Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, hefur rætt við forráðamenn sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping um að taka við þjálfun liðsins.
Þetta staðfesti hann í samtali við Morgunblaðið.
Arnar, sem er fimmtugur, ræddi við forráðamenn sænska félagsins í síðustu viku en hann hefur stýrt Víkingum frá árinu 2018.
Hann hefur tvívegis gert liðið að Íslandsmeisturum og fjórum sinnum að bikarmeisturum frá því hann tók við stjórnartaumunum í Fossvoginum en hann var áður aðstoðarþjálfari liðsins frá 2017 til ársins 2018. Hann hefur tvívegis gert Víkinga að tvöföldum meisturum, á nýliðnu keppnistímabili og tímabilið 2021.
Í samtali við Morgunblaðið segist Arnar hins vegar ekki hafa heyrt neitt frá forráðamönnum sænska félagsins síðan hann átti fjarfund með þeim í síðustu viku.
Norrköping er í leit að framtíðarþjálfara eftir að Dananum Glenn Riddersholm var sagt upp störfum eftir að tímabilinu lauk í Svíþjóð fyrr í þessum mánuði en liðið hafnaði í níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
Andri Lucas Guðjohnsen, Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson eru allir samningsbundnir sænska félaginu sem hefur þrettán sinnum orðið Svíþjóðarmeistari, síðast árið 2015, en Arnór Ingvi Traustason var þá í lykilhlutverki hjá félaginu. Þá hefur félagið sex sinnum orðið sænskur bikarmeistari.