Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir fæddist 7. júlí 1950 á Akranesi. Hún lést 10. nóvember 2023.

Hún var dóttir Ingunnar Valgerðar Hjartardóttur húsfreyju, f. 30. september 1909, d. 15. september 1980, og Þorvaldar Steinasonar búfræðings, f. 6. apríl 1907, d. 15. janúar 1973. Systkini Lilju eru Ólöf Þorvaldsdóttir, f. 24. maí 1945, Steini Þorvaldsson, f. 2. nóvember 1948, og Hilmar Harðarson, f. 15. apríl 1938, d. 30. september 2017.

Dætur Lilju eru: 1) Karen María Jónsdóttir, f. 10. desember 1975. Faðir Jón Karel Leósson. Eiginmaður Karenar Maríu er David Kelley, f. 8. júlí 1966. Barn hennar frá fyrra sambandi er Gígja Kjartansdóttir. Stjúpbörn Karenar Maríu eru Herdís Hekla Davíðsdóttir og Alfred Ási Davíðsson. 2) Inga Valgerður Henriksen, f. 20. maí 1985. Faðir hennar er Aðalsteinn Bergdal. Börn

hennar frá fyrra hjónabandi eru: Guðni Liljar Grétarsson, Lilja Guðrún Grétarsdóttir og Ólöf María Grétarsdóttir. Barn Ingu Valgerðar úr seinna hjónabandi er Bríet Alva Henriksen.

Æskuárin á Akranesi einkenndust af baráttu fjölskyldunnar fyrir brauði og heimili. Alúð var lögð í öll verk og umhyggja fyrir samfélaginu einkenndi viðhorfið. Lilja Guðrún var átta ára þegar faðirinn tók við búi æskuheimilisins á Narfastöðum, nú í Hvalfjarðarsveit. Dvölin varð styttri en ætlað var vegna veikinda beggja foreldranna. Lilja var því 12 ára þegar fjölskyldan flutti til höfuðborgarsvæðisins þar sem hún bjó síðan.

Strax í barnæsku stefndi hún á að verða leikkona og fetaði markvisst og örugglega þá braut. Að loknu leiklistarnámi 1978 lék hún óslitið við öll atvinnuleikhús þjóðarinnar, lengst við Þjóðleikhúsið. Hlutverkin náðu hundruðum þar til veikindi yfirtóku starfsgetuna. Burðarhlutverkin á leiksviðinu voru mikil og mörg, einnig í kvikmyndum, sjónvarpi og hvers konar verkefnum sem kölluðu eftir þekkingu hennar og hæfni.

Lilja Guðrún var virk í félagsstarfi. Barátta fyrir mannsæmandi kjörum og jafnrétti var henni hjartans mál. Í anda þess sat hún í samninganefndum fyrir leikara, sinnti trúnaðarstörfum og lét sig sjaldan vanta gæti hún lagt hönd á plóg til að bæta samfélagið og vera til staðar fyrir fjölskyldu og vini.

Útför Lilju Guðrúnar verður frá Hallgrímskirkju í dag, 27. nóvember 2023, klukkan 13.

Ævinlegt þakklæti, ómæld virðing, djúpstæð aðdáun, ótrúleg lánsemi. Öll þessi orð lýsa svo vel tilfinningum mínum í þinn garð, elsku Lilja, tengdamóðir mín og „önnur amma“ barnanna minna.

Ég verð að eilífu þakklátur fyrir hvernig þú tókst á móti mér og skapaðir rými í fjölskyldunni fyrir hinn nýja erlenda kærasta dóttur þinnar. Þú vissir lítið sem ekkert um mig; þú virtir mig fyrir þér úr fjarlægð, fylgdist með samskiptum mínum við börnin mín, Dísu og Ása, og dróst þá ályktun að ég færi fær um djúpa ást og virðingu.

