Við athöfn í Hóladómkirkju í Hjaltadal í Skagafirði var Eydís Ösp Eyþórsdóttir, sem starfar við Glerárkirkju, vígð djákni. Athöfnina hafði með höndum sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup en þetta var fyrsta djáknavígsla hans.
Vígsluvottar voru sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, sr. Magnús Gunnarsson, héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, sr. Helga Bragadóttir, prestur í Glerárkirkju, sr. Oddur Bjarni Þorkelsson, sóknarprestur í Dalvíkurprestakalli, sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og sr. Halla Rut Stefánsdóttir, sóknarprestur í Hofsós- og Hólaprestakalli, en hún þjónaði fyrir altari ásamt vígslubiskupi.
Í Glerárkirkju hafa helstu verkefni Eydísar verið og verða umsjón með barna- og æskulýðsstarfi, sunnudagaskóli, fjölskyldumessur, foreldramorgnar í samstarfi við Akureyrarkirkju og eftir atvikum annað sem sinna þarf.
Eydís Ösp Eyþórsdóttir fæddist árið 1986, uppalin á Svalbarðsströnd. Hún nam félagsráðgjöf við HÍ og bætti síðan við sig djáknafræðum. Lauk námi 2015 og flutti þá norður með sínu fólki og starfaði sem svæðisstjóri KFUM og KFUK á Akureyri 2017-2020. Hefur starfað við Glerárkirkju frá 2020. Eydís er gift Hjalta Steinþórssyni vélaverkfræðingi og eiga þau fjögur börn. sbs@mbl.is