Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Þykktin á mörnum er rétt í meðallagi, sem gefur vísbendingar um að veturinn verði mildur,“ segir Stefán Skafti Steinólfsson vélvirki á Akranesi. Hann var á dögunum í heimahögum sínum í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu og aðstoðaði þar við sauðfjárslátrun. Þar á bæ er hefð fyrir því að lesa í garnir þess fjár sem er fellt og lesa vel í. Sé mikið um gor í smágirni og mörinn mikill er það ætlan fólks að fram undan séu harðindi og vetrarhörkur. Raunin var önnur nú.
Siður margra kynslóða
„Að lesa í mör og garnir er nokkuð sem tíðkast hefur í minni sveit í margar kynslóðir. Þetta er kúnst sem ég lærði af mínu fólki; ömmu, afa og foreldrum mínum, þeim Hrefnu Ólafsdóttur og Steinólfi Lárussyni. Pabbi fylgdist vel með táknum í dýralífi og náttúru og fékk þannig vísbendingar sem oft gengu upp. Ég held mig við hans fræði og heima í sveitinni minni eru innyflin úr fyrsta sláturlambinu greind sérstaklega vel,“ segir Stefán Skafti sem er löngum vestur á Skarðsströnd og fylgist vel með öllu þar.
Fyrir nokkru gekk Stefán Skafti um úthaga í Ytri-Fagradal og leit þar eftir músarholum. Þá hafði hann sérstaklega í huga að síðasti vetur var frostharður og stífur vindur af norðaustri oft ríkjandi. Einhvern forboða um slíkt virðast mýsnar hafa haft því opin á holum þeirra sneru jafnan til suðvesturs – eða undan þeirri vindátt sem ríkjandi varð.
Góð viðkoma í villtri náttúrunni
„Þegar ég athugaði holurnar nú þá sá ég að opin sneru í suðvestur, austur og norðvestur. Af þessu ræð ég að engin sérstök átt verði ráðandi á næstunni og því verði veturinn mildur. Þessu öllu vil ég að haldið sé vel á lofti: öll dýr merkurinnar búa sig hvert með sínu móti fyrir veturinn. Og svo kemur sumar; það síðasta var einstaklega gott vestur í Dölum og haustið milt. Fyrir vikið var viðkoman – það er frjósemin – úti í villtri náttúrunni góð, svo á Skarðsströnd hefur sjaldan verið meira um mýs en nú er raunin,“ segir Stefán Skafti.