Ég ber ómælda virðingu fyrir því hvernig þú barst þig eftir að greiningin lá fyrir, alzheimer. Ótti þinn var mér augljós. En þú sættir þig fljótt við hlutskipti þitt og æðruleysið sem þú sýndir gagnvart öllum þeim breytingum sem urðu á lífinu, eftir því sem lengra á leið og sjúkdómurinn ágerðist, var aðdáunarvert. Hvernig þú fólst dætrum þínum ákvörðunarvaldið yfir lífi þínu og velferð. Þú barðist ekki á móti, vissir upp á hár hvað var best fyrir þig, hverju þú þurftir á að halda.

Stundum hugsaði ég að þú nálgaðist þetta verkefni eins og þetta væri síðasta hlutverkið sem þú tækir að þér sem stórleikkona. Þú hikaðir aldrei eða klikkaðir, tímasetningar voru óaðfinnanlegar, þú skilaðir öllum línunum þínum fullkomlega. Traustið sem þú sýndir Karen Maríu og Ingu sem mótleikurum var algjört. Fyrir þetta verð ég líka ævinlega þakklátur.

Og af hverju finnst mér ég vera lánsamur, elsku Lilja? Strax og frumgreining lá fyrir tókstu fyrstu erfiðu ákvörðunina, að hætta að keyra. Samhliða færði lífið mér það hlutverk að vera „enski bílstjórinn þinn“, sendill og viðgerðarmaður. Við deildum tíma saman í ferðum okkar í matvörubúðina, til tannlæknis, talmeinafræðings, fótaaðgerðafræðings, á hárgreiðslustofuna og í apótekið. Og svo keyrði ég þig í dagvistina í Roðasölum – á þennan magnaða stað sem átti eftir að verða þitt síðasta heimili.

Ég kynntist þér Lilja á hátt sem mig grunar að fáir tengdasynir fái tækifæri til. Þú varst alltaf yndisleg við mig, reyndir alltaf að vera jákvæð, jafnvel þegar þér leið augljóslega ekki vel. Og eftir því sem veikindi þín ágerðust gerði ég mér grein fyrir að íslenskukunnátta mín fór batnandi. Ómeðvitað gat ég æft framburð minn og setningagerð, enda töluðum við oft um sömu hlutina, dag eftir dag. Ég veit að þú munt hlæja að þessu núna, Lilja, því þinn frábæri húmor var eiginleiki sem skilgreindi þig.

Hvað var það sem við töluðum aðallega um? Auðvitað snerist þetta um veðrið! En aðallega töluðum við um fjölskylduna þína, dætur þínar og barnabörnin. Því þau voru þér allt. Og ég er bara svo þakklátur fyrir að fá að vera hluti af þeim.

Að lokum elsku Lilja. Seiglan, einbeitnin, styrkur þinn og getan til að taka á móti breytingum með opnu hjarta, hverjar sem þær eru, eru allt persónueinkenni sem ég upplifi daglega í fari bæði Karenar Maríu og dótturdóttur þinnar, Gígju.

Ég óska þér ástar og friðar á ferðalaginu sem nú er hafið.

David Kelley.

Elsku amma. Eftir að þú sofnaðir svefninum langa veit ég fyrir víst að fólkið þitt tók á móti þér opnum örmum með bros á brá. Líkt og þú tókst ævinlega á móti mér þegar þú breiddir út skjólgóðan faðminn, umvafðir mig ást og hlýju og sagðir mér hversu mikið þú elskaðir mig. Eins og dúnsæng á nöpru vetrarkvöldi eða blíður sólargeisli sem kyssir koll fyrstu sumarblómanna. Alls áttum við tuttugu og þrjú ár og tvo daga saman í þessu jarðlífi. Mikið náðum við að skapa margar dýrmætar minningar á þessum árum. Þó, þegar ég lít til baka, fyllist ég trega yfir því að geta ekki deilt fleiri minningum með þér í bili. Það er mér harmabót að vita að einhvers staðar í hliðstæðri veröld er ég full eftirvæntingar á leiðinni í leikhúsið að sjá nýju leiksýninguna þína. Einhvers staðar í hliðstæðri veröld fer ég ennþá til þín alla mánudaga til þess að borða fisk, á meðan hlærð þú að skrítlunum mínum. Einhvers staðar í hliðstæðri veröld sitjum við og leggjum tarotspil á meðan við ræðum sameiginlegan áhuga okkar á andlegum málefnum. Veraldlegar leiðir skilur að sinni en vittu til, elsku hjartans amma mín, að við fylgjumst að í hjarta hvor annarrar um ókomna tíð.

