Meistari Thelma Aðalsteinsdóttir fagnaði sigri í Halmstad.
Meistari Thelma Aðalsteinsdóttir fagnaði sigri í Halmstad. — Ljósmynd/Auður Sigbergsdóttir
Thelma Aðalsteinsdóttir varð í gær Norður-Evrópumeistari á tvíslá en Norður-Evrópumótinu lauk þá í Halmstad í Svíþjóð. Hún varð þriðja inn í úrslitin á laugardaginn en bætti einkunn sína um 0,466 stig í úrslitunum í gær

Thelma Aðalsteinsdóttir varð í gær Norður-Evrópumeistari á tvíslá en Norður-Evrópumótinu lauk þá í Halmstad í Svíþjóð.

Hún varð þriðja inn í úrslitin á laugardaginn en bætti einkunn sína um 0,466 stig í úrslitunum í gær. Thelma glímdi við meiðsli og það stóð tæpt að hún gæti keppt um helgina.

„Ég meiddi mig á föstudaginn á æfingu í ökklunum þegar ég var á stökki svo ég bjóst ekki við neinu.

Ég vissi ekki einu sinni hvort ég var að fara að keppa á laugardeginum en síðan náðum við að teipa ökklann eitthvað svo ég náði að keppa á öllum áhöldum. Við þurftum að breyta slá og gólfi en ég gerði það sama á tvíslá, sem skilaði mér inn í úrslit,“ sagði Thelma við Morgunblaðið í gær.

„Ég var þriðja inn í úrslitin og það eina sem ég hugsaði um var að gera betur en í gær og einbeita mér betur að litlum punktum,“ sagði Thelma eftir sigurinn.

Íslenska kvennalandsliðið var mjög nálægt því að lenda á verðlaunapalli í liðakeppninni á laugardaginn en aðeins munaði 0,401 á Íslandi og Noregi, sem var í þriðja sæti.

Hildur Maja Guðmundsdóttir, Margrét Lea Kristinsdóttir og Lilja Katrín Gunnarsdóttir komust einnig í úrslit á áhöldum. Lilja lenti í fjórða sæti í stökki með 12.816 í einkunn, aðeins 0,033 frá verðlaunapalli. Margrét lenti í 7. sæti á slá með 11,433 í einkunn og Hildur endaði í fjórða sæti á gólfi með 12,266 í einkunn, aðeins 0,034 stigum frá bronsverðlaunum. Valgarð Reinhardsson varð annar á tvíslá karla með 13,700 í einkunn og Dagur Kári Ólafsson varð þriðji með 13,450. astahind@mbl.is