Ólafur Már Sigurðsson fæddist 29. nóvember 1953 í Vestmannaeyjum og ólst þar upp til 18 ára aldurs. Hann gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla og hóf nám í iðnskóla. „Ég var í sveit á sumrin 12 ára til 15 ára í Austaralandi í Öxarfirði og á Grjóteyri í Kjós. Svo tók við sumarvinna í Eyjum, bæði við að leggja vatnsveitu og að vinna í fiski.
Það voru forréttindi að alast upp sem barn og unglingur í Eyjum þar sem lífið var leikir og fótbolti fram á unglingsárin, en þá tók tónlistin að mestu yfir. Með tilkomu Bítlanna og því sem á eftir fylgdi varð ekki aftur snúið. Ég var í unglingahljómsveitum í Eyjum frá 14 til 18 ára og tókum við þátt í hljómsveitakeppninni í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1969 með hljómsveitinni Töktum.
Ég fór til Seyðisfjarðar þar sem mér bauðst vinna í netagerð þar sem ég hafði stefnt á að fara í framhaldsnám haustið eftir. Dvölin á Seyðisfirði var nokkuð lengri en upphaflega stóð til því árin þar urðu 14. Ég starfaði og lærði netagerð 1971-1974 ásamt því að ljúka iðnskólanámi á Seyðisfirði. Ég hóf verslunarrekstur vorið 1974 þegar við keyptum verslunina Brattahlíð sem var kjöt- og nýlenduvöruverslun. Ég starfaði og rak þá verslun næstu 12 árin eða til 1985 þegar ég seldi verslunina og flutti til Reykjavíkur. Þetta voru mjög þroskandi og mótandi ár fyrir ungan mann að vera í samkeppni við kaupfélagið og standa það af sér og gott betur.“
Ólafur var virkur í félagsmálum á Seyðisfirði. Hann lék knattspyrnu með Hugin frá 1972-1985 og var formaður knattspyrnudeildar lengst af þeim tíma auk þess að taka þátt í starfsemi ÚÍA. Hann var einn af stofnendum Kaupmannafélags Austfjarða, formaður Sjálfstæðisfélagsins Skjaldar og sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar 1982-1985 sem formaður hafnarnefndar. Hann var fréttaritari Morgunblaðsins á Seyðisfirði 1981-1985.
„Tónlistin átti einnig hug minn og hjarta en flest árin mín á Seyðisfirði var ég í hljómsveitum en lengst af í hljómsveitinni Einsdæmi sem var ein aðalballhljómsveit Austurlands á þessum árum. Hin hliðin á Einsdæmi var Þokkabót en þeir okkar sem voru við nám í Reykjavík héldu spilamennskunni og plötuútgáfunni áfram þar syðra sem Þokkabót.“
Ólafur hóf störf hjá Bræðrunum Ormsson sem verslunarstjóri sama ár og hann flutti til Reykjavíkur og starfaði þar sem slíkur í tvö ár. Hann var síðan markaðs- og sölustjóri hjá Málningarverksmiðjunni Hörpu, síðar Flügger, og starfaði þar næstu 12 árin. Hann kom svo til baka til Ormsson vorið 1999 og hefur starfað þar síðan sem deildarstjóri bæði heimilis- og innréttingadeildar. „Ég sé nú aðallega um samskipti við stórnotendur eða BTB-hluta starfsemi Ormsson.
Á næsta ári eru liðin 50 ár frá því að ég hóf störf við verslun og þjónustu og styttist í að það verði 40 ár síðan ég fyrst hóf störf fyrir Ormsson en það verður um mitt ár 2025. Samhliða starfi í gegnum tíðina hef ég sótt mér viðhaldsmenntun í endurmenntunardeild Háskóla Íslands.“
Ólafur hefur tekið virkan þátt í starfsemi Knattspyrnufélagsins Vals og sat í stjórn knattspyrnudeildar í 13 ár og leiddi starfsemi unglingaráðs síðustu þrjú árin sem hann átti sæti í stjórninni. Hann situr nú í minjanefnd Vals og hefur verið þar frá upphafi eða frá árinu 2010. Ólafur er einn af stofnfélögum Valskórsins árið 1992 og söng með kórnum í ein 13 ár.