Gígja Kjartansdóttir.

Að vera – eða vera ekki …

Hún litla systir okkar er ekki lengur – hún var en nú er hún farin.

Þessi lífsglaði prakkari með afvopnandi spékoppana, þetta hugarflug, þessi tryggð, þessi heiti faðmur, þessi hvatning og einlæga gleði yfir smáum og stórum áföngum fjölskyldunnar er farin frá okkur.

Litla systirin sem sigraði stóra sviðið, lífskrafturinn sem skilaði sér út í salinn – hreif hann með og sveiflaði í hlátur og grát – á sama andartaki.

Hún var blíða og hæðni, reiði og mildi, þessi lifandi augu með dýpt tregans og geisla gleðinnar, lífsorka sem gat ögrað, barist og kiknað.

Hún var Jórunn í Veghúsum Laxness – til hennar var Maístjarnan, baráttusöngur alþýðunnar, fyrst sunginn.

Hún var Martha, hrædd við Virginiu Woolf og afhjúpun flótta sálarinnar.

Hún var ótemjan hans Sjeikspírs.

Hún var brostin Halla – á barmi hyldýpisins.

Hún var þrususkvísan sem þoldi ekki stundarfrið.

Hún var orkuboltinn sem skildi salinn eftir í hláturskrampa yfir slagkrafti þess að borga ekki.

Hún var röggsama Soffía frænka og snýtti stelsýki úr ræningjum.

Hún var mamma allra barnanna í salnum – sterka hlýja bangsamamma sem faðmaði öll dýrin í skóginum.

Hún var Lilja frænka barnanna okkar sem elskuðu hana og sem hún umvafði og hvatti stöðugt til dáða.

Síðustu stundunum í lífi litlu systur var hvorki lifað í þátíð né framtíð.

Líf þess sem glímir við alzheimer er í lokin líkt og glíma leikarans á sviðinu – líf í núinu – stund andartaksins. Þá stund lifði litla systir svo meistaralega af þeirri stærð sem einkenndi allt hennar líf.

Hún var hamingjusamasta mamman og amman þegar hún faðmaði dásamlega hópinn sinn síðustu ævidagana.

Hún var elsku litla systir okkar hún Lilja Guðrún en líf hennar markaði stærð.

Minning hefur sjálfstæða tilveru – hún er – hún lifir og við þökkum þann ríkulega auð af minningum um allt það sem litla systir okkar gaf og var.

Ólöf Þorvaldsdóttir, Steini Þorvaldsson.

Ég hitti Lilju Guðrúnu í fyrsta skipti rétt fyrir jólin árið 1997. Sá fundur byrjaði með bíltúr til Keflavíkur að ná í Karen Maríu sem var að koma heim í jólafrí frá námi í Hollandi. Við höfðum kynnst síðsumars sama ár. Lilja bjó huggulega á Klapparstíg með yngri dóttur sinni Ingunni. Listamannsleg íbúð í 101 með veggi þakta myndum. Ég man hversu mér var vænlega tekið við fyrstu kynni.

7. nóvember árið 2000. Þá fæddist ávöxtur og ljós okkar Karenar, hún Gígja. Það kraftmikla eintak. Amma Lilja gekk rakleiðis í ömmuhlutverkið og gegndi því svo fallega. Gígja var fyrsta barnabarn hennar og þær áttu sérstakt og innilegt samband. Það var alltaf gott að fara í heimsókn til ömmu Lilju. Ég komst að því nokkuð nýlega að þær náðu einstaklega vel saman á andlega sviðinu og áttu það sameiginlegt. Þær tvær. Fyrir það er ég ævinlega þakklátur.

