Kristjana Fenger fæddist 16. febrúar 1951. Hún lést 11. nóvember 2023.

Útför Kristjönu fór fram 21. nóvember 2023.

Nú hefur Kristjana okkar Fenger kvatt en hún mun svo sannarlega lifa áfram í hjörtum okkar. Við sem störfuðum með Kristjönu við iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri erum fullar af þakklæti í hennar garð. Margar okkar voru svo lánsamar að vera nemendur hennar á sínum tíma en einlægur áhugi á viðfangsefninu, sköpunargleði og kraftur einkenndu kennsluna. Ein af annarri urðum við svo samstarfskonur Kristjönu og höfum notið ómetanlegs stuðnings frá henni. Sama hversu mikið var að gera, þá gaf hún sér alltaf tíma til að styðja og hvetja á sinn hreinskiptna og fallega máta. Kristjana var brautryðjandi og hafði mótandi áhrif á þróun iðjuþjálfunar á Íslandi en hún þýddi og staðfærði fjölmörg matstæki. Það er því ekki að ástæðulausu sem Kristjana hefur verið nefnd drottning matstækjanna í okkar hópi.

Kristjana var einstök manneskja. Hún var ekki einungis fagleg, heldur líka dæmalaust skemmtileg, með góðan húmor og hlýja nærveru. Hún hafði einstakt lag á að koma auga á það jákvæða í fari fólks og hrósa, hvort sem það tengdist fræðunum, samskiptum, litríkum fötum eða bara fallegum varalit. Hæfileikar Kristjönu voru margir en hún var mjög listræn og skapandi, hafði næmt auga fyrir því fallega og minnisstætt er handbragð hennar á litríkum sjölum sem hún bar svo gjarnan. Hún spilaði líka á gítar og bjó til skemmtilega texta. Á þeim tímamótum þegar kom að því að afhenda keflið til annarrar kynslóðar kennara við iðjuþjálfunarfræðideildina gerði Kristjana sér til að mynda lítið fyrir og samdi söng sem hún rappaði með heilræðum og góðum óskum til okkar. Þannig var Kristjana okkar.

Við kveðjum Kristjönu með djúpu þakklæti og munum leggja okkur fram við að halda minningu hennar á lofti. Fjölskyldu og vinum Kristjönu sendum við innilegar samúðarkveðjur. Hennar er sárt saknað.

Fyrir hönd samstarfs- og vinkvenna við iðjuþjálfunarfræðideild HA,

Sólrún Óladóttir.

Öflug og skapandi félagskona og heiðursfélagi í Iðjuþjálfafélagi Íslands er fallin frá. Kristjana var iðjuþjálfi frá innstu hjartarótum og nú er stórt skarð höggvið í hópinn okkar. Kristjana lagði gríðarlega mikið af mörkum til iðjuþjálfunarfagsins og iðjuþjálfanámsins hér á landi. Hún var einn af frumkvöðlunum í félaginu og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi gegnum árin. Hún sat til að mynda í kjaranefnd félagsins um tíma, trygginganefnd sem barðist fyrir því að þjónusta iðjuþjálfa yrði greidd af almannatryggingakerfinu, skólanefnd og íðorðanefnd, var um árabil fulltrúi í Evrópuráði iðjuþjálfa auk þess að sitja í stjórn félagsins og vera varaformaður þess. Kristjönu þótti afar mikilvægt að saga og þróun fagsins væri skráð. Hún var meðhöfundur að greinum um það efni og hafa þær verið birtar í fagblaði iðjuþjálfa. Kristjana var nákvæm og vandvirk og við áttum nokkur samtöl um það hvað þyrfti að skrá og hvernig, vorum ekki alltaf sammála svo það sé sagt. Kristjana þýddi og staðfærði matstæki sem upprunalega eru bandarísk og skipta miklu máli fyrir starf iðjuþjálfa með skjólstæðingum hér á landi. Hún skynjaði vel hversu mikilvægt það er að faggreinin eigi íslensk orð yfir helstu hugtök og skilgreiningar innan iðjuþjálfunar. Kristjana beindi einkum sjónum að starfshlutverki fólks og þeirri iðju sem því tengist auk starfsendurhæfingar almennt. Þau matstæki og handbækur sem eftir hana liggja eru fjársjóður sem fagið býr að um ókomna tíð.

Ég minnist Kristjönu af þakklæti, hlýju og virðingu. Við áttum nokkur samtöl um fagleg málefni síðustu misserin og ég skynjaði sterkt hversu vænt henni þótti um fagið sitt og að hún vildi koma sinni reynslu og þekkingu til skila. Ég votta fjölskyldu Kristjönu og vinum mína dýpstu samúð.

Þóra Leósdóttir, formaður Iðjuþjálfafélags Íslands.

Kristjana Fenger er öll.

Við kynntumst fyrst á leikskólanum Drafnarborg í Reykjavík, þar sem hún var meðal okkar barnanna, ásamt Emil Fenger bróður sínum.

Seinna vorum við í námi við Menntaskólann í Hamrahlíð kringum 1971, og kynntist ég þar nú betur Emil bróður hennar.

Loks unnum við saman í iðjuþjálfun geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, kringum 1986, þar sem hún var iðjuþjálfi en ég sem aðstoðarmaður iðjuþjálfa.

Ég vil nú skila kveðju til aðstandenda hennar, frá mér og öðru starfsfólki deildarinnar þar þá.

Lengi lifir enn í gömlum glæðum hjá þessu okkur menntafólkinu þar, sem hefur einkum starfað við t.d. ýmiss konar umönnun, kennslu og ritstörf.

Mér sýnist nú af netinu að Kristjana hafi orðið ein af stórum merkisberum menntafólks okkar kynslóðar!

Nokkur af ljóðum mínum drógu dám af þessum vinnustað okkar. Má þar nefna ljóð mitt, úr fyrstu ljóðabók minni af fjölmörgum, er nefnist: Hjá félagsráðgjafanum; en þar yrki ég m.a. svo:

Hún:

Langar þig að ræða um það?

Öll höfum við frumþarfir

fyrir ást, virðingu, öryggi.

Hann:

Ég hef spilað á trompet

og beðið eftir englunum.

Ég er að rifna að innan.

Hún:

Sestu niður og segðu mér frá því.

Öll höfum við týnt svo miklu.

Tryggvi V. Líndal.