Árásir Slökkviliðsmenn sjást hér glíma við afleiðingar drónaárásar Rússa á laugardaginn, en þeir skutu þá 75 sjálfseyðingardrónum á Kænugarð.
Árásir Slökkviliðsmenn sjást hér glíma við afleiðingar drónaárásar Rússa á laugardaginn, en þeir skutu þá 75 sjálfseyðingardrónum á Kænugarð. — AFP/Almannavarnir Úkraínu
Stjórnvöld í Rússlandi sögðu í gærmorgun að þau hefðu skotið niður dróna frá Úkraínumönnum yfir minnst fimm héruðum Rússlands, þar á meðal höfuðborginni Moskvu, í stærstu drónaárás Úkraínumanna á Rússland frá upphafi Úkraínustríðsins

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Stjórnvöld í Rússlandi sögðu í gærmorgun að þau hefðu skotið niður dróna frá Úkraínumönnum yfir minnst fimm héruðum Rússlands, þar á meðal höfuðborginni Moskvu, í stærstu drónaárás Úkraínumanna á Rússland frá upphafi Úkraínustríðsins.

Sagði í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins að loftvarnir Rússa hefðu eyðilagt minnst 24 dróna yfir Moskvu og nágrenni, Túla-héraði, Kalúga-héraði, Bríansk-héraði og Smólensk-héraði. Þá hefðu Rússar einnig náð að skjóta niður tvær eldflaugar Úkraínumanna yfir Asov-hafi.

Loka þurfti bæði Vnukovo- og Domodedovo-flugvöllum Moskvuborgar tímabundið vegna árásarinnar að sögn ríkisfréttastofunnar Tass, en báðir höfðu hafið starfsemi aftur síðar um morguninn þegar árásin var yfirstaðin. Yfirvöld í Túla-borg sögðu að einn hefði særst í borginni þegar brak féll á íbúðarhúsnæði, en annars var ekki greint frá mannfalli.

Skutu 71 af 75 drónum niður

Var árásin svar við árás Rússa á Kænugarð höfuðborg Úkraínu á laugardaginn, en Rússar sendu þá 75 sjálfseyðingardróna af íranskri gerð til árása á borgina. Náðu loftvarnir Úkraínumanna að skjóta 71 þeirra niður. Var það stærsta drónaárás Rússa á Kænugarð frá því að þeir hófu innrás sína í febrúar 2022. Minnst fimm óbreyttir borgarar særðust í árásinni, en einn dróninn lenti á leikskólalóð.

Árás Rússa var sögð marka upphaf vetrarherferðar þeirra gegn innviðum Úkraínumanna, en þeir lögðu mikla áherslu í fyrravetur á að eyðileggja raforkuver og hitaveitur, í þeirri von að vetrarhörkur myndu draga úr baráttuþreki almennra Úkraínumanna. Lögðu Vesturveldin þá Úkraínumönnum til fleiri og betri loftvarnarkerfi, sem hafa almennt náð að halda aftur af loftárásum Rússa í sumar.

Árásin á laugardag kom einnig sama dag og Úkraínumenn minntust hungursneyðarinnar miklu 1932-1933, öðru nafni Holodomor, sem viðurkennd hefur verið af mörgum ríkjum, þar á meðal Íslandi, sem þjóðarmorð.