Við Lilja vorum ekki alltaf sammála. Við gátum tekist á um margt, okkar eigin skoðanir og ýmis önnur málefni. En hvað sem því leið geymi ég afskaplega hlýja minningu um hana. Hún var alltaf brosmild og tók almennilega á móti mér. Hún lét sig varða um sitt fólk og passaði vel upp á sína nánustu. Hún reyndist dóttur minni svo ágætlega, það þótti mér vænt um. Hún var amma sem rétti fram skjólgóðan faðminn og elskaði.

Við hittumst síðast 2. júní í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þá spilaði ég tónleika með mjög kæru tónlistarfólki. Á dagskránni voru lög þeirra bræðra Jónasar og Jóns Múla Árnasonar. Þetta voru tónleikar fyrir fólk með alzheimer og aðrar heilabilanir. Ég sat við trommurnar og slagverkið og Lilja var á fremsta bekk. Eflaust vissi hún hvað var í vændum þennan dag og hvaða tónlistarfólk myndi koma fram í kirkjunni. Þá höfðu liðið tvö ár frá okkar síðasta fundi. Hún leit glimrandi út og mér leið svo vel að sitja við hljóðfærið og spila því Lilja brosti hringinn allan tímann, kankvís á fremsta bekk. Eftir tónleikana kom hún svo til mín, brosljúf og var eins og sól í framan. Hún talaði um hve bjart væri yfir mér og að ég ætti að passa Gígju. Ég sagði henni að það yrði nú ekki erfitt því það hefði ég alltaf gert frá byrjun hennar tíma. Við föðmuðumst og þessi minning er mér afar kær. Þarna áttum við sannkallaða gæðastund. Amma Lilja og ég.

Lilja var einstök leik- og listakona, dásamleg amma dóttur minnar og gleðigjafi. Hennar verður sárt saknað. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu Lilju Guðrúnar.

Dreymi þig ljósið elsku Lilja.

Kjartan (Diddi).

Lilja Guðrún var í fremstu röð sinnar kynslóðar í íslensku leikhúsi. Við kynntumst fyrst þegar nokkur ungmenni, sem langaði til að verða leikarar – en enginn leiklistarskóli var þá starfandi – báðu mig að leikstýra sér í verkefni. Árið var 1972, Lilja var í hópnum og hann kallaði sig Leikfrumuna. Við völdum sænskt leikrit, Sandkassann, sem fjallar um samskipti barna og foreldra, bráðfyndið verk með metnaðarfullum boðskap um uppeldismál. Verkið var sýnt í Lindarbæ og ýmsum skólum og vinnustöðum. Flest leikaraefnanna flugu svo inn í Leiklistarskólann þegar hann tók til starfa. Við Lilja unnum mikið saman fyrstu árin okkar í leikhúsi. Hún lék hjá mér aðalkvenhlutverkið, Antoníu, í farsanum Við borgum ekki! eftir Dario Fo, fyrsta verkefni sunnandeildar Alþýðuleikhússins. Lilja sýndi þarna mikil tilþrif í krefjandi burðarhlutverki, þessi unga leikkona var greinilega komin til að vera. Verkið var sýnt tvö leikár í Reykjavík og í leikferðum um land allt. Í kjölfarið fylgdi svo hlutverk tildurrófunnar Mörtu í Stundarfriði Guðmundar Steinssonar, sem varð fyrsta verkefni Lilju í Þjóðleikhúsinu en þar átti hún eftir að starfa áratugum saman og vinna marga leiksigra. Stundarfriður sló aðsóknarmet hér heima og var boðið á nokkrar leiklistarhátíðir erlendis tvö sumur í röð og loks tekin upp í sjónvarp. Stundarfriðsfjölskyldan varð því um árabil okkar önnur fjölskylda, öllu samheldnari en sú í leikritinu.

