Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Frumuræktað kjöt, skordýr og þörungar. Gera má ráð fyrir að þetta verði gjarnan hráefni í þeim mat sem fólk neytir þegar komið er fram á miðja 21. öldina, samkvæmt því sem Birgir Örn Smárason, fagstjóri hjá Matís, greindi frá á Matvælaþingi á dögunum. Hvað er í matinn árið 2050? – framtíð matvælaframleiðslu var yfirskrift erindis Birgis og segja má að titillinn fangi vel efnið; sviðsmynd af matarborði framtíðar. Hjá Matís hefur þetta verið teiknað upp með rannsóknum, nýsköpun og greiningu á matvælum framtíðar og framleiðslutækni.
Matvælaframleiðsla losar þriðjung gróðurhúsalofts
„Við rannsökum sjálfbærni og fæðuöryggi. Fylgjumst með fólksfjöldaþróun, breytingum í neyslumynstri og loks þróun og fjárfestingum í vissri tækni og rannsóknum,“ segir Birgir Örn og bætir við að í núverandi matvælakerfum og -neyslu séu vandamál sem hafi blasað við í nokkra áratugi.
„Svipað og með loftslagsbreytingar erum við nú að upplifa afleiðingar gjörða okkar,“ segir Birgir Örn. „Reyndar hafa matvælaframleiðsla og loftslagsbreytingar víxlverkandi áhrif að einhverju marki, því framleiðsla matvæla losar um þriðjung af gróðurhúsalofttegundum heimsins. Þá hafa breytingar á loftslagi mikil áhrif á matvælaframleiðslu um allan heim. Aðgengi að sjálfbært framleiddum hágæðamatvælum verður sífellt takmarkaðra vegna fólksfjölgunar, aukins álags á náttúruauðlindir og hlýnunar loftslags. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir prótíni og matvælum almennt á heimsvísu aldrei verið meiri.“
Talið er að á heimsvísu megi skrifa þriðjung af losun gróðurhúsalofttegunda á reikning matvælaframleiðslu. Þar vega þyngst metanlosun frá búpeningi, landnotkun og umbreyting lands, meðal annars eyðing skóga fyrir landbúnað sem leiðir til verulegrar losunar gróðurhúsalofttegunda. Tré sem taka til sín koltvísýring eru felld og kolefni sem þau geymdu losnar. Svipaða sögu má segja um jarðveginn. Síðan má nefna notkun á tilbúnum áburði, orkunotkun og úrgang.
Belgjurtir, fræ og heilkorn
„Við þurfum að draga verulega úr framleiðslu og neyslu á dýraafurðum. Á sama tíma þarf að auka framleiðslu og neyslu á matvælum úr plöntum eins og grænmeti, ávöxtum, belgjurtum, hnetum, fræjum og heilkorni,“ segir Birgir.
Mataræði sem byggist á plöntum krefst almennt minna vatns, lands og orku en mataræði sem inniheldur mikið af dýraafurðum og losar umtalsvert minna af gróðurhúsalofti. „Hátæknimatvælaframleiðsla mun gera okkur kleift að borða, til dæmis, kjöt sem er frumuræktað og hefur minni áhrif á umhverfið en hefðbundin framleiðsla. Þetta er eitt af nýprótínunum sem koma á næstu 10-20 árum.“
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, telur að jarðarbúar verði orðnir 9,7 milljarðar árið 2050. Því til samræmis gæti matvælaframleiðsla þurft að aukast um allt að 70% frá 2010.
Jarðarbúar verði sjálfbærir
„Aukin matvælaframleiðsla snýst ekki bara um að framleiða meiri mat heldur líka að breyta aðferðum; draga úr matarsóun, bæta dreifikerfi og tryggja jafnan aðgang allra að góðri næringu. Rannsóknir segja að slíkt sé hægt, en ómögulegt nema matarvenjur breytist, framleiðsluaðferðir séu bættar og dregið úr sóun,“ segir Birgir og áfram:
„Í þessu efni hefur svonefnd EAT-Lancet-skýrsla verið mjög mikilvægt leiðarstef. Hún átti meðal annars stóran þátt í uppfærslu embættis landlæknis fyrr á þessu ári um næringarráðleggingar þar sem í fyrsta sinn var tekið mið af umhverfisþáttum auk áhrifa á heilsu. Nokkrar rannsóknir hafa kannað og reynt að sýna fram á hvernig blanda af breytingum á mataræði, minnkun á matartapi og sóun og umbætur á landbúnaðarháttum gætu gert okkur kleift að fæða jarðarbúa á sjálfbæran hátt. Auk tæknibyltingar næstu ára, þar sem sjálfvirkni, þjarkar, gervigreind, flygildi og fleira sem tengt er við fjórðu iðnbyltinguna mun ráða ríkjum. Allt þetta leyfir manni að vera nokkuð bjartsýnn á framhald matvælaframleiðslu og neyslu í næstu framtíð.“
Ný matvælakerfi og gjöbreyttur landbúnaður
Hér að framan er að nokkru leyti lýst hvað helst verði í matinn um miðja öldina, árið 2050. Þangað til eru 27 ár en sé farið jafn langt aftur í tímann erum við komin til ársins 1996. Mataræði Íslendinga þá var talsvert öðruvísi en nú; áberandi þá var lambakjöt, fiskur, mjólkurvörur svo sem skyr, korn og meiri innmatur. Þetta er vissulega allt enn á borðum en í dag er úrvalið miklu meira og vörurnar gjarnan hollari og umhverfisvænni en var.
„Breytingin á matarmenningu á hálfri öld, milli aldamótanna 2000 og ársins 2050, verður nokkuð sláandi. Við munum sjá mun meiri áherslu á sjálfbærni, nýja prótíngjafa eins og frumuræktað kjöt, skordýraprótín, þörunga, mun meira jurtafæði og matvælakerfi sem byggist á hátækni sem mun til dæmis gjörbreyta landbúnaði eins og við þekkjum hann í dag. Einnig munum við í meira mæli horfa á sérsniðna næringu, sem árið 2050 mætti lýsa sem svo að við leggjum fingur á tæki og fáum fullkomnar upplýsingar um ástand og heilsufarstengda þætti,“ segir Birgir Örn og að síðustu:
Æskileg næring og umhverfisvæn
„Líklega verður sama tæki í framtíðinni og greinir heilsu okkar nokkurs konar matvælaprentari sem framleiðir þá mat fyrir okkur á staðnum samkvæmt þessum upplýsingum um okkur sjálf sem fyrir liggja. Tækið mun hafa hylki með mismunandi innihaldsefnum og prenta máltíð eins og við viljum hafa hana þann daginn hvað varðar bragð, áferð og útlit. Máltíðin er þá nákvæmlega það sem við þurfum með tilliti til æskilegrar næringar, engu er sóað við framleiðsluna og hún er verulega umhverfisvæn. Öll þessi þróun og framtíðarsýn varðandi matvæli endurspeglar breytt hugarfar hvað viðkemur sjálfbærni, tækniframförum og breytingum á félags- og heilsuvitund.“