Kolfinna Sigrún Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 13. desember 1953. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 13. nóvember 2023.


Foreldrar hennar voru Guðmundur Hagalín Kristjánsson, f. 14. október 1926, d. 14. ágúst 1974, og Elín Guðjónsdóttir, f. 18. júní 1931, d. 10. maí 2003.
Systkini Kolfinnu eru: Kristján, f. 1. nóvember 1949, kvæntur Hildi Hermannsdóttir; Barði, f. 21. febrúar 1951, d. 23. október 1987; María, f. 14. júní 1957, gift Jóni Heiðari Guðjónssyni; Haraldur, f. 28. júní 1958, d. 28. júlí 2008.


Kolfinna giftist 29. ágúst 1976 Hlöðveri Sigurðssyni, f. 29. ágúst 1946. Dætur þeirra eru: 1) Elín Guðný, f. 22. apríl 1986, gift Sæmundi Maríel Gunnarssyni, f. 18. júní 1982, börn þeirra eru: Hlöðver Gunnar, f. 7. júní 2013, og Kolfinna Rósa, f 19. október 2014. 2) María Peta Hagalín, f. 11. september 1988, gift Magnúsi Aldan Guðlaugssyni, f. 17. maí 1991, börn þeirra eru: María Rós, f. 6. janúar 2011, Haraldur Elí, f. 30. maí 2014, Andrea Mist, f. 22. ágúst 2014, Magnús Aldan, f. 5. mars 2020, og Barði Aldan, f. 30. maí 2021. 3) Kolfinna Hagalín, f. 6. ágúst 1990.


Kolfinna fæddist á Vesturgötu 35 í Reykjavík en fluttist fimm ára gömul með fjölskyldu sinni að Básenda 6 þar sem hún sleit barnsskónum. Kolfinna og Hlöðver hófu búskap árið 1974 og bjuggu fyrst um sinn á Sólvallagötu 66 í Reykjavík. Árið 1987 fluttust þau í Hamrahverfið í Grafarvogi þar sem þau bjuggu sér og dætrum sínum heimili í 30 ár. Síðustu sex árin hafa þau hjónin búið í Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ ásamt dætrum sínum og fjölskyldum.

Kolfinnu var kaupmannseðlið í blóð borið en starfsferill hennar hófst í Krónunni í Mávahlíð í verslun foreldra hennar. Kolfinna og Hlöðver unnu mikið saman á þeim tæpu 50 árum sem þau fengu saman. Fyrst um sinn voru þau í sjoppurekstri, síðar stofnuðu þau fiskvinnsluna Humal. Fóru til Bandaríkjanna og lærðu kertaskurð og opnuðu verslunina Blóm og kerti. Þau stofnuðu Hlöllabáta árið 1986 og sinntu þeim rekstri til ársins 2012 þegar þau seldu. Kolfinna var sælkeri mikill og hafði gaman af því að útbúa góðan mat og í gegnum tíðina tók hún að sér að sjá um veitingar í veislur fyrir vini og kunningja.

Síðasta verkefni Kolfinnu var rekstur fjölskyldunnar á Litlu kaffistofunni við Suðurlandsveg.

Útför Kolfinnu verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 27. nóvember 2023, klukkan 13.

Ég er þakklátur í dag! Það hljómar kannski furðulegt þar sem ég fylgi Kollu frænku til grafar í dag. Konu sem ég hef alltaf litið á sem þriðja uppalandann minn.

Ég er vissulega sorgmæddur og hef verið frá því hún kvaddi okkur þann 13.11. 23. En aðallega er ég þakklátur fyrir að hafa átt næstum 50 ár af kærleik, hlátri, samtölum, kennslustundum, vináttu og öryggistilfinningu með Kollu frænku.

Kolla var einungis tvítug þegar ég fæddist, held að frá því að hún hafi séð mig fyrst hafi hún ákveðið að elska mig og að ég yrði uppáhaldið hennar.

Þar sem að Kolla var bæði þrjósk og fylgin sér, skipti hún aldrei um skoðun og stóð við þessa ákvörðun sína næstu 50 árin. Ég fékk aldrei að hafa það á tilfinningunni að ég væri ekki hennar uppáhalds. Í rúmlega áratug var ég einn um Kollu frænku og hún var barnlaus og ég var hennar uppáhalds allt. Ég eyddi ómældum tíma hjá henni og Hlölla á Sólvallagötunni í pössun eða bara af því að hana langaði að hafa mig hjá sér. Þegar ég var að verða unglingur komu dætur þeirra Hlölla í heiminn, fyrst Ella svo Mæja og loks Kolla littla hver á eftir annarri og Kolla frænka átti orðið sín eigin börn.

