Sigurborg Rúnarsdóttir fæddist í Reykjavík 7. september 1967. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á hjúkrunarheimilinu Sólvangi 5. nóvember 2023.

Foreldrar hennar eru Rúnar Jóhannes Guðmundsson sjómaður og síðar bifreiðastjóri, f. 12. febrúar 1941, d. 12. mars 2012, og Hjördís Davíðsdóttir, f. 13. apríl 1946. Sigurborg var yngst þriggja systra. Systur hennar eru Geirlaug, f. 2. ágúst 1964, og Valgerður Hjördís Falk, f. 13. febrúar 1966.

Eftirlifandi eiginmaður hennar er Hermundur Svansson, f. 24. október 1952. Börn þeirra eru: 1) Herdís Eva f. 9. desember 1988. Eiginmaður hennar er Hörður Guðmundsson, f. 20. mars 1983. Þau eiga tvær dætur, Hrafnhildi Diljá, f. 6. nóvember 2015, og Hörpu Máneyju, f. 2. nóvember 2021. 2) Sævar Falk, f. 7. september 1990. 3) Elísa Rún, f. 24. ágúst 1994. Unnusti hennar er James Elías Sigurðarson, f. 10. desember 1996.

Bogga eins og hún var kölluð ólst upp hjá foreldrum sínum í Reykjavík. Hún byrjaði snemma að vinna og var í sumarvinnu með skóla, fyrst á Kirkjusandi en síðar á Hornafirði. Hún kláraði grunnskólann í Ölduselsskóla en fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti, þar sem hún lauk stúdentsprófi á verslunarbraut árið 1988. Sama ár flytur hún til Húsavíkur ásamt verðandi eiginmanni sínum en þau kynntust árið 1986. Þau gengu í hjónaband 23. október 1993. Árið 1998 flytja þau til Raufarhafnar þar sem hún vann í fiski í frystihúsi staðarins þar til vorið 1999 að þau flytja til Hafnarfjarðar. Þar fékk hún vinnu á leikskólanum Álfasteini skammt frá heimilinu og vann þar nokkur ár. Hún tók líka meirapróf og keyrði leigubíl um tíma.

Útför Sigurborgar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 27. nóvember 2023, kl. 13.

Elsku mamma mín.

Þú varst ávallt mér við hlið og við áttum svo óteljandi stundir saman. Það er sárt að skrifa og hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér. Að ég mun ekki ferðast með þér aftur, hlæja yfir grínþáttum í sjónvarpinu með þér, fara saman í badminton, baka og gera annað skemmtilegt.

Þú varst alltaf svo stór hluti af lífi mínu og þar er því núna skarð sem verður ávallt til staðar en ég mun læra að lifa með. Ég á svo margar minningar til þess að lifa á og ég er þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og okkur. Ekki nóg með minningarnar heldur eigum við heilan fjársjóð mynda sem er þér að þakka og við munum varðveita vel.

Þú hélst alltaf bestu veislurnar, varst svo dugleg að baka, þú elskaðir jólin sem og sumarið. Ég man góðu stundirnar sitjandi í sólinni á svölunum að spjalla, og dunda í garðinum með þér. Ferðalögin í tjaldvagninum sem var síðan uppfærður í húsbíl, og hvað ég var alltaf velkomin með í ferðalögin þótt fullorðin væri og James líka. Við vorum dugleg að safna í fjársjóð góðra minninga á lífsleiðinni.

Ég man litlu stundirnar og stóru stundirnar, þú komst á öll handboltamótin mín í æsku, sem ég er svo þakklát fyrir þótt ég gerði mér ekki grein fyrir því á þeim tíma, maður tekur mörgu sem gefnu sem er alls ekki gefið. Þú mættir á alla viðburði í skólanum, útskriftir, jólaskemmtanir og annað, og alltaf með myndavélina á lofti.

Þín verður svo sárt saknað elsku mamma, farin frá okkur alltof snemma en við vitum að þú vakir yfir okkur ávallt og að þú munt taka á móti okkur þegar okkar tími kemur.

Hvíldu í friði elsku besta mamma.

Elísa Rún
Hermundardóttir.

Elsku litla systir.

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við að þú sért farin og að þessi sjúkdómur sem alzheimer er sé svona ágengur að það tók örfá ár.

Við áttum alltaf hvor aðra að og ljósmyndaáhugann okkar ásamt ýmissi handavinnu, þar varst þú í essinu þínu, það lék allt í höndunum á þér hvort sem það var að sauma, hekla, prjóna, föndur, útsaumur eða bakstur. Það vafðist ekkert fyrir þér sem þú tókst þér fyrir hendur.

Við eigum þrjú börn á svipuðum aldri og aldrei var lognmolla þegar við vorum saman, hvort sem var á Húsavík eða þegar þið fluttuð til Hafnarfjarðar.

