Jólastemning Sigríður Ósk segir alltaf skemmtilegt að vera með jólatónleikana og komast í jólaskapið. Miðar á tónleikana eru til sölu á tix.is.
Jólastemning Sigríður Ósk segir alltaf skemmtilegt að vera með jólatónleikana og komast í jólaskapið. Miðar á tónleikana eru til sölu á tix.is. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Þetta eru ekta klassískir jólatónleikar með jólasálmum og klassískum söngvum, eins og yfirskriftin Sígild jól ber með sér,“ segir Sigríður Ósk Kristjánsdóttir óperusöngkona, en 10. desember næstkomandi kl. 20 eru jólatónleikar haldnir í Seltjarnarneskirkju. Sigríður fékk til liðs við sig nokkra félaga sína, frábært tónlistarfólk, sópransöngkonuna Hallveigu Rúnarsdóttur og Gissur Pál Gissurarson tenór, en sjálf er hún mezzósópran. Auk þeirra leikur Tómas Guðni Eggertsson á orgel og Ólöf Sigursveinsdóttir á selló.

Þetta er í fjórða skipti sem Sigríður Ósk stendur fyrir jólatónleikunum Sígildum jólum. „Tónleikarnir eru í kirkjunni og þetta er mjög hátíðlegt og það hefur alltaf verið þétt setinn bekkurinn á þessum jólatónleikum,“ segir hún.

„Kirkjan býður upp á návígi milli tónlistarflytjenda og tónleikagesta sem skarpar skemmtilega og persónulega stemningu,“ segir Sigríður og bætir við að þau kynni sjálf verkin og spjalli aðeins við áheyrendur.

Á dagskránni eru jólasöngvar og sálmar með boðskap jólanna. „Ég vonast til þess að jólaandinn svífi yfir eins og hann hefur gert síðustu ár. Það er gott að flytja dagskrána Sígild jól í kirkjunni því þar er einstaklega gott að syngja. Það er svo góður hljómburður og svo er það líka svo hátíðlegt, sem er vel við hæfi fyrir jólahátíðina,“ segir hún.

„Ánægður tónleikagestur sagði við mig um daginn að hún ætlaði að koma á tónleikana eins og í fyrra því það hefði verið svo hátíðlegt og nærandi fyrir sálina. Það var gaman að heyra það.“ Það er margt spennandi á boðstólum á tónleikunum.

„Við erum með ótrúlega fallega útsetningu af Heims um ból í dúett. Þetta er gömul útsetning sem Sigríður Ella Magnúsdóttir, vinkona mín og kennari, söng á sínum tíma. Svo er gaman að segja frá því að við frumflytjum íslenska þýðingu á laginu Walking in the air, Á himnabraut, sem er úr gömlu teiknimyndinni Snowman en núna er Snowman mjög vinsæll söngleikur úti í London. Þetta er ótrúlega fallegt jólalag, sem unnusti minn Gunnlaugur (Jónsson) er búinn að þýða. Síðan syng ég uppáhalds Ave Maríuna mína sem er eftir spænska tónskáldið William Gomez og svo er margt fleira fallegt og spennandi á dagskránni sem ég hlakka til að flytja með einstöku tónlistarfólki.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir