Handtekin Arndís Anna K. Gunnarsdóttir þingmaður Pírata var handtekin síðasta föstudag í miðbæ Reykjavíkur á skemmtistaðnum Kíkí queer bar.
Handtekin Arndís Anna K. Gunnarsdóttir þingmaður Pírata var handtekin síðasta föstudag í miðbæ Reykjavíkur á skemmtistaðnum Kíkí queer bar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata var handtekin síðasta föstudag á skemmtistaðnum Kíkí queer bar. Þetta staðfesti hún í samtali við Morgunblaðið í gær. Að hennar sögn var hún of lengi á salerni skemmtistaðarins og ákváðu dyraverðirnir því að vísa henni út. Kveðst hún hafa verið snúin niður af dyravörðum sem báðu svo um aðstoð lögreglu við að vísa henni út.

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata var handtekin síðasta föstudag á skemmtistaðnum Kíkí queer bar. Þetta staðfesti hún í samtali við Morgunblaðið í gær. Að hennar sögn var hún of lengi á salerni skemmtistaðarins og ákváðu dyraverðirnir því að vísa henni út. Kveðst hún hafa verið snúin niður af dyravörðum sem báðu svo um aðstoð lögreglu við að vísa henni út.

„Ég er þingmaður og ég hugsaði með mér: „Það er kannski ekki alveg ástæða til að bera mann hér út.“ Þetta var óþarflega niðurlægjandi og óþarflega mikil harka af þeirra hálfu [dyravarðanna] og þar streitist ég á móti og þetta kannski vindur upp á sig og þau óska eftir aðstoð lögreglu við að koma mér út,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Svo var Arndísi ekið heim og engin eftirmál, að hennar sögn. Hennar fyrstu viðbrögð er blaðamaður heyrði í henni hljóðuðu svona:

„Ég vil byrja á því að segja að ég ber virðingu fyrir störfum öryggisgæslufólks. Ég held að það sé mjög snúið og þungt starf og þarna – á þessum tíma sérstaklega – þá bera þau ábyrgð á og gæta öryggis stórs hóps af fólki sem er kannski ekki alveg upp á sitt besta, ef svo má segja.“

Arndís þakkar lögreglunni skjót og góð vinnubrögð „þótt þeir hafi ekkert vitað hvað var í gangi og að mínu mati með öllu tilefnislaust, sem sagt það sem gerist.

Ég fagna viðbrögðum lögreglunnar vegna þess að Kíkí er hinsegin staður og þarna eru einstaklingar sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og það er gríðarlega mikilvægt að öryggi fólks sé tryggt og lögreglan hafi komið án þess að spyrja spurninga. Lögreglan kemur bara vegna þess að dyraverðir óska aðstoðar. Hún bara kemur, spyr engra spurninga. Lögreglan kom mjög fagmannlega fram og ég vil koma þökkum til þeirra. Þeir voru kurteisir og brugðust hratt við og allt frábært þar,“ segir Arndís.

Kannast ekki við fordæmi

Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis segist í samtali við Morgunblaðið ekki kannast við nein dæmi þess efnis að þingmaður hafi verið handtekinn áður.

„Ég get ekki á þessu stigi nefnt nein dæmi þess að þingmaður hafi verið handtekinn enda þyrfti það mál eitt og sér ekki að berast inn á borð þingsins,“ segir Ragna í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

„Stjórnarskráin veitir ekki þingmanni friðhelgi fyrir handtöku eða öðrum rannsóknaraðgerðum lögreglu. Ekki er um neitt verklag að ræða hjá Alþingi ef um er að ræða slíkar aðgerðir,“ segir Ragna.

Tekur Ragna einnig fram að mælt sé fyrir um friðhelgi alþingismanna í stjórnarskránni. Þegar Alþingi er að störfum má ekki setja alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á hendur honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.

Ekki náðist í eigendur Kíkí í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri vísaði á Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu en ekki náðist í hana. Fjalar Sigurðarson upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins sagði í samtali við Morgunblaðið að ráðuneytið hefði ekki afskipti af málum sem væru í rannsókn eða til meðferðar hjá lögreglu.