Ófá skiptin kom ég með Sóldísi mína til Húsavíkur akandi eða með flugi og þá var Hemmi oftar en ekki á sjónum og þá brölluðum við ýmislegt, hvort sem það var bakstur, fara í réttir eða heimsækja nærliggjandi sveitir, og ekki má gleyma Botnsvatni að sumartíma. Ég kynntist vel Norðurlandi á meðan þið bjugguð á Húsavík, Hemmi eins og alfræðiorðabók vissi allt og ef eitthvað vantaði upp á komst þú með svörin, þið voruð svo samtaka hjónin og dugleg alla tíð að ferðast um Ísland með börnin og svo utanlandsferðirnar í seinni tíma.

Við vorum saman í saumaklúbbi alla tíð eftir að þú fluttir suður og það breyttist ekkert þótt þú værir komin á Sólvang, við vorum duglegar að hittast og ná í þig og bralla ýmislegt, aldrei leiddist þér og varst til í allt, og ég gleymi ekki gleðinni þegar við komum að ná í þig, þú nánast valhoppaðir út með okkur.

Við héldum upp á afmælið þitt 7. september með þér á Sólvangi með heimilismeðlimum og fjölskyldu ásamt saumó. Það var yndisleg stund og mig grunaði ekki að það yrði síðasti afmælisdagurinn, svo mikil varð breytingin á tveimur mánuðum.

Elsku Bogga mín, ég trúi því að þér líði betur núna en engu að síður er söknuðurinn óbærilegur og ég mun ávallt elska þig, mundu það eins og ég sagði alltaf við þig.

Elsku Hemmi og fjölskylda, megi Guð vera með ykkur á þessum erfiðu tímum.

Þín systir,

Valgerður Hjördís Falk Rúnarsdóttir.

Elsku Bogga.

Það er erfitt að kveðja en samt er ég svo þakklát líka fyrir að þú þurfir ekki að lifa með þennan sjúkdóm lengur, þér fannst þetta svo erfitt enda er alzheimer ömurlegur sjúkdómur.

Við vorum búnar að vera vinkonur lengi, alla vega 40 ár eða svo, og traustari vinkonu er ekki hægt að finna þannig að ég var mjög svo heppin að þú valdir mig sem vinkonu.

Við brölluðum margt á þessum árum, prófuðum að pakka pylsum hjá SS eitt sumar og fórum til Hafnar í Hornafirði og unnum hjá KASK við að snyrta fisk en þú varst nú fljót að koma þér burt af borðinu frá mér því ég var nú ekki eins snögg og nýtti ekki eins vel enda var ég að þessu í fyrsta skipti en þú vön, þú varst í fiski mörg sumur í Reykjavík en ég fór alltaf í sveitina á sumrin.

Við vorum heldur ekki týpískir unglingar á okkar yngri árum, við völdum frekar að fara í Templarahúsið og spila félagsvist og dansa gömlu dansana við eldri borgara heldur en að fara í bæinn á Hallærisplanið eins og flestir gerðu í þá daga.

Eins og ég sagði hérna fyrir ofan þá fórum við til Hornafjarðar 19 ára að vinna í fiski og þar kynntist þú Hemma þínum. Þú varst nú frekar feimin á þessum tíma og þorðir ekki að tala við hann en þú varst búin að draga mig í mat á kvöldin í frystihúsið í nokkrar vikur til að horfa á hann og ég ætlaði aldrei að fá upp úr þér hvern þú varst að spá. Að lokum náði ég að koma ykkur saman með því að biðja Hemma að sækja kærastann minn á flugvöllinn. Þið náðuð þá að tala saman og þú fórst svo með honum til Húsavíkur þar sem þið bjugguð í mörg ár og eignuðust þrjú börn.

A þessum árum hittumst við nú ekki oft enda hvor á sínum landshlutanum en þú varst dugleg að hringa og er það þér að þakka að ekki slitnaði vinkonusambandið.

Þó að ég færi í burtu í einhverja mánuði og jafnvel ár þá varst þú alltaf þarna þegar ég kom heim og var eins og ég hefði aldrei farið.

Hemmi og fjölskyldan þín eiga um sárt að binda núna en þau passa upp á hvert annað og litlu ömmuprinsessurnar þínar, dætur hennar Herdísar þinnar, en þú brostir allan hringinn þegar þú talaðir um þær eða sást. Og fallegt var brosið þitt því að andlitið geislaði eins og sólin þegar þú brostir.

Ég ætla að reyna að vera dugleg að halda prjónaklúbbnum okkar saman en við erum búnar að vera að hittast í rúm 20 ár og eftir að þú veiktist og fórst á Sólvang í Hafnarfirði vorum við duglegar að taka þig með út að borða einu sinni í mánuði til að gera eitthvað saman. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólkinu á deildinni þinni á Sólvangi fyrir hvað það var yndislegt og eins allir íbúarnir þar, sá að þetta var erfitt fyrir þau þegar þú varst að kveðja.

Elsku Hemmi, Herdís, Sævar, Elísa, Diljá, Harpa, systur þínar Vala og Geirlaug og mamma þín Hjördís, ég votta ykkur innilega samúð.

Og elsku Bogga, takk fyrir allt, ég gleymi þér aldrei.

Þín vinkona,

Linda Björk Bragadóttir.