Guðjón Ólafsson fæddist í Reykjavík 22. júní 1939. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 16. nóvember 2023.

Foreldrar Guðjóns voru Ólafur Jónsson loftskeytamaður, f. 17. ágúst 1906, d. 15. ágúst 1986, og Sigríður Gísladóttir klæðskeri og húsmóðir, f. 11. apríl 1908, d. 10. mars 1995. Guðjón var einkabarn þeirra hjóna.

Guðjón kvæntist hinn 25. nóvember 1967 Sigríði Valdimarsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 13. maí 1946 á Selfossi. Foreldrar Sigríðar voru hjónin Valdimar Jónsson, f. á Flugumýri í Skagafirði 1921, d. 1989, og Dóra Ragnheiður Guðnadóttir, f. á Kotmúla í Fljótshlíð 1924, d. 2007. Systkini Sigríðar eru Steinunn María, f. 1948, d. 2023, Sara Regína, f. 1954, Inga Aðalheiður, f. 1955, d. 2022, og Guðjón Viðar, f. 1960.

Dóttir Guðjóns og Sigríðar var Ragnheiður flugstjóri, f. 22. júlí 1975. Hún lést 2016. Sonur hennar er Alexander Berg Óskarsson, f. 14. nóvember 2013. Foreldrar hans eru Hulda Sigurjónsdóttir og Óskar V. Eggertsson.

Guðjón ólst upp á Vatnsenda þar sem faðir hans var stöðvarstjóri loftskeytastöðvarinnar á stríðsárunum. Árið 1946 fluttist Guðjón með foreldrum sínum í Kópavog og átti þar heima þar til hann kvæntist. Að lokinni hefðbundinni skólagöngu lærði Guðjón að fljúga og starfaði sem flugmaður og flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands, sem seinna varð Icelandair, frá 15. maí 1961 til júnímánaðar 2004 eða í 43 ár. Tómstundir nýtti Guðjón gjarnan til smíða. Meðal annars innréttaði hann að mestu sjálfur raðhús þeirra hjóna í Fossvogi, en þar bjuggu þau í 46 ár. Árið 2018 fluttu þau hjón í Grafarvoginn þar sem þau undu hag sínum vel í návist við barnabarn sitt.

Útför Guðjóns fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 27. nóvember 2023, klukkan 13.

Það eru beisk tímamót þegar þeir sem ávallt hafa verið í lífi manns kveðja. Guðjón hefur verið hluti af stórfjölskyldunni svo langt sem ég man, enda var ég aðeins um hálfs árs gömul þegar hann gekk að eiga Sirrý móðursystur mína. Hann var lengi svolítið utan seilingar, enda, eins og vill verða með fólk í hans starfsstétt, löngum fjarvistum á flugi erlendis og því ekki sjálfsagður gestur í fjölskylduboðunum eða heima við þegar við litum inn í Kjalarlandinu. Að auki bar barnið óttablandna virðingu fyrir mönnum í einkennisbúningi, hvað þá þeim sem stýrðu stórum flugvélum, svo ég hef eflaust haldið öruggri fjarlægð, feimin og óframfærin sem ég var. Með tímanum breyttust þó bæði ég sjálf og þessi fjarlægi maður. Guðjón varð pabbi Raggýjar og þá allt í einu bara venjulegur pabbi eins og allir hinir pabbarnir í augum unglings á níunda áratug síðustu aldar, pabbar sem töluðu bara um vinnuna og pólitík og sögðu hallærislega brandara. Leið mín lá svo út í heim eins og gengur og það var fyrst eftir heimkomuna mörgum árum síðar, þegar ég var sjálf orðin nógu þroskuð til að tala um vinnuna og pólitík, að ég fór að kynnast Guðjóni betur.

Mér fannst hann umbreytast við fæðingu dóttursonarins og það var dásamlegt að fylgjast með innilegu sambandi þeirra Alexanders alla tíð. Við sviplegt fráfall elsku Raggýjar þéttist fjölskyldan mjög og Guðjón varð okkur mun nær og kynnin nánari. Hann hafði enda einnig látið af störfum og fylgdi Sirrý sinni í öll boð og barnaafmæli í fjölskyldunni og var þar hrókur í öllum umræðum. Mínar bestu minningar af honum eru einmitt af spjalli yfir kaffibolla með þeim Sirrý síðustu ár. Hann hafði alltaf gaman af því að deila sögum úr fluginu en skemmtilegast fannst mér að heyra af barnæsku hans á Vatnsendahæðinni á stríðsárunum og uppvextinum í Kópavoginum. Það er margt merkilegt sem fólk af hans kynslóð lifði á sínum yngri árum, þegar heimurinn breyttist svo ógnarhratt, og gaman fyrir okkur sem yngri erum að heyra þessar sögur. Ég á eftir að sakna þessara stunda.

Hugur minn er hjá ykkur elsku Sirrý og Alexander sem nú syrgið sárt.

Hvíl í friði elsku Guðjón.

Dóra Ragnheiður.