Eldvörp Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur telur eldgos líklegast í Eldvörpum, í miðju eldstöðvakerfisins.
Eldvörp Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur telur eldgos líklegast í Eldvörpum, í miðju eldstöðvakerfisins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ragnhildur Helgadóttir ragnhildurh@mbl.is Spurður hvernig hann meti stöðuna á Reykjanesskaga segir Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði, stóru sprunguna á jaðri flekamótanna vera að jafna sig. Jarðskorpan sé að finna jafnvægi eftir gliðnunina.

Ragnhildur Helgadóttir

ragnhildurh@mbl.is

Spurður hvernig hann meti stöðuna á Reykjanesskaga segir Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði, stóru sprunguna á jaðri flekamótanna vera að jafna sig. Jarðskorpan sé að finna jafnvægi eftir gliðnunina.

Ármann segir að vegna þess að flekamótin á Reykjanesskaga hafi verið róleg í 800 ár þurfi að losa um togspennu upp á um það bil 16 metra. „Togspennan er alltaf að toga. Flekamótin gliðna alltaf um tvo sentimetra á ári. Það hefur ekkert gerst í 800 ár. Ef þú reiknar það ertu komin með þörf á togspennu upp á um 16 metra, eitthvað svoleiðis,“ segir hann.

Ármann áréttar að þessir 16 metrar eigi við um allt Reykjanesið. Allt frá Reykjaneskerfinu og út að Hengli. Eitthvað hafi þó losnað um á síðustu árum. „Í öllum þessum jarðskjálftalátum er eitthvað búið að ganga á.“

Hvað gerist þegar togspennan verður búin að losa um 16 metra?

„Þá fellur allt í dúnalogn og gerist ekkert í 800 ár. Þá erum við bara slök.“ Ármann segir að sennilega sé búið að losa um spennu upp á 2-3 metra nú þegar. Engar nákvæmar tölur liggja þó fyrir um það. Spurður hvað honum finnist um að kvikugangurinn sé mestmegnis storknaður, líkt og greint var frá í fréttum um helgina, segir Ármann það skipta litlu sem engu máli. Það sé veikleikinn í skorpunni sem skipti máli frekar en tilvist gangsins. Kvikan fari alltaf inn í veikleikann.

„Hvort kvikan storknar eða ekki, það skiptir engu máli. Veikleikinn í skorpunni er alltaf til staðar. Það gýs upp úr sömu sprungu þótt það séu 3-400 ár á milli og sá gangur örugglega storknaður,“ segir hann.

Miðja kerfisins er í Eldvörpum

Hve mikill er veikleikinn í skorpunni?

„Hann er mikill,“ segir Ármann. Hann segir það vera vegna þess að um svo mikla spennu sé verið að losa. Miðjan á kerfinu sé þó langtum viðkvæmari en jaðrarnir. En til jaðranna telst til dæmis Grindavík og nágrenni. „Það er alltaf miðjan sem er viðkvæmust og hún er í Eldvörpum,“ segir hann.

Spurður út í landrisið í Svartsengi segir Ármann: „Landrisið er þar og teygir sig vel út í Eldvörp núna. Ég myndi halda að það væri langlíklegast, því það kom ekki upp í Sund[hnúka]sprungunni, að þetta færi yfir í Eldvörpin hægt og rólega.“

Ármann segist munu hafa áhyggjur af eldgosi þegar landrisið nær sömu hæð á svæðinu og 10. nóvember. „Fram að því erum við bara slök og undirbúum. Smíðum þessa garða. Aðalmarkmiðið er að það gjósi ekki innan garða. Það er mjög gott að þeir séu komnir upp. Þá erum við að eiga við miklu minna svæði.“

Höf.: Ragnhildur Helgadóttir