Fjölskyldan Frá vinstri: Hjörleifur, Aðalsteinn, Bryndís, Víkingur og Helena í nágrenni Palm Springs í Kaliforníu 22. desember 2011.
Fjölskyldan Frá vinstri: Hjörleifur, Aðalsteinn, Bryndís, Víkingur og Helena í nágrenni Palm Springs í Kaliforníu 22. desember 2011.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjörleifur Pálsson fæddist 28. nóvember 1963 í Smáratúni 20 á Selfossi. „Föðuramma mín hreinsaði vitin og hjálpaði með fyrstu andartökin.“ Þegar Hjörleifur var eins árs gamall fluttist fjölskyldan frá Selfossi til Þorlákshafnar þar sem hann ólst upp til fimmtán ára aldurs

Hjörleifur Pálsson fæddist 28. nóvember 1963 í Smáratúni 20 á Selfossi. „Föðuramma mín hreinsaði vitin og hjálpaði með fyrstu andartökin.“

Þegar Hjörleifur var eins árs gamall fluttist fjölskyldan frá Selfossi til Þorlákshafnar þar sem hann ólst upp til fimmtán ára aldurs. „Það sem einkenndi Þorlákshöfn á æskuárunum var að þar var engin fortíð, bara framtíð. Mikil og hröð uppbygging, en bara upp úr klöpp og kolsvörtum sandi. Þar var frystihús, litlar útgerðir, kaupfélag, vélsmiðja sem pabbi minn og félagar hans ráku, trésmiðja, góður barnaskóli og svo auðvitað Franklínsjoppan.“

Fyrsta starfið var hjá Meitlinum, í skólaleyfum og þar var líka fyrsta sumarstarfið. „Það átti ekki vel við mig að vinna í fiski, mér fannst það erfitt og leið ekkert sérlega vel.“ Næst lá leiðin að Ásum í Gnúpverjahreppi þar sem Hjörleifur var í vinnumennsku sumrin 1979 til 1982. „Það var fjölbreytt og skemmtilegt. Að hirða þurrhey var í uppáhaldi og bara öll vélavinna.“

Hjörleifur er stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni. „Laugarvatn var sérheimur á þessum árum. Það var kennsla sex daga vikunnar og síðan helgarfrí aðra hverja helgi. Það voru rúmlega hundrað og sextíu nemendur við skólann og þrjátíu og sex í mínum árgangi. Eftir að hafa alist upp í litlu plássi, unnið á sveitabæ á sumrin og átt heima á heimavist á veturna fannst mér algjör frelsun að koma til Reykjavíkur árið 1983 og fara að læra viðskiptafræði við Háskóla Íslands.“

Fyrsta heimilið var að Miðvangi 41 í Hafnarfirði. „Ég var í bekk með Helenu Hilmarsdóttur á Laugarvatni. Við kynntumst þar en fórum ekki að vera saman fyrr en eftir útskrift þaðan.“ Helena er úr Vestmannaeyjum. Þau útskrifuðust líka saman úr viðskiptafræði árið 1988. „Ég hafði miklar áhyggjur af því eftir fyrsta árið í viðskiptafræðinni að hafa aldrei unnið á skrifstofu, fannst ég fáránlega seinn til þess og lá á.“

Hjörleifur fékk sumarið 1984 vinnu á endurskoðunarskrifstofu Sigurðar Guðmundssonar og vann þar með náminu. Hann varð löggiltur endurskoðandi árið 1989 og starfaði við það fag til ársins 2001. Hann var einn stofnenda Stoðar – endurskoðunar hf. árið 1989 og tók síðar virkan þátt í að sameina nokkrar endurskoðunarstofur undir merkjum Deloitte á árunum 1998 til 2001.

Árið 2001 bauðst Hjörleifi að koma til Össurar hf. sem fjármálastjóri. Þá tók við virkilega annasamur og skemmtilegur tími. „Ég var hjá Össuri í tólf ár frá 2001 til 2013 og það var lengst af frábært.“ Fyrirtækið óx gríðarlega hratt og yfir á ný svið. Hjörleifur tók virkan þátt í þeirri uppbyggingu og bar á þessum tíma ábyrgð á fyrirtækjakaupum og fjárfestatengslum, meðal annars. „Össur hefur veitt gríðarlega mörgu fólki einstakt tækifæri til að læra og þroskast í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Fyrirtækinu gekk það vel að það fengu allir sem vildu nægar áskoranir. Ég er mjög þakklátur fyrir tímann hjá Össuri, við uxum hratt en misstum aldrei niður neina bolta þótt það gengi mikið á.

