Halla Sigrún Sigurðardóttir fæddist 2. ágúst 1947. Hún lést 11. nóvember 2023. Útför hennar fór fram 24. nóvember 2023.

Mig langar að minnast hennar Höllu með fáeinum orðum.

Við vorum nágrannar um tíma og seinna átti ég eftir að vinna hjá þeim hjónum Höllu og Hafsteini, við fyrirtæki þeirra H.V. umboðs- og heildverslun ehf., en þá einmitt hófust ævintýrin.

Ég ætla að leyfa mér að segja að Hafsteinn sá um að reka fyrirtækið, en Halla sá um okkur starfsfólkið. Þau voru dugleg að bjóða starfsfólki ásamt mökum upp á hvers konar viðburði, öll tilefni notuð, afmæli fyrirtækisins, árshátíð, eða garðveislurnar á sumrin þar sem Sniglabandið hið eina og sanna spilaði eins og enginn væri morgundagurinn og alls lags samkvæmisleikir og skemmtun borin á borð.

Í einni garðveislunni ákvað Halla að láta gestina spreyta sig á að tjá sig í söng með því að nota tákn með tali, sem vakti mikla kátínu. Halla vann nefnilega með börnum sem nutu góðs af þessari kunnáttu hennar, börnin kallaði hún ætíð blómin sín, og er setið var á rökstólum í einhverri veislunni og hiti færðist í samtalið kom stundum frá Höllu eins og: nei blómið mitt, þannig var það ekki! eða þvíumlíkt, og þá var hlegið dátt. Já við vorum öll meira og minna blómin hennar og hún fylgdist vel með fjölskylduhag okkar.

Stundum vorum við boðin heim í mat, t.d. á undan einhverri skemmtuninni/ballinu, þar sem Halla hafði á sinn einstaka hátt laðað fram dýrindis rétti og ætíð mátti eiga von á einhverju óvæntu og skemmtilegu, nafnspjaldi við diskinn með rúnum, málshætti eða vísubroti sem vantaði botn, nú eða vísnagátu sem þurfti að leysa og þ.h. Jafnvel lítill pakki við disk viðkomandi, og er mér sérstaklega minnisstæð gjöf til mín á 15 ára afmæli fyrirtækisins í apríl 1998, en þar kom úr umbúðum dásamleg ljóðabók sem ég gríp til enn í dag. Halla lagði mikinn metnað í heimboðin sem annað sem þau hjón buðu okkur upp á, allt var vel undirbúið og skipulagt.

Verð nú einnig að nefna tilraunir þeirra hjóna til sumarleyfa innanlands, sem gengu ekki alltaf sem skyldi vegna símaónæðis og enduðu á því að Halla bauð bónda sínum til útlanda til að tryggja fríið og fékk starfsfólk þá skýr fyrirmæli um hvernig haga skyldi málum á meðan forstjórinn væri frá, og alltaf komu þau færandi hendi er þau komu heim.

Já, hún Halla var einstök manneskja, góðlynd og umhyggjusöm og hennar verður sárt saknað af mörgum.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Elsku Hafsteinn, Dagbjört, Bjarni og Hafsteinn Henrý, missir ykkar er mikill.

Megi allar góðar vættir styrkja ykkur og styðja í sorginni.

F.h. samstarfsfólks H.V. umboðs- og heildverslunar,

Kristín Álfheiður
Arnórsdóttir.

Við hittumst í Breiðagerðisskóla og urðum góðar vinkonur og hefur sú vinátta enst til dagsins í dag þótt oft væri langt á milli funda en nú kveðjum við Höllu með miklum söknuði. Árin í Réttó voru sérstaklega minnisverð, þá vorum við orðnar unglingar og ný áhugamál tekin við. Við áttum allar mörg yngri systkini sem þurfti stöku sinnum að passa og þá mættu allar og hjálpuðu til. Þetta voru góð ár. Við höfum átt því láni að fagna að halda hópinn, stundum leið langur tími á milli en við hittumst í heimahúsum í mörg ár og síðustu árin höfum við farið út að borða í hádeginu þegar Halla átti leið til Reykjavíkur. Það urðu alltaf miklir fagnaðarfundir.

Halla átti heima í Akurgerði á æskuárum og þar hitti hún Hafstein sem síðar varð maðurinn hennar. Þau hafa gengið götuna síðan. Þau fluttu til Ísafjarðar fyrir áratugum og áttu þar góðar stundir. Halla tók virkan þátt í leiklistarlífinu þar og naut þess vel. Þau áttu fallegt heimili og þar var gott að koma í heimsókn þegar leiðin lá til Ísafjarðar. Halla og Hafsteinn voru mjög dugleg að ferðast til Evrópu í styttri og lengri ferðir og var gaman að heyra Höllu segja ferðasögur en hún var mjög hress og skemmtileg kona.

