ELSA Bjarki er fyrstur Íslendinga til að taka sæti í alþjóðastjórn ELSA.
ELSA Bjarki er fyrstur Íslendinga til að taka sæti í alþjóðastjórn ELSA.
Geir Áslaugarson geir@mbl.is Bjarki Fjalar Guðjónsson, laganemi við Háskóla Íslands, hlaut nýverið fyrstur Íslendinga kjör til forseta alþjóðastjórnar Samtaka evrópskra laganema eða ELSA. Þá er hann ekki einungis fyrsti Íslendingurinn til þess að gegna embætti forseta alþjóðastjórnarinnar, heldur einnig fyrsti Íslendingurinn til þess að taka sæti í alþjóðastjórninni.

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Bjarki Fjalar Guðjónsson, laganemi við Háskóla Íslands, hlaut nýverið fyrstur Íslendinga kjör til forseta alþjóðastjórnar Samtaka evrópskra laganema eða ELSA. Þá er hann ekki einungis fyrsti Íslendingurinn til þess að gegna embætti forseta alþjóðastjórnarinnar, heldur einnig fyrsti Íslendingurinn til þess að taka sæti í alþjóðastjórninni.

Bjarki var áður forseti ELSA á Íslandi til tveggja ára, en samtökin eru stærstu sjálfstæðu samtök laganema í heiminum og telja um 60 þúsund meðlimi í 43 Evrópulöndum og í 432 háskólum.

Fyrstu skref í embætti

Í hverju landi er landsstjórn en alþjóðaráðið sér um samhæfingu samtakanna og ímynd þeirra út á við ásamt fleiru. Bjarki líkir þessu fyrirkomulagi við eins konar sambandsríki eins og þekkist til dæmis í Bandaríkjunum.

Í stuttu máli er markmið samtakanna að efla tengsl og byggja upp tilvonandi laganema og í því samhengi geta laganemar sótt um starfsnám í gegnum samtökin, sótt um skiptinám og svo standa samtökin að baki sérstökum málflutningskeppnum.

Bjarki segir að eins og er sé hann að einbeita sér að því að koma sér inn í starfið, en vonist í framhaldinu til þess að geta beitt sér til þess að byggja upp ákveðna landshópa innan samtakanna sem mega muna fífil sinn fegri. Hann mun þá einnig þurfa að sinna hefðbundnum störfum forseta alþjóðastjórnar, eins og samskiptum við samtarfsaðila, en nefna mætti margt í því samhengi.

Kjörið kallar á flutninga

Bjarki var kjörinn á þingi alþjóðarráðs ELSA, en í ráðinu sitja fulltrúar frá hverju meðlimalandi. Hann þurfti þannig að sitja fyrir svörum frammi fyrir ráðinu og gera grein fyrir framboði sínu.

Hann segir þetta tæknilega í annað sinn sem hann býður sig fram, en hann laut í lægra haldi í fyrri kosningunum til þessa árs, en mótframbjóðandi hans dró framboð sitt til baka.

Í kjölfarið þurfti Bjarki að bjóða sig fram í annað sinn og hlaut yfir 51% atkvæða alþjóðaráðsins og „gott betur“, segir hann.

Á næstunni mun Bjarki flytja til Brussel, þar sem höfuðstöðvar ELSA hafa skrifstofur, og gera út þaðan: „Það er fullt starf að vera í alþjóðastjórninni og fólk tekur sér undantekningarlaust frí frá námi og vinnu til að gegna embættinu,“ segir hann og hann sé nú að vinna í því að klára BA-prófið í lögfræði: „Ég er að vinna í því að ljúka við bakkalár, en það er með smá útúrdúrum eins og hjá flestum ELSA-tengdum,“ segir Bjarki en greinilegt er að hans bíður umfangsmikið verkefni.

Höf.: Geir Áslaugarson