Handtekin Arndís segir upptökin að handtökunni þau að hún hafi verið of lengi inni á salerni og dyraverðir því ákveðið að vísa henni út.
Handtekin Arndís segir upptökin að handtökunni þau að hún hafi verið of lengi inni á salerni og dyraverðir því ákveðið að vísa henni út. — Morgunblaðið/Eggert
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata, sem var handtekin aðfaranótt laugardags á skemmtistaðnum Kíkí queer bar, gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hún sagðist hafa verið dónaleg við dyraverði og streist á móti þegar þeir reyndu að vísa henni út

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata, sem var handtekin aðfaranótt laugardags á skemmtistaðnum Kíkí queer bar, gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hún sagðist hafa verið dónaleg við dyraverði og streist á móti þegar þeir reyndu að vísa henni út. Sneru þeir hana niður og báðu svo um aðstoð lögreglu við að koma henni út af skemmtistaðnum.

„Þetta mál er mér ekki til sóma og mér þykir það mjög leiðinlegt. Ég var búin að drekka of mikið og brást illa við þegar dyraverðir opnuðu dyrnar á klósettinu, ég var dónaleg og streittist á móti,“ segir í yfirlýsingu Arndísar. Sagði hún enn fremur hegðun sína ekki hafa verið til fyrirmyndar og hún hefði beðið hlutaðeigandi afsökunar.

„Það eru forréttindi að vera kjörinn fulltrúi, því fylgir ábyrgð og mér þykir leitt að hafa brugðist svona við.“

Morgunblaðið náði ekki í Arndísi í gær. Þingmennirnir Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen vildu ekki tjá sig um málið. Ekki náðist í afganginn af þingflokki Pírata.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis segir í samtali við Morgunblaðið að hann geri ekki ráð fyrir að forsætisnefnd Alþingis taki málið upp að eigin frumkvæði og hefur nefndinni ekki borist erindi vegna þess. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst ekki tjá sig um handtökuna. hng@mbl.is