Gömul frétt og vond blaðamennska

Hamas-liðar hafa skilað á þriðja tug fanga sem þeir nældu sér í úr hópi almennings 7. október sl. Í þeim hópi var fjögurra ára barn, en Hamas hafði drepið foreldra hennar í leiðangri sínum inn á tónleikasvæðið. Konum þar var nauðgað, börn steikt í ofnum og konur skornar á háls. Þannig var talið í fyrstu að þá hefðu fallið 1.400 saklausir borgarar. Nokkru síðar voru tölur ljósari og eina lýðræðisríkið á þessu svæði, Ísrael, hefur endurskoðað þær tölur og sagt að nú sé ljóst að 1.200 saklausir borgarar hafi verið drepnir þann dag.

Nú birta alls konar miðlar um víða veröld, og ekki síst þeir sem telja að taka verði trúanlegar þær tölur sem hermdarverkasveitir Hamas birta, tölur um fall almenna borgara sem sveitirnar hafa safnað sem skjól fyrir sveitir sínar. Lýðræðislandið varð að leiðréttar sínar tölur því að þær verða að standast skoðun þingsins. Ekkert slíkt gildir um hryðjuverkasveitirnar. Þær hafa engar kosningar haldið á Gasa síðan 2006!

Fólkið og fjölmiðlar vita betur en látið er, enda fordæmin þekkt. Eitt hið frægasta var spítalinn á norðurhluta Gasa þar sem Hamas missti flaug sína niður af leið, sem ætlað var inn í Ísrael, eins og hundruðum slíkra undanfarna mánuði, og lenti við bílaplan sjúkrahússins en brak úr flauginni féll á sjúkrahúsið sjálft. Fáeinum mínútum eftir slysaskot Hamas tilkynnti hreyfingin að Ísraelsher hefði skotið á sjúkrahúsið viljandi og drepið þar 500 manns! Þeir sem gera ekki miklar kröfur eru fljótir að telja. Fáeinum tímum síðar birti upplýsingaskrifstofa hers Ísraels myndir af þessari flaug, sem sýndi hvaðan hún kom og hvar hún lenti.

Hvíta húsið í Washington gerði það sem er sjaldgæft, og vitnaði í leyniþjónustu sína og birti gervitunglamyndir og staðfesti það, sem raunar þá lá þegar fyrir og fjöldi sjónvarpsstöðva hafði þegar í sínum fórum. Sjónvarpsstöðvar, sem margar þykjast „vandaðri“ en aðrar, tóku sér tvo til þrjá daga til að „hafa fullt öryggi fyrir sínum fréttum“ (sem þær voru þó fyrir löngu búnar að birta kolrangar) og staðfestu loks í lítilli frétt, sem var eðlilegt, enda fréttin orðin gömul og óæt, „að sennilega mætti ganga út frá því að upplýsingar Ísraela og Bandaríkjanna væru réttar“. En þegar hinar „upplýstu fréttir“ birtust loks voru lygafréttirnar fyrir löngu orðnar að staðreyndum.