Byggðastofnun hefur unnið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu sem ætluð er ríki og sveitarfélögum til leiðbeiningar við stefnumótun og framkvæmd á ríkjandi stefnu. Drögin voru unnin fyrir innviðaráðuneytið og hafa verið sett í samráðsgátt þar sem frestur er til 7

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Byggðastofnun hefur unnið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu sem ætluð er ríki og sveitarfélögum til leiðbeiningar við stefnumótun og framkvæmd á ríkjandi stefnu. Drögin voru unnin fyrir innviðaráðuneytið og hafa verið sett í samráðsgátt þar sem frestur er til 7. febrúar 2024 að skila umsögnum og ábendingum.

Í drögunum segir m.a. að opinber grunnþjónusta sé þjónusta opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, sem sé aðgengileg öllum íbúum landsins og nauðsynleg til að skapa fullnægjandi búsetuskilyrði um land allt.

„Opinber grunnþjónusta er forsenda þess að fólk geti stundað atvinnu, sótt menntun og frístundastarf og sinnt öðrum daglegum verkefnum og þörfum,“ segir m.a. í drögum ráðuneytisins en grunnþjónusta er skilgreind eftirfarandi:

1. Lögskyld þjónusta sem opinberum aðilum er skylt að veita.

2. Lögheimil þjónusta og þjónusta sem hefð hefur skapast um.

3. Valkvæð verkefni sem stjórnvöld ákveða að sinna.

4. Aðrir þjónustuþættir, sem tryggja jafnræði og jafnrétti íbúa.

Í samræmi við byggðaáætlun

Ráðuneytið vinnur málið samkvæmt stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 en þar er sett fram það markmið stjórnvalda að jafna aðgengi íbúa að þjónustu. Í þeirri áætlun er lögð áhersla á að opinber grunnþjónusta verði skilgreind í lögum og hvernig réttur íbúa til hennar verði tryggður, óháð búsetu.

Byggðastofnun setur fram hugmyndir að stigskiptingu á grunnþjónustu og meðfylgjandi mynd er byggð á upplýsingum Byggðastofnunar, sem tekur fram að hún sé byggð á írsku módeli. Hefur skiptingin verið staðfærð og löguð að íslenskum aðstæðum. Fer hún eftir því hve nálægt þjónustan er og miðað við stærð þéttbýlis, þ.e. hvort um sé að ræða þorp, bæ, landshlutakjarna eða borg. Eftir því sem þéttbýlið er stærra er þjónustustigið hærra. Stofnunin tekur fram að skýringarmyndin sé ekki tæmandi um þjónustuflokka og margar undantekningar séu á staðsetningu þjónustunnar.

Stofnanir taki mið af skilgreiningunni

„Það er áskorun að skilgreina opinbera grunnþjónustu og aðgengi og rétt íbúa að henni. Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur ríki á viðfangsefninu. Opinber grunnþjónusta á vegum ríkis og sveitarfélaga á að vera aðgengileg fyrir alla íbúa landsins. Til þess að byggð haldist á öllu landinu þá þarf nauðsynleg þjónusta að vera til staðar fyrir þá sem þar búa,“ segir á vef Byggðastofnunar um verkefnið. Skýra þurfti hvernig og með hvaða hætti aðgengi að þjónustunni eigi að vera. Telur Byggðastofnun verulega þörf á að skilgreina lágmarksþjónustustig opinberrar grunnþjónustu þar sem of kostnaðarsamt geti verið að veita þjónustuna.

„Þegar skilgreiningar liggja fyrir þurfa stofnanir sem veita opinbera grunnþjónustu að taka mið af þeim skilgreiningum við skipulag og veitingu þjónustu,“ segir stofnunin ennfremur. Við skipulag á grunnþjónustu er miðað við að takmarka þörf íbúa á ferðalögum til að sækja þjónustuna og hafa þannig jákvæð áhrif á öryggi og tækifæri íbúa til þátttöku í samfélaginu og lágmarka kostnað og neikvæð umhverfisáhrif.

Grunnþjónusta hins opinbera

Ekki sjálfgefin á nærsvæði

Stjórnvöldum ber samkvæmt stjórnarskrá að tryggja að íbúar landsins hafi jafnan rétt til opinberrar grunnþjónustu.

Í greinargerð með drögum innviðaráðuneytisins segir m.a. að mikilvægt sé að breytingar á skipulagi þjónustunnar taki mið af þeim sem verst standi þegar komi að aðgengi að þjónustunni. Einnig sé mikilvægt að nýta tækniframfarir og bætt netsamband til að auðvelda íbúum aðgang að þjónustu þar sem unnt er að koma því við og fjarþjónusta bæti nærþjónustu sem fyrir er. Síðan segir:

„Það er ekki markmið að íbúar eigi rétt á allri þjónustu á sínu nærsvæði, heldur er gert ráð fyrir að skipulag þjónustunnar taki mið af hvernig búseta dreifist um landið og því hversu brýn þjónustan er og hversu tíð hún þarf að vera.“

Höf.: Björn Jóhann Björnsson