Þó svo að færi aldrei á milli mála að Kolla frænka sæi ekki sólina fyrir stelpunum sínum og ættu hjartað hennar skuldlaust þá leið mér aldrei eins og það væri á minn hlut, hjartað hennar einfaldlega stækkaði og ég fékk áfram að vera hennar. Kolla skilur eftir stórt skarð sem verður aldrei fyllt, enda þekki ég ekki lífið án hennar. En ég hugga mig við það að ég á 50 ár af minningum sem ég mun geyma hjá mér alltaf.

Ég er búin að komast að því að ég kann ekkert að semja minningargrein. Þegar ég sest niður til að skrifa, þá fer ég að velta því fyrir mér af hverju ég finn til svona mikils saknaðar? Kolla frænka er bara nýfarin og síðustu árin hafa oft liðið of langur tími milli samtala hjá okkur.

Það var ekki alltaf þannig, en fyrir 12 árum flutti ég til Danmerkur og eins og gengur og gerist breyttust næturheimsóknir í myndsímtöl og heimsóknir með allt of löngum millibilum.

Þegar ég hugsa til baka og reyni að muna eins langt aftur og ég get koma upp í hugann á mér minningar um Sólvallagötuna og baðkarið. Að fara í bað hjá Kollu frænku var áskorun þegar að ég var lítill. Hún kenndi mér að baðið ætti að vera það heitt að manni mætti svima aðeins. Og ef húðin væri ekki rauð þegar maður kom upp úr þá hefði baðið ekki verið nógu heitt og í dag vil ég hafa það þannig. Í minningunni var ekki mikið af barnadóti á Sólvallagötunni, sem skipti ekki máli því það mátti leika sér með allt sem Kolla og Hlölli áttu (líka fína dýra dótið). Ég man eftir litabókum og að Kolla kenndi mér að lita og halda mér innan línanna á meðan við hlustuðum á Villa Vill eða ef að Hlölli fékk að ráða þá hljómaði hinn kóngurinn Elvis. Villi Vill og Elvis það er lýsandi fyrir þau hjónin ótrúlega ólík en meistarar bæði tvö. Kolla tók mig með í vinnu hvar sem hún var, hvort sem það var fiskibolluverksmiðja, sjoppa, blómabúð eða bátagerð og alltaf fékk maður að vinna með. Að vinna gáfulega var eitt af því sem að hún innprentaði í mig og lagði áherslu á að vera með verkvit, sem er eitthvað sem pabbi hélt svo áfram með. Svolítið eins og þau hafi lært það frá sömu manneskjunni.

Alveg sama hvað Kolla var að gera þá tók hún mig með og lét eins og við værum að gera það saman. Ef við vorum dugleg þá leigðum við spólu, fengum kók og lakkrísrör. Svo horfðum við öll þrjú ég Kolla og Hlölli á mynd fram eftir kvöldi (yfirleitt eitthvað sem ég annars hefði aldrei fengið að sjá). Það er eitthvað sem ég man svo vel, það er hversu mörg fullorðin samtöl ég upplifði sem krakki því mér var aldrei ýtt til hliðar hjá Kollu. Ef ég skildi ekki eitthvað var það útskýrt. Hún var aldrei að koma fram við mann eins og krakka bjána. Þegar ég var mjög ungur, það ungur að ég vildi láta lesa fyrir mig fyrir svefninn kom í ljós að það voru heldur ekki neinar barnabækur á Sólvallagötunni. Kolla tók þá bara upp á því að lesa fyrir mig Sannar sögur og Eros eða bara það sem hún var að lesa hverju sinni.