Lífið og sjálfsmyndin á þessum árum var „fjármálastjóri Össurar“ og eftir tólf ár var tími til kominn að breyta til. Síðan þá hef ég lifað frekar óhefðbundnu lífi. Fyrst og fremst verið til, en með skemmtileg verkefni. Áður var það öfugt, ég vann mikið og lifði fyrir vinnuna. Ég hef verið blessaður að fá tækifæri til að prófa mjög margt þegar kemur að fyrirtækjarekstri, fyrst með því að kynnast alls konar fólki, fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum sem endurskoðandi, síðan sem framkvæmdastjóri fjármála í alþjóðlegri starfsemi og nú síðastliðin tíu ár sem stjórnarmaður í alls konar fyrirtækjum.“

Hjörleifur situr núna í stjórn Lotus Pharmaceutical Ltd & Co., sem er stórt alþjóðlegt lyfjafyrirtæki og skráð á hlutabréfamarkað í Taívan. Hann situr í stjórn Festi hf. sem á og rekur Krónuna, N1, Elko og fleiri fyrirtæki. Hann situr í stjórnum Ankra ehf. (Feel Iceland), Brunns Ventures slhf., Brandr Global ehf. og víðar. Hann varð fyrsti stjórnarformaður Háskólans í Reykjavík þegar nýju stjórnskipulagi var komið á árið 2014 og var þar í stjórn frá 2010 til 2022. Hjörleifur var í nokkur ár í stjórn Samtaka atvinnulífsins og um skeið í framkvæmdastjórn samtakanna.

„Það má kannski segja að það sé ákveðinn samnefnari í því sem ég hef verið að gera síðustu rúmlega tuttugu ár, en það er að græða peninga fyrir lífeyrissjóði almennings, fyrst í Össuri, meðfram því í Framtakssjóði Íslands, í fjárfestingarsjóðum eins og Brunni og nú síðast í Festi hf., sem er yfir 70% í eigu lífeyrissjóða.“

Spurður um áhugamál nefnir Hjörleifur golf. „Það hefur reyndar ekki gengið átakalaust, ég elska það núna á mínu sjötta ári í sportinu en fyrstu fimm árin voru verulega erfið, brostnar frammistöðuvonir og óhamingja bara. Ferðalög um Ísland, sérstaklega hálendið og torfærar leiðir, eru eitt það besta sem ég veit. Ég tók líka skurk í fjallgöngum og naut þess mjög. Gekk með Fjallafélaginu hans Haraldar Arnar í stórgóðum félagsskap í sjö ár, svo er ég með meðfædda bíladellu og get vottað af eigin reynslu að það er enginn bíll dýrari en ódýr Land Rover.“

Fjölskylda

Eiginkona Hjörleifs er Helena Hilmarsdóttir, f. 3.2. 1963, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi. Hún er framkvæmdastjóri fjármála hjá Verði tryggingum hf. „Við erum búin að búa síðustu 20 ár í Suðurhlíðum Reykjavíkur, draumastað í miðri borg þar sem er veðursæld og örstutt í einstaka náttúru Fossvogs og Öskjuhlíðar.“

Móðir Helenu er Edda Aðalsteinsdóttir, f. 25.11. 1939, fv. bókari hjá Útvegsbankanum í Vestmannaeyjum (síðar Íslandsbanka) og Íslandsbanka í Reykjavík. Faðir Helenu var Hilmar Gunnarsson, f. 5.3. 1935, d. 29.1. 2023, loftskeytamaður, símvirki og rafeindavirki.

Börn Hjörleifs og Helenu eru 1) Aðalsteinn, f. 16.3. 1991, sérnámslæknir í svæfingum hjá Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg; 2) Bryndís, f. 22.5. 1993, viðskiptafræðingur og starfar í fjármáladeild alþjóðlega verkfræðifyrirtækisins Arcadis. Hún er búsett í Rotterdam með Nicholai Zee, sálfræðingi og rannsóknarlögreglumanni; 3) Víkingur, f. 21.6. 2002, stundar nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.

Systkini Hjörleifs eru Árný Inga Pálsdóttir, f. 27.6. 1956, skólastjóri hjá Grunnskólum Reykjavíkur, maður hennar er Ingólfur Björn Sigurðsson, f. 26.11. 1950. leikari og dansari, þau búa í Reykjavík, og Jón Pálsson, f. 3.2. 1960, búsettur í Kaupmannahöfn.

Móðir Hjörleifs er Bergný Hjörleifsdóttir, f. 8.1.1935, fv. starfsmaður í eldhúsi Landspítala, búsett í Kópavogi. Faðir Hjörleifs var Páll Einar Jónsson, f. 16.1. 1936, d. 9.6. 2023, framkvæmdastjóri og járnsmiður í Þorlákshöfn, síðar búsettur í Reykjavík, Portúgal og á Selfossi.