[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Logi Tómasson skoraði í gær sitt fyrsta mark sem atvinnumaður í knattspyrnu þegar hann gulltryggði Strömsgodset góðan útisigur á Rosenborg í Þrándheimi…

Logi Tómasson skoraði í gær sitt fyrsta mark sem atvinnumaður í knattspyrnu þegar hann gulltryggði Strömsgodset góðan útisigur á Rosenborg í Þrándheimi í norsku úrvalsdeildinni, 3:1. Logi skoraði markið á fjórðu mínútu í uppbótartíma leiksins en staðan hafði verið 2:1, Strömsgodset í hag, frá því á 35. mínútu. Ari Leifsson og Logi léku allan leikinn með Strömsgodset og Ísak Snær Þorvaldsson fyrstu 65 mínúturnar með Rosenborg.

Selma Sól Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, varð á laugardag norskur bikarmeistari með Rosenborg eftir sigur á Noregsmeisturum Vålerenga, 1:0, í úrslitaleik á Ullevaal í Ósló. Selma kom inn á sem varamaður á 90. mínútu en þetta var kveðjuleikur hennar með Þrándheimsliðinu því hún samdi ekki við það áfram. Ingibjörg Sigurðardóttir fyrirliði Vålerenga lék allan leikinn.

Birkir Bjarnason skoraði mark Brescia þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Pisa á útivelli í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Birkir lék í 70 mínútur og skoraði sitt annað mark á tímabilinu en Hjörtur Hermannsson var varamaður hjá Pisa. Brescia er í 15. sæti af 20 liðum í deildinni en Pisa er í 11. sæti.

Andri Lucas Guðjohnsen tryggði Lyngby jafntefli gegn Bröndby, 3:3, í dönsku úrvalsdeildinni í gær þegar hann jafnaði á sjöttu mínútu í uppbótartíma. Sævar Magnússon lagði upp fyrsta mark Lyngby í leiknum. Andri og Kolbeinn Finnsson léku allan leikinn og Sævar fyrstu 77 mínúturnar en Gylfi Þór Sigurðsson er enn frá vegna meiðsla.

Kristian Nökkvi Hlynsson, landsliðsmaðurinn ungi, skoraði annað mark Ajax þegar liðið vann stórsigur, 5:0, á Vitesse í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þetta var þriðja mark Kristians fyrir Ajax í vetur en stórveldið er að rétta úr kútnum eftir slæma byrjun á tímabilinu. Hann lék fyrstu 68 mínútur leiksins.

Hin 18 ára gamla Emilía Kiær Ásgeirsdóttir er áfram markahæst í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hún skoraði mark Nordsjælland þegar liðið tapaði, 2:1, fyrir Bröndby í toppslag deildarinnar. Emilía hefur nú skorað 9 mörk í fyrstu 12 umferðunum. Kristín Dís Árnadóttir lék allan leikinn með Bröndby sem komst á toppinn með 25 stig en Nordsjælland og Köge eru með 23 stig hvort.

Elvar Ásgeirsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik með Ribe-Esbjerg þegar liðið vann stórsigur á Ringsted, 38:27, í dönsku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Elvar skoraði 6 mörk og átti 9 stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson varði sex skot í marki Ribe-Esbjerg og skoraði auk þess eitt mark.

Haukur Þrastarson var í aðalhlutverki hjá Kielce í gær þegar liðið vann Zaglebie á útivelli, 30:24, í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Haukur var markahæstur með sjö mörk en Kielce hefur unnið tólf fyrstu leiki sína í deildinni á þessu tímabili.

Magdeburg komst í gær í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir útisigur gegn botnliði Balingen. 34:28. Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og Janus Daði Smárason þrjú en Janus átti að auki fimm stoðsendingar. Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk fyrir Balingen og Daníel Ingason eitt.

Haraldur Franklín Magnús átti stórgóðan lokahring á ástralska PGA-meistaramótinu í golfi í gærmorgun. Hann lék á 67 höggum, fjórum undir pari vallarins, og endaði þar með í 33.-39. sæti af 156 keppendum á þessu sterka móti sem er m.a. liður í Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu. Haraldur lék samtals á fimm höggum undir pari á fjórum dögum en sigurvegarinn, Min Woo Lee frá Ástralíu, lék á 20 höggum undir pari. Haraldur fær nálægt tveimur milljónum króna í verðlaunafé fyrir árangurinn.

Jude Bellingham skoraði í gærkvöld sitt 14. mark fyrir Real Madrid á tímabilinu þegar liðið vann Cádiz, 3:0, í spænsku 1 .deildinni í knattspyrnu. Real komst þar með á topp deildarinnar en Girona getur endurheimt efsta sætið í kvöld.