Ingibjörg María fæddist í Reykjavík 6. maí 1951. Hún lést 7. nóvember 2023 á Spáni, eftir stutt veikindi.
Foreldrar hennar eru S. Erla Ólafsdóttir, f. 5. nóvember 1931 frá Reykjavík og Páll Þórarinsson, f. 5. apríl 1930 frá Reykjavík, d. 16. apríl 1994. Systkini Ingu eru Ólafur, Ásdís og Þórdís.
Inga giftist Stefáni Agnari Finnssyni frá Reykjavík, f. 10. ágúst 1950. Dætur þeirra eru Agnes, f. 1. ágúst 1970, Erla, f. 18. febrúar 1974, Íris, f. 2. nóvember 1978, og Kristín, f. 12. júní 1985.
Agnes er búsett í Vogum á Vatnsleysuströnd. Maki er Hafliði Jónsson. Börn þeirra eru Þorsteinn Már, f. 23 september 1993, Andrea Sif, f. 30. nóvember 1999, og Óskar Páll, f. 22. febrúar 2005. Sambýliskona Þorsteins er Tara Lynn og dóttir þeirra er Sædís, f. 28. desember 2022.
Erla er búsett í Reykjavík. Maki er Finnbjörn B. Ólafsson. Börn þeirra eru María Erla, f. 15. mars 1994, Inga Dís, f. 28. apríl 1998, og Þórey Lilja, f. 18. ágúst 2005.
Íris er búsett í Kína. Maki er Pietro Macheda. Sonur þeirra er Pietro Stefán, f. 15. apríl 2015.
Kristín er búsett í Svíþjóð. Maki er Sverrir Hrafn Steindórsson. Sonur þeirra er Benedikt Ísak, f. 31. maí 2011.
Inga ólst upp á Vesturgötu 48 á sjötta áratug síðustu aldar en flutti með foreldrum sínum í Njörvasund 24 þar sem hún bjó á unglingsárunum. Þegar hún hóf sambúð með Stefáni bjuggu þau fyrst á Víðimel 36 en fyrsta íbúðin sem þau eignuðust var í Espigerði 20. Frá 1978 bjuggu þau í Flúðaseli 42 og eftir það lengst af sinni sambúð á nokkrum stöðum í Seljahverfi.
Útför hennar fer fram í Langholtskirkju í dag, 28. nóvember 2023, klukkan 11.
Í dag fylgjum við mömmu síðustu sporin. Sporin eru ótrúlega þung fyrir okkur sem eftir henni ganga því hún fór allt of snemma. Ég vona að sporin séu léttari fyrir hana en þau hafa verið undanfarin ár, en mamma hafði verið mikið veik síðustu árin sín.
Þrátt fyrir veikindin og sársaukann sem þeim fylgdi, hægði mamma ekki á sér í verkefnum. Hún var alltaf með einhverja handiðn í gangi, hvort sem það var útsaumur eða prjónaverkefni. Um leið og við fengum að vita að ég ætti von á barni fór mamma af stað í að prjóna heimferðarsett á litla krílið – eitthvað sem ég er óendanlega þakklát fyrir í dag.
Mamma og pabbi kynntust ung í gaggó. Mamma gerði reglulega grín að því að pabbi hafi þó ekki gefið henni almennilegan gaum fyrr en hún litaði á sér hárið. En með þeim tókust ástir og þau voru saman frá því að mamma var 16 ára og pabbi 17 ára – okkur systrunum til happs.
Mamma bar titilinn með réttu. Hún og pabbi eignaðist fimm dætur en ein fæddist andvana sem var vitaskuld mikið áfall. Á þeim tíma var lítinn stuðning að fá fyrir foreldra sem misstu börnin sín á meðgöngu en mamma bar með sér sorgina af missinum alla ævi. Það er huggun harmi gegn að hún er nú sameinuð litlu stelpunni sinni sem hún fékk aldrei að kynnast.
Mamma lagði áherslu á samveru fjölskyldunnar og elskaði að bjóða heim, hvort sem það var í sunnudagsmat eða eitthvað stærra tilefni, eins og t.d. Eurovision-partí, afmæli eða jólaboð. Mamma var mikið jólabarn og desembermánuður var alltaf uppáhaldstíminn minn með henni. Við byrjuðum vertíðina á aðventukransinum og jólaseríum, svo tók við jólakökubaksturinn og laufabrauðsgerðin, að ógleymdu frægu piparkökuhúsunum okkar. Piparkökuhúsagerðin var yfirleitt þriggja daga maraþon, fyrsta kvöldið fór í að gera deigið og arkitektúr, annað kvöldið í sjálfan baksturinn og þriðja kvöldið í samsetningu og skreytingar. Skemmtilegasti parturinn var alltaf að sjá börnin í fjölskyldunni fá að brjóta húsið á þrettándanum – enda ekki oft sem börn fá tækifæri til að eyðileggja nokkuð svona fínt – sem var að auki stútfullt af sælgæti.
Mamma og pabbi hafa alltaf verið til staðar fyrir okkur stelpurnar, sama hvað bjátaði á. Þau hvöttu okkur áfram þegar lífið var erfitt og fögnuðu með okkur þegar vel gekk. Við höfum aldrei þurft að efast um að sama hvað okkur systurnar vantaði, þá voru mamma og pabbi til staðar fyrir okkur.
Elsku mamma, það er svo óréttlátt að þú fáir ekki tækifæri til að kynnast ófæddri dóttur okkar Sverris. Ég á erfitt með að sætta mig við heim þar sem ég get ekki rætt málin við þig, leitað ráða hjá þér eða huggunar á erfiðum tímum. En ég er óendanlega þakklát fyrir allt sem þú gafst mér og óteljandi samtölin sem við áttum. Ég elska þig mamma og ég sakna þín meira en ég get komið á blað.
Þín dóttir,
Kristín Stefánsdóttir.
Í dag kveð ég Ingu stóru systur.
Ég er yngst og hún elst af okkur systkinunum. En hún var miklu meira en systir, hún var besta vinkona mín. Þegar ég var ófrísk 16 ára gekk hún með Írisi. Við vorum mikið saman alla meðgönguna, saumuðum saman taubleyjur, náttgalla, sængurver og margt fleira. Ég hefði ekki komist í gegnum þetta án hennar.
Við fórum saman í ótal sumarbústaðaferðir með krakkana, tókum í spil hvenær sem tækifæri gafst og margt fleira skemmtilegt. Ein af eftirminnilegustu ferðunum okkar var þegar við fórum fjögur saman í ferð um Þýskaland. Við vorum í tvær vikur og skildum börnin eftir heima.
Inga systir var mikil hannyrðakona og eftir hana liggja mörg listaverk.
Henni var mjög annt um fjölskylduna og hún skipulagði einmitt óvissuferð til Spánar þegar Ásdís systir varð sextug og við fórum öll systkinin og makar ásamt mömmu.
Inga var ósérhlífin alla tíð og kvartaði aldrei þrátt fyrir gigtarverkina sem hrjáðu hana.
Takk fyrir allt sem þú gafst mér og hvíl í friði, elsku Inga.
Ég vil senda Stebba, dætrum og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Þórdís.
hinsta kveðja
Við óskum yndislegri tengdamóður og bestu ömmu í heimi góðrar ferðar. Pietro mun sakna þess mikið að nudda veika bakið hennar ömmu. Við sendum langömmu Erlu, Stefáni, Agnesi, Erlu, Írisi og Kristínu stórt knús.
Francesco
og Pietro Stefán.