Seinna verður þessi rannsókn rannsökuð

Tilkoma öndunarfærasjúkdóms, sem nú leggst á börn í norðurhluta Kína, þykir vera dularfull og minna óþægilega mjög á upphaf „covid“-faraldursins sem brast á árið 2020.

Sjúkrahús á svæðinu sem í hlut á eru yfirfull af veiku ungu fólki, en yfirvöld þar leggja ofuráherslu á að hér sé engin hætta á ferðum, enda sé alls ekki um nýja veiru að ræða í þessu tilviki. Þótt pestin hafi í upphafi þótt minna helst á milda lungnabólgu er nú sagt að þarna sé inflúensuvírus á ferðinni.

Þetta segir efnislega í ritstjórnargrein breska blaðsins Daily Telegraph í gær. Þannig vill til að sama daginn var breski ráðherrann Michael Gove, sem lengi hefur setið í bresku ríkisstjórninni, í yfirheyrslu þinglegrar rannsóknarnefndar um faraldurinn og viðbrögð breskra stjórnvalda við honum. Þar vakti sérstaka athygli það svar Gove að það kæmi mjög til greina og fjarri því að þeirri tilgátu mætti hafna að covid-veiran hefði verið manngert fyrirbæri.

Í ritstjórnargreininni segir að stóri vandinn í þeim efnum hafi verið sá, að upplýsingagjöf kínverskra yfirvalda hafi frá upphafi verið víðs fjarri því að vera gagnsæ, greinargóð og skýr. Þvert á móti hafa þau beinlínis lagt stein í götu slíkra rannsókna.

Þess vegna sé ekki enn vitað af neinu öryggi hvaðan covid-veiran kom. Frá upphafi hafi verið fullyrt án nokkurrar sönnunar að veirunnar hafi fyrst orðið vart á svonefndum votmörkuðum, útimörkuðum með matvöru, meðal annars kjöt og fisk, bæði lifandi og slátrað. Tilgátu um að veiran hafi fyrir slysni „lekið“ út frá rannsóknarstofunni í Wuhan hafi verið hafnað með látum sem „samsæriskenningar“ eins og jafnan er svo handhægt og hefur reyndar sífellt stærri hópur vísindamanna sagst halla sér að því að svo hafi verið.

En á móti komi að ekki verði því haldið fram að beinharðar sannanir hafi fengist, þótt líkindin hafi aukist. Það hafi svo sannarlega ekki hjálpað, svo mildilega sé sagt, að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hafi ekki fyrir nokkurn mun viljað beita Kína minnsta þrýstingi um að gera hreint fyrir sínum dyrum.

WHO hefur nú í þeirri uppákomu, sem fyrr var nefnd, hvatt yfirvöld í Kína að taka upp skyldu um félagslega fjarlægð og grímuskyldu á meðan ríkið afli ljósari upplýsinga um hvers kyns pest er þar á ferð. En mun nokkur maður treysta kíverskum yfirvöldum, eftir fyrri afrek, spyr leiðarahöfundurinn að vonum.

Því má ekki gleyma að það var kínverski læknirinn Li Wenliang sem fyrstur áttaði sig á að um skæða covid-veiru væri að ræða í Wuhan, en var snarlega þaggaður niður af stjórnvöldum og settur undir eftirlit og rannsókn lögreglu allt þar til hann féll sjálfur fyrir veirunni.

Nú er því á hinn bóginn haldið fram að útbreiðslu þessarar nýju pestar megi ekki síst rekja til minnkandi varna ónæmiskerfis einstaklinga gegn henni vegna langrar og margendurtekinnar innilokunar af ýmsu tagi.

Sú staðreynd að þetta fár, sem nú hefur breiðst út, leggst ekki síst á börn, öfugt við covid-pestina, veldur miklum og auknum áhyggjum.

Með hliðsjón af því sem gerðist síðast og fyrir svo skömmu hlýtur sú krafa að vera gerð til Alþjóðaheibrigðisstofnunarinnar að vera sérstaklega vakandi fyrir því að þessi nýja pest breiði ekki úr sér út fyrir Kína.

Höfum við lært eitthvað á faraldrinum frá 2020? Væri ekki rétt að flugferðir til og frá Kína verði takmarkaðar?

Breski leiðarahöfundurinn lýkur sínum pistli með þessum óvenjulega, en skiljanlega hætti:

„Það stendur yfir rannsókn í [Bretlandi] og markmið hennar er að tryggja að við verðum betur fær um að mæta næstu pest þegar hún kemur. En samt er ekkert um það spurt hvaðan þessi veira kom, eða reynt að finna bjargræði gegn henni önnur en innilokun af ýmsu tagi.

Það verður ekki betur séð en að eini tilgangur þessarar rannsóknar sé að leita sannana um að forysta Boris Johnsons hafi brugðist í málinu.

Þegar niðurstaða þessarar rannsóknar verður loks kynnt eftir nokkur ár er hugsanlegt að við verðum þegar komin í gegnum annan faraldur.“