Skemmdir Þegar hafa 10-20 hús verið metin óíbúðarhæf í Grindavík.
Skemmdir Þegar hafa 10-20 hús verið metin óíbúðarhæf í Grindavík. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Samkvæmt mati burðarþolssérfræðinga sem nú eru að störfum í Grindavík fyrir hönd Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) eru 10-20 hús þegar metin óíbúðarhæf. Eingöngu er um að ræða hús sem eru við stærsta sprungusvæðið sem liggur í gegn um bæinn

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Samkvæmt mati burðarþolssérfræðinga sem nú eru að störfum í Grindavík fyrir hönd Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) eru 10-20 hús þegar metin óíbúðarhæf.

Eingöngu er um að ræða hús sem eru við stærsta sprungusvæðið sem liggur í gegn um bæinn. Í heild eiga verkfræðingar á vegum Náttúrutryggingar eftir skoða 7-8 sprungusvæði áður en frumskoðun lýkur.

Tjón miðað við brunabótamat

„Það er ekki komin endanleg tala (á óíbúðarhæf hús) en það eru matsmenn að störfum í dag (í gær) og verða á morgun (í dag). Eftir morgundaginn verðum við með betri mynd af því hvað þetta eru mörg hús í heild,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Að sögn hennar eru húsin metin óíbúðarhæf þegar verulegar skemmdir hafa orðið á burðarvirki þeirra. Samkvæmt reglum NTÍ er brunabótamat forsenda tjónabóta. Því kann að vera einhver munur á markaðsvirði annars vegar og brunabótamati hins vegar. Í þessu samhengi má þó benda á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun uppfærði nýlega fasteignamat í takt við markaðsvirði fasteigna og er brunabótamat því mun nær markaðsvirði en fyrir ári.

„Víkurhóp og Víkurbraut eru þær götur sem flest (óíbúðarhæf) hús standa við,“ segir Hulda. Að sögn hennar eru mörg dæmi þess að ónýt hús standi við hlið húsa sem staðið hafa jarðhræringarnar af sér. Þá segir Hulda að verkfræðingarnir leggi áherslu á að skoða fyrst þau hús sem orðið hafa fyrir hvað mestum skemmdum.

Höf.: Viðar Guðjónsson