Hanna Katrín Friðriksson
Hanna Katrín Friðriksson
Langflest heimili landsins líða fyrir hið séríslenska vaxtaokur. Og sífellt fleiri átta sig á lausninni; að taka upp nothæfan gjaldmiðil. En það er fleira sem íþyngir íslenskum heimilum. Ríkisstjórnin eyðir einfaldlega um efni fram

Langflest heimili landsins líða fyrir hið séríslenska vaxtaokur. Og sífellt fleiri átta sig á lausninni; að taka upp nothæfan gjaldmiðil. En það er fleira sem íþyngir íslenskum heimilum. Ríkisstjórnin eyðir einfaldlega um efni fram. Á hverju ári frá 2019 hefur ríkisstjórnin eytt meiri peningum en hún hefur aflað. Það gengur augljóslega ekki til lengdar og mun óhjákvæmilega enda í skattahækkunum verði ekki breyting á. Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni svigrúm til þess að reisa mikilvæga varnargarða við Svartsengi og um Grindavík án þess að leggja nýjan skatt á heimili landsins.

Almenningur á Íslandi má ekki við því að greiða hærri skatta. Við greiðum þegar eina hæstu skatta í heimi en þjónustan sem við fáum á móti endurspeglar það ekki. Fólk þarf að bíða í marga mánuði eftir tíma hjá heilsugæslu. Biðin eftir annarri og sértækari þjónustu er stundum mæld í árum. Örorku- og ellilífeyrisþegar búa við lök kjör og víða þarf átak þegar kemur að endurbótum og uppbyggingu á innviðum mikilvægrar þjónustu.

Það er augljóst að lausnin er ekki að láta almenning í landinu borga meira. Það þarf að ráðast í gagngera endurskoðun á því í hvað peningar hins opinbera fara. Það þarf allsherjar tiltekt í ríkisrekstrinum. Aðeins þannig getum við bætt opinbera þjónustu og tekist á við mikilvæg verkefni framtíðarinnar án þess að sækja í vasa millistéttarinnar sem hefur heldur betur fundið fyrir verðbólgunni og tilheyrandi vaxtaáþján á eigin skinni.

Hluti af vandanum er yfirdráttarlán ríkisstjórnarinnar. Á næsta ári mun ríkið borga 110 milljarða króna í vexti. Það er meira en tvöföld sú fjárhæð sem mennta- og barnamálaráðuneytið fær í öll sín verkefni. Það er meira en ríkið ver á ári í örorku og málefni fatlaðra. Það væri næstum hægt að tvöfalda framlög til sjúkrahúsþjónustu fyrir þessa fjárhæð og rúmlega fjórfalda framlög til lögreglunnar. Það er verulega gagnrýnivert að áhersla ríkisstjórnarinnar skuli ekki vera á niðurgreiðslu skulda til að lækka vaxtakostnað. Þegar litið er til þess að ríkið, líkt aðrir sem lifa hér í krónuhagkerfinu, borgar margfalda vexti á við það sem þekkist í öðrum löndum er það ekki bara gagnrýnivert, heldur óskiljanlegt.

Þessu þarf að breyta. Áherslur Viðreisnar á ráðdeild í ríkisrekstri þurfa að fá brautargengi. Áherslur á að ríkið hafi skýra sýn á helstu verkefni og forgangsraði fjármunum í nauðsynlega þjónustu. Ríkið þarf að draga úr óþarfa eyðslu sem ýtir undir verðbólgu og skattahækkanir. Það þarf skilning á því að skattar séu nýttir í mikilvæga samfélagsþjónustu en ekki sem afsökun fyrir óráðsíu í ríkisrekstri. Þetta er jú peningar heimilanna.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is