Áttæringur Báturinn hefur verið í Grindavík frá því í byrjun júní.
Áttæringur Báturinn hefur verið í Grindavík frá því í byrjun júní. — Ljósmynd/Frá Óskari Sævarssyni
Menningararfur Grindvíkinga er samofinn sjósókn og útgerð í nútíð og fortíð. Hollvinasamtök Áttærings hafa hrundið af stað endurgerð áttæringsins Geirs sem brann árið 1993 ásamt þorra bátasafns Þjóðminjasafnsins

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Menningararfur Grindvíkinga er samofinn sjósókn og útgerð í nútíð og fortíð. Hollvinasamtök Áttærings hafa hrundið af stað endurgerð áttæringsins Geirs sem brann árið 1993 ásamt þorra bátasafns Þjóðminjasafnsins. Endurgerðin eða nýsmíðin er langt á veg komin en fjármagn skortir til að ljúka verkefninu.

Óskar Sævarsson, formaður hollvinasamtaka Áttærings, segir verkefnið þriggja ára gamalt og langt á veg komið. Til að ljúka því þurfi þó að klára árar, segl og seglabúnað sem Óskar segir ansi mikið verk, enda lagt upp með að efniviðurinn sé svipaður þeim sem notaður var til forna, auk þess sem einungis sé unnið með fornum handbrögðum. Sem dæmi var notaður íslenskur viður, sem kemur að hluta úr Þjórsárdal, í smíði skipsins.

Til að klára smíðina leita hollvinasamtökin nú á náðir Alþingis, en þangað hafa þau sótt um fjárstyrk. Óskar skorar á alþingismenn að veita styrkinn, enda um að ræða stóran menningararf Grindvíkinga. Hann segir endurgerðina tengjast uppbyggingu sjóbúðar í Grindavík, þar sem sjóbúð og áraskip munu fullkomna mynd af atvinnugrein sem einkennt hefur uppbyggingu samfélagsins þar og á öllu Reykjanesi.

Áttæringurinn Geir stendur nú á grasbletti í Grindavík, en Óskar segir hugmyndina að koma honum inn í vikunni. Átti það að gerast fyrir nokkru en hafðist ekki þar sem Grindavíkurbær var rýmdur vegna umbrota í bænum.

Um er að ræða varanlegt húsnæði í gömlu fiskverkunarhúsi frá þriðja áratug síðustu aldar, sem Sögu- og minjafélag Grindavíkur fékk afhent á dögunum. Óskar segir að í framtíðinni verði byggðasafn Grindavíkur eflaust í húsnæðinu, það standi við hlið Sjóbúðarinnar og Bakka, og því um gríðarlegar minjar og verðmæti að ræða.