Lilja var fjölhæf leikkona, jafnvíg á gaman og alvöru. Meðal eftirminnilegra leikafreka hennar má nefna Höllu í Fjalla-Eyvindi, Mörtu í Hver er hræddur við Virginíu Woolf? og Katrínu í Ótemju Shakespeares. Ég minnist hennar líka sem fóstrunnar í Rómeó og Júlíu, Ragnheiðar í Hafinu hans Ólafs Hauks auk ótal annarra sterkra persóna sem hún gæddi lífi á löngum og farsælum ferli – svo ekki sé minnst á öll barnaleikritin. Þar risu hæst Soffíurnar tvær: Soffía frænka í Kardemommubænum og allt önnur Soffía í Jóni Oddi og Jóni Bjarna.

Lilja hafði sterka útgeislun og sviðsnærveru, bjó yfir glettni og húmor í túlkun og hafði gott vald á tímasetningum í leik. Það sópaði að henni á sviðinu þegar á þurfti að halda, hún hafði kraftmikla rödd sem gat nýst henni skemmtilega og hlátur hennar var ómótstæðilegur. Það var alltaf gaman að vinna með Lilju.

Lilja Guðrún var þjóðfélagslega róttæk og hafði sterka réttlætiskennd. Hún lét sig velferðarmál miklu varða og sinnti trúnaðarstörfum fyrir þau stéttarfélög sem hún tilheyrði. Síðustu árin voru henni erfið vegna ólæknandi veikinda sem ágerðust og toguðu hana að lokum inn í algleymið. Síðast hitti ég Lilju á samkomu sem Þjóðleikhúsið bauð henni á ásamt fyrrverandi starfsfólki til að hitta núverandi starfsfólk. Þar var hún heiðruð. Þótt hún áttaði sig kannski ekki alveg á samhenginu breiddist út bros á andlitinu þegar við horfðumst í augu. Þannig vil ég muna hana.

Við hjónin sendum dætrum Lilju, þeim Karen Maríu og Ingu, og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Lilju Guðrúnar.

Stefán Baldursson.

Kveðja úr Þjóðleikhúsinu

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir var fastráðin við Þjóðleikhúsið um árabil og lék fjölda hlutverka af öllu tagi við leikhúsið, enda einstaklega fjölhæf leikkona. Henni var jafn vel lagið að láta áhorfendur veltast um af hlátri í gamanleikjum og ná til hjarta þeirra í flóknum, dramatískum hlutverkum. En svo var hún líka góður félagi, og starfaði ötullega að félagsstörfum og hagsmunamálum leikara.

Ég naut þess oft að sjá Lilju Guðrúnu á leiksviði, en mín fyrsta persónulega minning um hana er þegar hún leiddi mig inn á sjálft Stóra svið Þjóðleikhússins sem barn í leiksýningunni Tyrkja-Guddu, jólasýningu hússins árið 1983, þar sem hún fór með hlutverk Tobbu, en ég var í barnahópnum ásamt Karen Maríu dóttur hennar. Þá kynntist ég þeirri hlýju og umhyggju sem Lilju Guðrúnu var svo vel gefið að veita fólkinu í kringum sig.

Fyrsta hlutverk Lilju í Þjóðleikhúsinu var hlutverk Mörtu í Stundarfriði eftir Guðmund Steinsson árið 1979, en sú sýning sló eftirminnilega í gegn og ferðaðist víða á leiklistarhátíðir utan landsteinanna. Mörg önnur hlutverk Lilju Guðrúnar við Þjóðleikhúsið hafa orðið áhorfendum minnisstæð, og má þar nefna hlutverk Höllu í Fjalla-Eyvindi, Mörthu í Hver er hræddur við Virginíu Woolf?, Jórunni í Veghúsum í Húsi skáldsins, Sösju í Villihunangi, þá grænklæddu í Pétri Gaut, fóstruna í Rómeó og Júlíu, Ragnheiði í Hafinu, Agnesi í Dansað á haustvöku, Sue Bayliss í Allir synir mínir og Harriet í Glerbrotum. Lilja Guðrún tók þátt í frumuppfærslu margra nýrra íslenskra verka, og má þar m.a. nefna auk Mörtu í Stundarfriði Mörtu í Stakkaskiptum, Mörtu í Í hvítu myrkri og Vilborgu í Kaffi.

