Álftafjörður Landfyllingin er við Langeyri í Súðavík og gengur vinnan vel.
Álftafjörður Landfyllingin er við Langeyri í Súðavík og gengur vinnan vel. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is Vinna við landfyllingu við Langeyri í Súðavík er í fullum gangi en þar kemur Íslenska kalkþörungafélagið til með að byggja upp starfsemi.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Vinna við landfyllingu við Langeyri í Súðavík er í fullum gangi en þar kemur Íslenska kalkþörungafélagið til með að byggja upp starfsemi.

„Þessi 38 þúsund fermetra landfylling er undir okkar verksmiðju og efnistökusvæði ásamt bryggju. Þegar landfyllingin verður tilbúin munum við byggja þarna hús sem verður nokkur þúsund fermetrar og fyllum af græjum til að vinna kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi,“ segir Halldór Halldórsson forstjóri fyrirtækisins.

Vinna við landfyllinguna hófst fyrr á árinu með efni sem fékkst við dýpkunarframkvæmdir í Skutulsfirði en Súðavík er í næsta firði, Álftafirði. Þessa dagana er verið að setja efni yfir landfyllinguna sem fæst á Súðavíkurhlíðinni.

Nú er verið að setja möl ofan á sandinn sem var dælt upp í Skutulsfirði í sumar. Þegar framkvæmdum við landfyllinguna lýkur er beðið eftir jarðsigi í tvö ár eða svo að sögn Halldórs áður en hafist er handa við að byggja húsnæðið. Líklega fer starfsemin í gang 2027 eða 2028 í fyrsta lagi.

Framkvæmdirnar eru mun seinna á ferðinni en forráðamenn fyrirtækisins höfðu vonast eftir og Halldór er óhress með hversu lengi mál eins og leyfismál eru til meðferðar í stjórnsýslunni.

„Þetta hefur tekið miklu lengri tíma en nokkurn tíma var reiknað með. Þetta átti að vera tilbúið í Súðavík árið 2018 og hefði getað verið ef opinberar stofnanir hefðu farið eftir laganna bókstaf. Þegar pressan var farin að aukast á okkur þá fórum við í að stækka á Bíldudal enda þurftum við að sinna mörkuðunum,“ segir Halldór en ákveðið var að stækka verksmiðjuna á Bíldudal í Arnarfirði þegar tafir urðu á uppbyggingu í Súðavík.

„Frá 2007 hefur verið rekin verksmiðja á Bíldudal og hún er nærri hámarksafköstum. Við höfðum alltaf hugsað okkur að verksmiðja í Súðavík gæti komið inn sem viðbót, en það tók svo rosalega langan tíma fyrir opinberar stofnanir að afgreiða leyfismál, umhverfismat og slíkt. Við urðum því að fara í stækkun á Bíldudal eins og við gerðum. Hægði það á öllu varðandi uppbyggingu í Súðavík en vonandi getum við byrjað að byggja þar eftir tvö til þrjú ár. Eins og staðan er núna reiknum við með að vera með verksmiðjur á báðum stöðum. Við munum fara rólega af stað í Súðavík en auðvitað veltur þetta einnig á eftirspurninni,“ segir Halldór en mesta samkeppnin kemur frá Brasilíu.

Íslenska kalkþörungafélagið er með starfsleyfi í Arnarfirði til 1. desember árið 2033 en með leyfi í Ísafjarðardjúpi til 2051.

Raforkumál

Afhendingaröryggi lítið

„Rafmagnskerfið er óöruggt á Vestfjörðum. Sem dæmi má nefna að rafmagnslínan, sem tengir Súðavík við kerfið, liggur yfir fjall frá Ísafirði, upp í 500 metra hæð, á 60 ára gamalli tréstauralínu og þar verða bilanir reglulega. Við munum þurfa það mikið rafmagn þarna inn eftir, líklega 5 eða 6 MW, að við höfum óskað eftir því að lögð verði ný lína eða strengur eftir því hvað hentar dreifiveitunni best sem er Orkubú Vestfjarða. Málið er í vinnslu þar. Ef ekkert gerist í raforkumálunum þá gætum við neyðst til að flytja inn gas til að þurrka í Súðavík en það er skelfileg tilhugsun,“ segir Halldór Halldórsson.

Höf.: Kristján Jónsson