Sveinbjörn Jónsson
Sveinbjörn Jónsson
Þekkingin sjálf er lífrænt ferli og mun ávallt breytast.

Sveinbjörn Jónsson

Það hefur einhverra hluta vegna orðið mitt hlutskipti að gagnrýna vinnubrögð vísindamanna sem ég kann að vera sammála um marga þætti en tel að afmarki vinnu sína við of þröngt svið og fái þar af leiðandi ranga niðurstöðu úr rannsóknum sínum.

Nýlega varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að hlusta á fyrirlestur hjá afar viðfelldnum prófessor sem heitir Gary Libecap og fjallaði hann um yfirburði eignarréttar hvað viðkemur nýtingu náttúruauðlinda. Miðað við þær forsendur sem prófessorinn gaf sér er vel hægt að vera sammála mörgum af niðurstöðum hans.

Þegar Evrópubúar hófu landnám öðru sinni í Ameríku fluttu þeir með sér ýmislegt sem þróast hafði með þeim á heimaslóðum þeirra. Þeir fluttu meðal annars með sér hesta, byssur, áfengi, sjúkdóma og vel þroskaða græðgi. Prófessorinn telur meðhöndlun sameignar sigraðra frumbyggja á landi sínu miklu verri en búgarða í einkaeign og gerir eignarréttinn að aðalástæðu þess.

Frumbyggjarnir sem um ræðir voru að mestu leyti veiðimenn og safnarar og litu á sig sem hluta lífríkisins áður en Evrópubúarnir hófu innreið sína. Vistkerfi þeirra var öll Ameríka. Eftir að frumbyggjarnir höfðu verið sigraðir með byssum, hestum, sjúkdómum, brennivíni og lögskýringum byggðum á græðgi og yfirgangi var þeim úthlutað svokölluðum verndarsvæðum.

Nýr skilningur á eignarrétti, sem sigurvegararnir tóku með sér frá Evrópu, og græðgi honum fylgjandi hefur eflaust verið að ryðja sér til rúms í huga hinna sigruðu og kann meira að segja að vera ein ástæðan fyrir vanrækslu sem prófessorinn taldi sig taka eftir. Mér finnst líkt og honum þrifalegar bújarðir mikið augnayndi og mér liði vel ef ég vissi að eigendur þeirra væru vel haldnir fjárhagslega. En íslenskur raunveruleiki segir mér að hvorki hagur bændanna né ástand landsins standi undir þeim væntingum sem prófessorinn og skoðanabræður hans hérlendir hafa til áhrifa einkaeignarréttarins. Ég verð að viðurkenna að ég er að einhverju leyti hissa á að eignarréttur og búmark í íslenskum landbúnaði skuli ekki virka betur en raun ber vitni.

Mér er sagt að fyrir rúmum sex öldum hafi 60-80 milljónir vísunda ráfað um Norður-Ameríku í leit að safaríkri fæðu. Frumbyggjar Norður-Ameríku hafi byggt afkomu sína sem veiðimenn m.a. á þessum skepnum. Að sögn nýttu þeir veiðidýr sín vel. Þegar evrópskir forfeður búgarðseigendanna, sem prófessorinn notar, fóru um landið er mér sagt að þeir hafi stundum skotið vísunda sér til skemmtunar út um lestarglugga á ferð. Einnig hafi þeir drepið dýrin í stórum stíl og hirt aðeins kryppuna, sem þótti lostæti, en skilið annað eftir rotnandi á jörðinni. Ég skil vel þá röksemdafærslu hagfræðinganna að ef vísundarnir hefðu haft vel skilgreindan eiganda hefði sá væntanlega getað reynt að verja hjörð sína og skotið á móti. Frumbyggjarnir sem reyndu það voru drepnir og þeir sem gáfust upp voru fluttir á svokölluð verndarsvæði.

Við upptöku aflamarksismans á Íslandi voru aðferðirnar á margan hátt hliðstæðar. Ofbeldið var þó mest pólitískt. Togaraflotinn sem dró troll sín linnulítið yfir hvað sem fyrir varð með bobbinga, keðjur, víra og hlera var búinn að jafna við botn mörg svæði kórala og þörunga sem áður gátu verið afdrep þorskhjarða um tíma á ferðum sínum í fæðuleit. Vonandi verður þetta lagfært þegar vel skilgreindir eigendur aflamarksins velta því fyrir sér hvernig hægt sé að troða enn meiri fiski í hafið svo ódýrara verði að veiða hann ef fyrirheit hagfræðinganna eru rétt.

Til að skipuleggja veiðar þurfa menn að finna út hvaða veiðitækni henti best á hverjum stað miðað við fyrirliggjandi tæknistig, þekkingu og náttúru. Álit mitt á botnvörpum kann að orka tvímælis hvað viðkemur nýtingu þeirra hafsvæða sem við náum illa til á annan hátt. Það er jafnframt að mínu mati mjög lítill þáttur í lélegum árangri aflamarksins í fyrirheitum um aukinn og stöðugan afla. Aðalástæða þess er líffræðilegur misskilningur og vanmat á kostnaði öldrunar og aukinnar samkeppni. Ég geri mér vel grein fyrir að það er ekki skynsamlegt að grafa skipaskurði eða byggja miðlunarlón með teskeiðum en mér finnst einnig fáránlegt að tína ber með jarðýtum.

Ég vil þakka hinum viðkunnanlega prófessor Gary Libecab fyrir tækifærið að fá að hlusta á og lesa um skoðanir hans og rannsóknir. Eina ráðið sem mig langar að gefa honum og öðrum lesendum er að þekkingin sjálf er lífrænt ferli og mun ávallt breytast. Þess vegna er gott að horfa út fyrir hinn afmarkaða kassa viðfangsefnisins og leita áhrifa þess á annað en efnahagsreikninga fyrirtækja og þjóða. Það er ekki alltaf gott að minnka kostnað rekstrar ef það er á kostnað umhverfis eða samfélags. Þar sem ég lærði einu sinni að það væri ekkert til sem héti ókeypis morgunverður og álykta að það gildi jafnframt um fyrirlestra vil ég einnig þakka öðrum þeim sem gerðu mér kleift að kynnast lítillega sjónarmiðum og starfi prófessorsins kærlega fyrir mig.

Höfundur er sjómaður og ellilífeyrisþegi.