinn. Það að alast upp heima hjá ykkur, mynda við ykkur góð tengsl er eitt það besta sem ég á í dag.

Ein af mínum uppáhaldssögum sýnir bara hversu traustvekjandi og mikill dýravinur þú varst. En það er sagan af andarkollunni sem labbaði upp tröppurnar og bankaði upp á hjá þér. Á hverju sumri í nokkur ár komu andarhjón við og fengu hjá þér vatn og brauð. Einn daginn hafði þú ekki tekið eftir þeim sitjandi fyrir framan húsið að bíða eftir matnum sínum. Kollan tók þá upp á því að labba upp tröppurnar að útidyrahurðinni og gogga á hana. Þú hélst að líklegast væri einhver að koma í kaffi og spjall. Þú ferð þá og opnar hurðina og þá stendur öndin fyrir framan þig og bíður eftir matnum sínum.

Fyrir nokkrum árum sátum við saman og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar þegar að umræðan um dauðann berst í tal. Ég sagði þér hversu erfitt það yrði þegar að sá dagur kæmi að þú værir ekki hérna lengur. Ég vissi ekki hvernig ég myndi geta komist í gegnum lífið án þín.

Þú vissir alltaf hvað þú áttir að segja því ég gekk út úr þessu samtali alls ekki eins hrædd. Þú sagðir að þú værir sáttur og værir búinn að lifa góðu og hraustu lífi. Þegar að þú færir þá þyrfti ég alls ekki að syrgja né vera hrædd því þú myndir alltaf passa upp á mig, alveg þangað til minn tími væri kominn. Það besta sem að ég gæti gert við mitt líf væri að lifa því þannig að þegar að minn tími kæmi þá væri ég sátt.

Þú varst og munt alltaf vera besti afi sem ég hefði nokkurn tímann getað hugsað mér.

Lífið mun aldrei vera eins án þín elsku afi minn.

Þín afastelpa,

Tinna Rós.