Mínar uppáhaldsminningar frá Sólvallagötunni eru kvöldin þar sem að vinir Kollu og Hlölla komu í heimsókn, sem gerðist oft. Hlölli var á fullu í AA á þessum tíma en Kolla í Al Anon og voru þau orðin ansi vinmörg á þessum tíma. Oft kom góður hópur af allskonar fólki sem var afar ólíkt en átti það sameiginlegt að vera búið að taka ákvörðun um að breyta lífinu og að hafa gaman. Það fylltist eldhúsið af skemmtilegu fólki sem sat og borðaði, drakk kaffi, reykti og reyndi að láta hvort annað fara að hlæja. Ég hef verið svona 8 eða 9 ára gamall þarna og ég dýrkaði þennan hóp af fólki. Ég vildi fá að vera með og ég fékk það (eins og flest sem ég vildi hjá Kollu). En þegar að klukkan var orðin margt, þá var búið um mig með því að sækja allar sængur í húsinu og gert hreiður á eldhúsgólfinu svo ég gæti verið með fram á nótt eða þangað til að ég lognaðist út af út frá hláturssköllum og góðum sögum. Enn þann dag í dag er þetta með því betra sem ég geri, sitja fram eftir inni í eldhúsi með góðu fólki og grínast.
Ég var orðin svo mikill góðkunningi þessa hóps að þegar að þau fóru öll á Broadway til að sjá ungfrú Ísland keppnina, þá vildi þannig til að ég var í helgargistingu hjá Kollu og Hlölla. Það koma aldrei annað til mála að ég færi annað í pössun, og var ég því settur í fínni föt og tekin með á Broadway. Kolla græjaði þetta allt með Óla Laufdal sem fannst þetta ekkert mál þrátt fyrir að ég væri meira en áratug of ungur. Þarna fékk ég að skottast um bæði baksviðs og innan um fína fólkið eins og ég ætti staðinn, þannig leið mér oftast með Kollu frænku eins og ég ætti staðinn.
Þegar að ég varð aðeins eldri og flutti með fjölskyldunni í nokkur ár til Noregs kom ég gjarna heim á sumrin og var þá hjá Kollu og Hlölla. Þar var alltaf best að vera og ég eignaðist vini í vesturbænum sem ég á enn þá í dag.
Á unglingsárunum þegar að ég fór að verða uppreisnargjarn og að gera allskonar vitleysu var alltaf hægt að fara til Kollu þegar að fullorðna fólkið var of heimskt til að skilja mann. Ég gat talað við hana um allt og ekkert. Hún bara skildi mig og leyfði mér að vera ég. Maður gleymdi einfaldlega að hún væri þá orðin ein af fullorðna fólkinu. Alveg sama hvort um var að ræða glappaskot eða sigra þá var hún í mínu horni. Fyrst til að fagna, fyrst til að fyrirgefa og fremst með útrétta hjálparhönd.
Ég get ekki ímyndað mér að hún hafi alltaf haft tíma fyrir heimsóknirnar frá mér sem oft byrjuðu í kvöldmat og enduðu eftir allt of marga kaffibolla löngu eftir að allir aðrir voru farnir að sofa. En Kolla gaf sér tíma og hlustaði á mig full af áhuga og eftirtekt.
Ég vann mikið fyrir Kollu þegar að ég varð eldri, þegar hún og Hlölli opnuðu hvern Hlöllabáta staðinn á fætur öðrum. Ekki endilega af því að vinnan væri svo skemmtileg meira því að vel unnið verk fyrir Kollu var betra en vel unnið verk fyrir nokkurn annan. Ég man vel eftir mörgum nóttum á hinum og þessum stöðum sem voru að fara að opna á morgun og allir aðrir farast úr stressi, svefnleysi og þreytu. Þá áttum við Kolla það til að líta hvort á annað, brosa og segja: Nú er gaman! Það er eitthvað sem frænka mín smitaði mig af, að vinna undir pressu er gaman.
Sjálfsagt verður ekki fundin duglegri manneskja en Kolla frænka eða meiri nagli. En það sem kannski einkenndi hana var að það gat verið svo rosalega gaman í vinnunni, hún naut þess að vinna mikið og fara í heitt bað á eftir og láta líða úr sér.
Þegar að ég og Hildur vorum að byrja að slá okkur saman og vorum búin að fara í gegnum bíó- og vídeókvöldstímabilið okkar þá kom tímabil þar sem að við áttum það til að fara til Kollu í kaffi á kvöldin og sitja fram eftir lengi og spjalla um allt og ekkert. Það var mér mikilvægt að þær myndu kynnast vel og yrðu vinkonur. Það kom svo á daginn að þegar að Hildur varð ólétt þá var Kolla efst á lista yfir þá sem máttu vita á eftir foreldrum okkar. Kolla spilaði líka stóra rullu í brúðkaupinu okkar þegar að breyta þurfti öllu viku fyrir brúðkaup þá var gott að hafa Kollu með.
