Fráveita Óhreinsað skólp rann í sjóinn í febrúar 2018 er neyðarlúga var opnuð vegna mikillar úrkomu í Reykjavík.
Fráveita Óhreinsað skólp rann í sjóinn í febrúar 2018 er neyðarlúga var opnuð vegna mikillar úrkomu í Reykjavík. — Mynd/Veitur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arinbjörn Rögnvaldsson arir@mbl.is

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Í stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar, sem birt var í lok síðasta árs, um fráveitumál fyrir árið 2020 kemur fram að engin skólphreinsun fer fram hjá 14% sveitarfélaga með 2.000 íbúa eða fleiri, sem þýðir óhreinsað skólp rennur beint til sjávar. Þá kemur fram að 88% sveitarfélaga með 2.000 íbúa eða fleiri, með samtals 326.000 íbúafjölda, grófhreinsa skólp og að mati stofununarinnar uppfyllir slík grófhreinsun hjá meirihluta sveitarfélaga ekki skilyrði laga um fyrsta þreps hreinsun. Um 1% sveitarfélaga hreinsaði skólp í fyrsta þrepi og 2% sveitarfélaga hreinsa skólp í tveimur þrepum.

Skólp er það sem sturtað er niður klósettin, vatn úr baði og sturtum, þvottavélum og hitaveituvatn. Skólpinu er dælt í gegnum lagnir til hreinsistöðva sem hreinsa skólpið í einu eða tveimur þrepum. Að mati Umhverfisstofnunar grófhreinsa langflest sveitarfélög skólp, sem er afar lítil hreinsun á lífrænum efnum. Hins vegar í fyrsta þreps hreinsun er skólpið grófhreinsað af lífrænum efnum, þrep tvö er ítarlegri hreinsun, þar sem súrefni er blandað við skólpið svo það flýti fyrir náttúrulegu niðurbroti. Algengast er að skólpinu sé dælt til sjávar, en það fer eftir landfræðilegri legu viðkomandi sveitarfélags.

Eitt af 28 uppfyllir skilyrði laga

Í skriflegu svari Umhverfisstofnunar til ViðskiptaMoggans um hvort sveitarfélög uppfylla gerðar kröfur í fráveitumálum kemur fram að af 28 þéttbýlum með 2.000 íbúa eða fleiri mun aðeins eitt þeirra uppfylla kröfur um hreinsun. Óhreinsað fráveituvatn geti haft neikvæð áhrif á vatn og þar af leiðandi sé mikilvægt að tryggja hreinsun á fráveituvatni fyrir menn, umhverfi og dýr. Enn fremur segir í svari stofnunarinnar að reglurnar sem nú gilda séu frá árinu 1999 og „meginkrafa skólphreinsunar á Íslandi hefur verið tveggja þrepa síðan reglurnar tóku gildi“.

Segir sofandahátt ríkja

Guðjón Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Dystia sem sérhæfir sig í frárennslislausnum, telur að frárennslismál sveitarfélaga séu í lamasessi og að margar skýrslur sem gerðar hafa verið um þessi efni sýni fram á það.

„Hugsunin sem hefur verið í gangi hjá Íslendingum er að við erum fámenn þjóð á eyju sem sjórinn umlykur. Staðreyndin er sú að við getum ekki verið eftirbátar annarra þjóða varðandi þessi mál,“ segir Guðjón Ingi.

Staðan sé mjög slæm

„Ég tel að staða fráveitumála á Íslandi sé mjög slæm og allavega 30 árum á eftir því sem gengur og gerist í Evrópu. Það er bara þannig. Það helgast fyrst og fremst af því að Íslendingar eiga svo mikið vatn og almennt kristallar það viðhorf okkar til auðlinda landsins,“ segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims sem er samstarfsverkefni orkufyrirtækja og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Guðjón telur að Íslendingar fari ekki eftir alþjóðlegum reglum og stöðlum í skólphreinsunarmálum og það muni koma að því að það sem hann kallar sofandahátt komi í bakið á okkur, þar sem stór hluti skólpsins sé ekki hreinsaður. Að mati Guðjóns er þetta spurning um ímynd landsins í augum annarra þjóða sem standa sig í hreinsun á skólpi og þeirra fjölmörgu ferðamanna sem heimsækja landið.

„Ein manneskja er ein manneskja og það sem hún losar frá sér er óháð því hvar hún er í heiminum. Við erum á Íslandi og þetta er spurning um ímynd, þar sem þjóðin hefur lífsviðurværi sitt af hafinu með því að veiða fisk auk þess sem ferðamenn dragast að hafinu, höfnum og fjörunum. Ef við erum ekki að hreinsa skólpið vel sem kemur frá iðnaði og sveitarfélögum, þá er það heldur ekki gott upp á orðsporið. Við þurfum að hugsa betur um hafið heldur en við raunverulega gerum, þar sem við eigum svona mikið undir,“ segir Guðjón Ingi.

Reglurnar munu herðast

Ottó telur að Íslendingar hafi ekki lært að umgangast auðlindir landsins aðrar en fiskinn. Frárennslismál varði alla íbúa landsins og margir veigra sér við að ræða þessi mál, þar sem flestir sjá fyrir sér tuga milljarða fjárfestingar í þessum málaflokki út um allar grundir. Að hans mati er þó nauðsynlegt að fara í fráveitufjárfestingar til þess að framfylgja lögum.

Hann telur þó að ekki verði farið í fráveituframkvæmdir í landinu nema ríkið komi að málum með sveitarfélögunum. Breytingar sem hafa verið boðaðar á regluverkinu innan Evrópu, sem Íslandi ber að taka upp í gegnum EES-samninginn, feli í sér hertari reglur. Þannig verði til að mynda gerð krafa um að öll sveitarfélög verði með að lágmarki tveggja þrepa hreinsun.

„Ef ekkert verður að gert verður gapið innan 10 ára miklu stærra, sem krefst miklu meiri fjárfestingar,“ segir Ottó.

Fráveitumál á Íslandi

88% sveitarfélaga hreinsa ekki skólp samkvæmt reglum.

Skólp hjá 14% sveitarfélaga fer alveg óhreinsað til sjávar.

Óhreinsað skólp getur valdið skaða á lífríkinu.

Ísland er 30 árum á eftir öðrum þjóðum í fráveitumálum landsins.

Orðspor og ímynd landsins í húfi ef ekkert er gert í fráveitumálum.

Gildandi hreinsunarreglur kalla á milljarða fjárfestinga og fjárfestingarþörfin eykst til muna á næstu tíu árum.