Jónína Pálsdóttir fæddist 26. maí 1977 á Akureyri. Hún lést 7. nóvember 2023 á Háskólasjúkrahúsinu í Torrevieja á Spáni eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein.

Jónína var yngra barn hjónanna Páls Sigurðarsonar, f. 25.6. 1948, og Guðrúnar Bergsdóttur, f. 8.2. 1949, d. 23.9. 2014. Eldri bróðir Jónínu er Páll, f. 14.1. 1968, búsettur í Reykjavík, kvæntur Lindu Hrönn Helgadóttur, f. 28.8. 1970. Saman eiga þau tvö börn.

Jónína var gift Sigurði Pétri Hjaltasyni, f. 15.6. 1077, frá Eskifirði. Þau giftu sig 2021 eftir 28 ára sambúð. Saman eignuðust þau tvö börn; Mörtu Þyrí, f. 3.12. 2007, og Elvar Leví, f. 21.2. 2010.

Jónína og Sigurður voru mestalla sína tíð búsett á Akureyri, réttum megin Glerár, utan við eitt ár sem þau bjuggu á Eskifirði þar sem Jónína starfaði við umönnun á Dvalarheimili aldraðra. Árið 2020 ákváðu þau að fylgja eftir langþráðum draumi og ævintýraþránni um að skoða heiminn og fluttust til Spánar þá um sumarið.

Jónína gekk í Barnaskóla Akureyrar og svo Gagnfræðaskóla Akureyrar. Að grunnskólagöngu lokinni fór hún í Menntaskólann á Akureyri þar sem hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut og hélt svo áfram í Háskólann á Akureyri eftir árs pásu frá námi og lærði þar hjúkrunarfræði. Hún útskrifaðist 2003 og starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, lengst af á barnadeild, þar til hún hætti vegna veikinda 2013.

Á yngri árum átti íþrótta- og félagslíf allan hug Jónínu, hún lærði á fiðlu og var í fótbolta og handbolta og var í hópi vaskra kvenna og stelpna sem stofnuðu meistaraflokk ÍBA í handbolta kvenna, sem enn lifir í dag, nú undir merkjum KA/Þórs. Í seinni tíð varð móðurhlutverkið hennar aðalstarf.

Útför Jónínu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 29. nóvember 2023, klukkan 13.

Það er skrítið að setjast niður og minnast Jónínu.

Skrítið vegna þess að það er langt frá því að við fjölskyldan séum búin að meðtaka þær fréttir að hún sé látin og tækifærin til að eiga gott spjall um daginn og veginn, rifja upp gamlar stundir, hlæja innilega og heyra hvað er næst á döfinni hjá krökkunum, eða hvernig miðar í nýja húsinu, verði ekki fleiri.

Það er fullkomlega óraunverulegt að vera komin með mynd af henni á arinhilluna við hliðina á hinum úr fjölskyldunni sem eru ekki lengur með okkur.

Einhvern veginn reiknuðum við það út þannig að hún myndi með sinni alkunnu vandvirkni og ákveðni skrá niður nákvæman lista um hvernig skyldi vinna á þessu meini, fylgja svo planinu eftir þétt og örugglega eins og öðru sem hún tók að sér og klára þetta mál með stæl.

Jónína lét sér nefnilega ekki allt fyrir brjósti brenna. Hún gerði allt hundrað prósent sem hún tók að sér, hafði mjög skýra sýn og ákveðnar skoðanir og var skipulögð fram í fingurgóma. Fáir stóðu henni t.d. á sporði í flutningum, þar sem hún númeraði hvern einasta kassa og hélt hárnákvæmt bókhald yfir hvar hver hlutur var niðurkominn.

Hún var tilbúin að leggja hvað sem var á sig fyrir sitt fólk og var óhrædd við að segja sína meiningu ef henni fannst við ekki vera að hugsa nægilega vel um okkur. Við göntuðumst stundum með það að ef eitthvert okkar yrði veikt væri enginn betri en Jónína til að leiða okkur aftur til heilsu. Hún hafði nefnilega lag á að vera ákveðin en um leið hvetjandi.

Ef eitthvað var um að vera í fjölskyldunni, eins og ferming, afmæli eða annað álíka, var heldur ekki slæmt að hafa hana með sér í liði. Hún var hjálpsamari en fólk er flest og tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir sitt fólk.

Strákarnir okkar minnast þess líka með mikilli hlýju hvað hún og Siggi sinntu þeim vel þegar þeir voru litlir, sýndu þeim endalausa væntumþykju og áhuga, nenntu að leika og leyfa þeim að vera með í ýmsu skemmtilegu.

Þótt samverustundirnar hafi ekki verið margar undanfarið er missirinn sár, skarðið sem eftir stendur stórt og við erum brotin.

Það kemur á daginn að lífið er ekki reikningsdæmi og það hver deyr og hver lifir snýst sjaldnast um sanngirni eða skynsemi.

Við sem trúum að þeir sem yfirgefa þessa jarðvist hittist aftur sjáum Jónínu fyrir okkur komna eitthvað á rúntinn með mömmu sinni og kannski einhverjum fleirum úr fjölskyldunni. Kannski verður stoppað í sjoppu og keypt pylsa og kók í gleri – hver veit?

Elsku Siggi, Marta og Elvar, engin orð eru nógu sterk til að hugga eða sýna samhug. Þið eruð okkur efst í huga og hjarta.

Kær kveðja,

Linda og
Bergur (Beggi).