Fegurð Herðubreið, drottning íslenskra fjalla, er í Ódáðahrauni.
Fegurð Herðubreið, drottning íslenskra fjalla, er í Ódáðahrauni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vatnajökulsþjóðgarður hefur auglýst eftir áhugasömum aðila til að nýta lóð við Bræðrafell í Ódáðahrauni. Um er að ræða 900 fermetra lóð sem er afmörkuð á grundvelli gildandi aðalskipulags Skútustaðahrepps 2011-2023

Vatnajökulsþjóðgarður hefur auglýst eftir áhugasömum aðila til að nýta lóð við Bræðrafell í Ódáðahrauni. Um er að ræða 900 fermetra lóð sem er afmörkuð á grundvelli gildandi aðalskipulags Skútustaðahrepps 2011-2023. Hluti Ódáðahrauns bættist við Vatnajökulsþjóðgarð með stækkun hans árið 2019. Á lóðinni stendur einn gönguskáli sem er í eigu Ferðafélags Akureyrar og er hann skilgreindur sem þjónustueining fyrir gesti þjóðgarðsins.

Engin frekari uppbygging er fyrirhuguð á lóðinni, að því er fram kemur í auglýsingunni, og skal almenningur áfram eiga umferðarrétt þar um. Afnot af lóðinni eru boðin fram frá ársbyrjun 2024 og fram til loka árs 2043. Þá er möguleiki á framlengingu til fimm ára í senn í allt að fjögur skipti, eða til ársloka 2063.

Í auglýsingu Vatnajökulsþjóðgarðs eru raktir þeir þættir sem einkum verði horft til við ákvörðun um leyfisveitingu á svæðinu. Þar segir að koma þurfi fram upplýsingar um það hvernig umsækjandi hyggst nýta auglýsta lóð við Bræðrafell. Jafnframt er gerð krafa um að óhagnaðardrifið félag sem starfar í almannaþágu skuli standa að rekstri á lóðinni. Að síðustu er krafist þekkingar og reynslu umsækjanda af ferðaþjónustu á hálendinu.