„Íþróttir og músík eru þau áhugamál sem ég hef hvað mestar mætur á. Ég nýt þeirra forréttinda að hafa getað fylgst með börnum og barnabörnum í íþróttum og leik og starfi. Strákarnir mínir báðir eru enn að, annar þeirra í handboltanum og hinn hefur sinn starfa við knattspyrnuna. Ég er eitilharður stuðningsmaður Southampton í ensku knattspyrnunni og vona að það birti til að nýju á þeim bæ og liðið verði á meðal þeirra bestu strax á næsta ári. Einnig hef ég gaman af að ferðast og stunda útivist og heilbrigðan lífsstíl.
Þá hef ég alltaf haldið miklu og nánu sambandi við æskustöðvarnar og fólkið þar. Eftir ár mín á Seyðisfirði, en þangað liggja ræturnar í föðurlegg, höfum við haldið þeim sið, hópur brottfluttra Seyðfirðinga, að hittast einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og borða saman plokkfisk á veitingastaðnum Þremur Frökkum. Þennan hóp okkar köllum við „Plokkara“ og höfum haldið þennan sið í 34 ár.“
Fjölskylda
Maki I: María Vigdís Ólafsdóttir, f. 23.11. 1955, fyrrverandi bankastarfsmaður. Foreldrar hennar voru Elísabet Hlín Axelsdóttir, f. 1924, d. 2008, og Ólafur Marel Ólafsson f. 1925, d. 2009. Ólafur og María skildu. Börn þeirra: 1) Ólafur Marel Ólafsson, f. 27.10. 1972, d. 5.3. 1979; 2) Hildur Ólafsdóttir, f. 13.8. 1975, gift Einari Páli Kjærnested, f. 20.9. 1972, framkvæmdastjóra og eiga þau tvö börn, Viktor Marel og Styrmi Örn; 3) Stella Hrönn Ólafsdóttir, f. 15.5. 1981, viðskiptafræðingur og viðskiptastjóri í sambúð með Gunnari Gunnarssyni, f. 23.7. 1980, viðskiptafræðingi og eiga þau tvö börn, Emblu Maren og Brynjar Erni.
Maki ll: Sigrún Kristín Ægisdóttir, f. 31.8. 1961, hárgreiðslumeistari. Foreldrar hennar eru Ægir Ólason, f. 1938 og Jónína Þóra Einarsdóttir, f. 1941. Ólafur og Sigrún skildu. Börn þeirra eru 1) Bjarki Már Ólafsson, f. 26.9. 1994, umboðsmaður knattspyrnumanna, búsettur í Belgíu, giftur Estefaníu Betancur, f. 30.11. 1994, lögfræðingi og athafnakonu; 2) Ólafur Ægir Ólafsson, f. 28.10. 1995, handboltamaður og rekstrarstjóri í sambúð með Ragnhildi Eiri Stefánsdóttur, f. 31.12. 1995, sem er sálfræðimenntuð. Sonur þeirra er Ólafur Marel, f. 14.12. 2022 og fóstursonur Ólafs Ægis, sonur Ragnhildar Eirar, er Emil Óli, f. 27.3. 2018. Stjúpbörn Ólafs Más, börn Sigrúnar Kristínar, eru Jónína Þóra Einarsdóttir, f. 3.2. 1989, verkfræðingur og Þór Sigurðsson, f. 18.4. 1978, íþróttafræðingur.
Systkin Ólafs eru Þórunn, f. 22.1. 1938, hjúkrunarfræðingur, búsett í Garðabæ; Magnús Helgi, f. 29.6. 1947, bifvélavirki og verktaki, búsettur á Seyðisfirði, og Ásdís, f. 27.1. 1950, skrifstofumaður, búsett í Borgarnesi.
Foreldrar Ólafs Más voru hjónin Sigurður Magnússon, f. 13.4. 1909, d. 24.11. 2004, verkstjóri, kennari og fræðimaður, og Guðrún Jóhanna Magnúsdóttir, f. 1.3. 1917, d. 16.10. 2002, húsmóðir og verkakona.
Leiðrétting
Í myndatexta er ekki rétt nafnaröð. Eftirfarandi röð er rétt: Ólafur Ægir, Hildur, Bjarki Már og Stella Hrönn.