Þegar að frumburðurinn Kristján Gabríel kom í heiminn var Kolla mætt fyrst af öllum upp á fæðingardeild, það að verða pabbi var stórt fyrir mér og þá var það stórt fyrir henni. Þegar að Kolla fékk Kristján í fangið sá ég á henni að hún væri búin at taka sömu ákvörðun og þegar ég fæddist. Hún myndi elska hann og hann yrði líka uppáhalds, á þeirri stundu var það mér meira virði en allt annað.
Árin liðu og lífið gekk sinn vanagang þangað til að við Hildur ákváðum að flytja til Danmerkur með fjölskylduna í tvö ár fyrir 12 árum síðan. Ég sá á Kollu að þessi hugmynd var ekki ein af hennar uppáhalds, en studdi hana engu að síður. Við vorum ekki búin að vera lengi hérna úti þegar að Kolla greindist fyrst með krabbamein. Á þeim tíma var það alvarlegt mál og útlitið ekki gott. Kolla kom til Danmerkur til að fara í skanna og ég tók á móti henni og eyddi degi með henni í Kaupmannahöfn, bara við tvö á röltinu. Það var þrátt fyrir allt frábær dagur og enn betra kvöld. Við fórum yfir allt og ekkert, ræddum sjúkdóminn og hvernig hún ætlaði að tækla hann. Ég man að ég hugsaði að aumingja krabbinn ætti ekki séns í frænku mína á þessum tíma. Enda var það raunin hún fór í meðferð til Noregs og af því að það bar upp á páskum komu hún og Ella Guðný yfir til okkar yfir páskana og eyddu tíma með okkur fjölskyldunni í dönsku sumarhúsi. Þarna var Kolla veik, en full af baráttuhug. Það sýndi sig svo að meðferðin hafi virkað og við tóku nokkur góð ár þar sem að hún og Hlölli náðu meira að segja að koma í fermingu hjá Kristjáni hér í Danmörku sem okkur fannst ómetanlegt.
En einhvern veginn enda allt of margar krabbameinssögur bara á einn veg. Kolla barðist fyrir áratug af lengra lífi en annars hefði getað verið. Hún nýtti hann vel held ég. Fjölskyldan stækkaði, tengdasynir og barnabörn bættust í hópinn sem hún elskaði að vera í kringum.
Síðustu árin hefur Kolla ásamt fjölskyldunni rekið Litlu kaffistofuna. Hún hefur ásamt þeim reist við það fyrirtæki og unnið myrkranna á milli. En þegar maður hugsar um það þá er það einmitt það sem frænka mín kunni best við. Vera dugleg, vinna mikið, vera með fjölskyldunni. Þetta allt var á kaffistofunni, vinna, verkefni og fjölskyldan.
Í síðustu ferðinni minni heim hitti ég Kollu eins og ég gjarna geri fyrsta daginn minn á Íslandi. Hún var þá mikið veik og sagði mér hreint út að nú væri komið að þessu, hún bara vissi það. Það voru nokkrir hlutir sem hún ætlaði að klára fyrst og svo mætti það koma. Aðalatriðið var að mæta í brúðkaup hjá Mæju og Magga og hafa gaman. Sem hún og gerði þrátt fyrir að vera þjökuð af verkjum mætti hún og hafði gaman af, naut þess í botn ef satt skal segja. Það var frábær dagur og góð minning inn í lífið að sjá Kollu frænku svona glaða svona stuttu fyrir kveðjudaginn. Ég heimsótti Kollu flesta daga á meðan ég var heima á Íslandi og er þakklátur fyrir að hafa átt þann tíma með henni og vita að það er ekkert eftir ósagt milli okkar. Ég veit, hún veit, við vissum hversu mikils virði við vorum hvort öðru og það er ómetanlegt.
Og það er kannski þaðan sem þessi saknaðartilfinning kemur. Ég á eftir að sakna þess að hafa það á tilfinningunni að þegar ég komi heim til Kollu að það hafi verið akkúrat nákvæmlega það sem hana langaði. Hvenær sem ég kom eða hringdi í hana lét hún mér alltaf líða eins og hún hafi verið að bíða eftir mér og að ég væri akkúrat maðurinn sem hana langaði að hitta eða tala við. Það er hæfileiki að láta öðru fólki líða svona.
Ég held ég geti ekki haft þetta lengra þó svo að ég eigi inni minningar sem gætu fyllt bækur.
Kvöldið áður en ég fór aftur til Danmerkur og Kolla var komin inn á spítalann fór ég til hennar og var hjá henni í nokkra stund og við föðmumst og grétum saman. Við vissum bæði að héðan af myndum við aldrei sjást aftur. Að ganga út um herbergisdyrnar frá henni er eitt af því erfiðasta sem ég hef gert.
Ég held ég verði að enda þetta á síðustu orðunum mínum til hennar þar sem ég hafði hvorki styrkinn eða hugrekkið til að kveðja konuna sem ég kann ekkert að vera án.

Góða nótt Kolla og takk fyrir allt.

Gummi frændi.

Guðmundur.