Ein af okkar bestu sameiginlegum minningum er þegar við fórum fimm saman í bíl til Ísafjarðar að heimsækja Höllu fyrir nokkrum árum. Við leigðum hús þar og dvöldum í nokkra daga í góðu yfirlæti. Halla og Hafsteinn tóku afar vel á móti okkur, elduðu góðan mat og Hafsteinn ók okkur um nærsveitir. Þau voru frábærir gestgjafar. Það er gott að eiga slíkar minningar til að ylja sér við þegar fólk hverfur á braut.

Að leiðarlokum þökkum við fyrir góða samfylgd og sendum Hafsteini og öðrum í fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Auður, Erna, Linda,
María og Sigurborg.

Þegar Halla og Hafsteinn fluttu á Hlíðarveginn þá gáfu þau öllum púkunum í hverfinu Conga. Þetta er mín fyrsta minning um þessi gæðahjón. Þau höfðu kynnst foreldrum mínum þegar þau fluttu fyrst í bæinn en eftir að við urðum nágrannar myndaðist mikill vinskapur á milli þeirra og foreldra minna sem hefur haldist síðan og verið fastur liður í tilverunni. Ég fékk t.d. fyrstu vinnuna við að passa hundinn þeirra, hana Snoppu, sem ég fór með út að ganga sumarið sem ég var níu ára. Síðasta hlutverk okkar systra á aðfangadag var að fara yfir með pakkana í sparifötunum og þar fengum við konfekt og mandarínur, þar var allt í rólegheitunum. Þessa hefð tóku síðan synir mínir upp. Við hjónin æfðum okkur að búa saman sem ungt fólk, Halla og Hafsteinn fóru í ferðalag og við fengum hús og bíl undir þeim formerkjum að við værum að passa köttinn. Árin sem ég bjó í Keflavík voru þau jafn fastur liður að heimsækja þegar ég kom vestur eins og amma og afi. Þegar við hjónin fluttum á Ísafjörð keyptum við húsnæði á Hlíðarveginum svo við vorum aftur orðin nágrannar og þá voru Halla og Hafsteinn eins og auka amma og afi fyrir okkar stráka. Þau eru ófá partíin sem við áttum saman eins og áramóta-, páska- og sumargrillpartí. Einn af föstu liðunum í upphafi aðventu var til dæmis strákapartí, þá var jólamatur og jólabingó þar sem bækur voru í verðlaun. Halla kallaði það að gera þá æsta fyrir jólunum og það virkaði í hvert skipti.

Þegar Halla veiktist dró hún sig í hlé og vildi helst ekki fá mikið af gestum, ég var svo heppin að vera í þeim hópi sem mátti kíkja við. Hún var oft ekki í skapi til að ræða stöðuna á sér og þá var oft viðkvæðið: „Hvað er að frétta af ykkur?“ Eins erfitt og það var að fylgja henni síðustu mánuðina þá var það líka gefandi. Eftir situr minningin um dásamlega konu sem reyndist mér og mínum alltaf einstaklega vel og ég verð alltaf þakklát fyrir að hafa kynnst.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Hafsteins, Dagbjartar, Bjarna og Hafsteins Henrys, minningin lifir.

Guðbjörg Halla Magnadóttir, Kristín Álfheiður
Arnórsdóttir.

Í kærri minningu um og með hjartans þökk til Höllu Sigurðardóttur.

Ég naut þeirra forréttinda að búa með Höllu, Hafsteini eiginmanni hennar og Dagbjörtu dóttur þeirra í eitt ár sem skiptinemi á Ísafirði 1982-83. Hún var mín „íslenska mamma“ og leiðbeindi mér í gegnum árið í menntaskólanum, fyrsta launaða starfið mitt (í frystihúsinu Norðurtanga), kynnti mig fyrir fjölskyldu og vinum, íslenskum siðum, menningu, mat og náttúru landsins. Halla var mögnuð fósturmamma, alltaf tilbúin að hjálpa, áhugasöm um það sem ég var að gera, hjálpaði mér í gegnum tungumálaerfiðleika og hugsaði stöðugt um hvað krakki frá suðurhluta Kaliforníu gæti þurft til að dafna á Ísafirði á sérstaklega snjóþungum, köldum og löngum vetri, fyrir tíma farsíma og nets. Það ár var lífsreynsla, á stað sem var svo ólíkur heimili mínu í Kaliforníu. Það hafði mikil áhrif á framtíð mína, hjálpaði mér að kunna að meta aðra menningu og tungumál (sem og alvöruvetur) og kom mér á leið í þann farveg að vinna og búa í öðrum löndum. En það sem gerði árið sérstaklega merkilegt var persónulegi þátturinn, Halla lagði sig fram um að láta mér líða eins og ég væri einn af fjölskyldunni. Þessi tengsl hafa varað og auðgað líf mitt – þar á meðal árlegar jólagjafir undirritaðar „frá mömmu og pabba“ – síðustu 40 ár. Ég mun sakna sárt en minnast Höllu fósturmömmu minnar með hlýhug.

Christopher Finch,
búsettur í Maryland
í Bandaríkjunum,
tímabundið búsettur
í Vín í Austurríki.