Fyrirmynd að dómsdagsmyndinni á Hólum í Hjaltadal er í Torcello á Ítalíu.
Fyrirmynd að dómsdagsmyndinni á Hólum í Hjaltadal er í Torcello á Ítalíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öll samfélög búa yfir reglum og siðum um það hvernig beri að varðveita minningar um forfeður og eru þær nátengdar hugmyndum um velferð og velsæld.

Pétur Pétursson

Saga trúarbragða er á margbrotinn hátt samofin menningarsögu mannkyns. Af þessu má leiða að uppruni trúarbragða og uppruni menningar sé af sömu rótum. Hugmyndir um uppruna eru tengdar hugmyndum um eðli. Flest trúarbrögð búa yfir hugmyndum og sögum um uppruna sinn og um leið um uppruna alheims og mannlegs samfélags. Þessar hugmyndir taka á sig birtingarform goðsagna (mýtólógíur).

Ein kenning rekur trúarbrögð til þeirrar hugmyndar að hlutir og fyrirbrigði hafi yfir að ráða sál og vilja og nefnist þessi nálgun animismi. Menn gera ráð fyrir að steinn sem maður rekur sig á hafi vilja og ætlun að meiða. Þessar hugmyndir gera sjálfkrafa vart við sig hjá börnum á ákveðnu æviskeiði.

Þróunarfræðingar hugsa sér að menn hafi á ákveðnu þróunarskeiði mótað hugmyndir um sál og anda einstaklingsins sem gerir honum fært að athafna sig á skynsamlegan hátt gagnvart birtingarformum og kröftum náttúrunnar og mannlegs samfélags – svo sem hugmyndir um varanleika, endurtekningu, orsök og afleiðingu. Hér er kominn grunnurinn að því sem segja má að öll trúarbrögð búi yfir sem er handanheimur (transcendentalism).

Í framhaldi af þessu má hugsa sér að elstu form trúarbragða, sem einnig má tala um sem grunnlög trúarbragða sem greina má í öllum trúarbrögðum, séu forfeðratrú og sjamanismi.

Forfeðratrú byggist á því að gert er ráð fyrir að andi og sál forfeðra og hinna látnu lifi eftir dauða einstaklingsins og rotnun líkama hans. Forfeðurnir ríkja í handanheimi, sem oftast er talinn æðri og raunverulegri en það sem hægt er að upplifa hér og nú. Flókið kerfi fórna byggist á því að hafa áhrif á öfl handanheima til farsældar einstaklingum hópa og þjóða.

Öll samfélög búa yfir reglum og siðum um það hvernig beri að varðveita minningar um forfeður og eru þær nátengdar hugmyndum um velferð og velsæld einstaklinga, hópa og heilla þjóðfélaga.

Sjamanismi gengur út á það að ákveðinn einstaklingur innan hóps býr yfir hæfileikum til að komast í samband við krafta handanveruleikans og virkja þá til lækningar sjúkdóma og til að koma á heilnæmu jafnvægi innan hópsins. Ákveðið atferli og siðir einkenna sjamaninn, sem hefur skilgreinda stöðu og hlutverk innan hópsins.

Þar sem forsendur voru fyrir hendi hófst mikil samfélagsleg bylting með tilkomu akuryrkju og landbúnaðar fyrir u.þ.b. 10 þúsund árum. Þar sem framfarir voru í tækni og siglingum jókst framleiðsla og verslun, tungumál þróast, ritmál og listiðnaður. Þar sem menn réðu yfir vatnsveitum verða samfélög auðug og stjórnkerfið vel skipulagt og hér er einkum um að ræða Egyptaland og Mesópótamíu. Áður höfðu Fönikíumenn ráðið ríkjum við Miðjarðarhaf. Hér má einnig bæta Indlandi og Kína við. Samfara þessu koma fram ólíkar stéttir, t.d. prestastétt, og helgisiðir og trúarhugmyndir verða margbrotnar og samsettar. Þekkingarleit verður markviss og grunnur er lagður að vísindum á mörgum sviðum. Byggingarframkvæmdir náðu áður óþekktum hæðum og vekja enn í dag aðdáun og undrun sem verkfræðileg afrek. Á 5. öld blómstra bókmenntir við Miðjarðarhaf, á Indlandi og í Kína í nánum tengslum við skipulögð trúarbrögð.

Víða má sjá að trúartákn ólíkra trúarbragða bræðast saman. Í dómsdagsmyndinni á Hólum í Hjaltadal frá 12. öld má sjá mótíf úr egypsku dauðamyndinni frá öðru árþúsundi f. Kr. og Opinberunarbók Jóhannesar frá annarri öld e. Kr.

Höfundur er prófessor emeritus í kennimannlegri guðfræði.

Höf.: Pétur Pétursson