Lilja Guðrún hafði sérstakt næmi fyrir gamanleik, og af slíkum hlutverkum má nefna Elise í Aurasálinni, Kristínu í Kjaftagangi og Þrúði í Tveimur tvöföldum. Lilja Guðrún skemmti líka fjölda ungra leikhúsgesta í hlutverki Soffíu frænku í Kardemommubænum, bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi og fleiri barnaleikritum, að ógleymdum einleik hennar á Búkollu sem hún sýndi fyrir ótölulegan fjölda leikskólabarna. Ótalin eru fjölmörg hlutverk Lilju Guðrúnar við Þjóðleikhúsið, í kvikmyndum, sjónvarpi og víðar, en hún hóf leikaraferil sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur strax eftir útskrift úr Leiklistarskóla Íslands árið 1978.

Það var dýrmæt stund fyrir Lilju Guðrúnu og okkur í Þjóðleikhúsinu þegar hún heimsótti okkur við hátíðlega stund þann 1. desember fyrir tæpu ári ásamt fjölda annarra fyrrverandi starfsmanna leikhússins. Þá var hún kvödd sérstaklega og henni þakkað fyrir öll sínu góðu störf fyrir Þjóðleikhúsið. Þar var henni færður púði sem er gerður úr sama áklæði og er á sætum í stóra salnum. Ég mun seint gleyma hve fast og innilega hún faðmaði púðann og ást hennar á leikhúsinu skein í gegn. Ég veit að púðinn var oft við hlið hennar síðasta árið og efast ekki um að fram streymdu góðar tilfinningar og minningar.

Starfsfólk Þjóðleikhússins sendir fjölskyldu Lilju Guðrúnar innilegar samúðarkveðjur.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.

Eins og fyrir tilviljun liggja leiðir fólks saman á lífsleiðinni, ýmist um langa hríð eða skamma. Tengslin sem myndast við slíka samleið geta rist djúpt og varað lengi, þótt fólk sé einungis samferða um skamma hríð. Leiðir okkar Lilju Guðrúnar lágu saman við upphaf leiklistarnáms fyrir tæpum fimmtíu árum. Tólf bekkjarfélagar mynduðu strax sterk tengsl og sigldu saman jafnt lygnan sjó sem úfinn í fjörgur ár. Margt var brallað, grínast og grátið, hrópað og hvíslað, og ár frá ári dýpkuðu tengslin og styrktust. Þegar komið var út á listabrautina lágu leiðirnar svo í ýmsar áttir, en tengslin rofnuðu aldrei, þótt langt gæti liðið milli funda. Eftir því sem tímar liðu kom væntumþykjan, traustið og virðingin betur og betur í ljós. Í minningabankanum eru margar af mikilvægustu stundunum tengdar þessum bekkjarfélögum og í þeim öllum heyrist smitandi hlátur Lilju, en þar er líka hvassa augnaráðið sem kviknaði þegar réttlætiskennd hennar var misboðið.

Sem leikkona hafði Lilja einstakt vald á togstreitunni milli hins blíða og hins stríða. Hún skapaði hverja persónuna á fætur annarri sem dansaði á hnífsegg gleði og sorgar, unaðar og sársauka. Hún hafði einstakt lag á að nýta sér alla þá reynslu sem lífið færði henni sem efnivið í list sína. Þannig minnumst við hennar; á leiksviðinu lýsandi af heitum tilfinningum, ýmist bítandi á jaxlinn eða skellihlæjandi, alltaf í djúpum tengslum við sitt innra, alltaf sönn.

Ástvinum og fjölskyldu sendi ég hlýjar kveðjur, í þeirri trú að birtan sem stafar frá minningunni um sterka, fallega og réttsýna Lilju Guðrúnu nái að sefa sorgina og á endanum fylla skarðið sem hún skildi eftir.

Kolbrún Halldórsdóttir.