Atkvæðamikil Katarzyna Trzeciak reynir skot yfir Heiðu Hlín Björnsdóttur í Garðabænum í gær en Trzeciak skoraði 19 stig og tók sex fráköst í gær.
Atkvæðamikil Katarzyna Trzeciak reynir skot yfir Heiðu Hlín Björnsdóttur í Garðabænum í gær en Trzeciak skoraði 19 stig og tók sex fráköst í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kolbrún María Ármannsdóttir átti stórleik fyrir Stjörnuna þegar liðið hafði betur gegn Þór frá Akureyri í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Garðabæ í gær. Leiknum lauk með naumum sigri Stjörnunnar, 94:88, en Kolbrún María skoraði 24 …

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Kolbrún María Ármannsdóttir átti stórleik fyrir Stjörnuna þegar liðið hafði betur gegn Þór frá Akureyri í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Garðabæ í gær.

Leiknum lauk með naumum sigri Stjörnunnar, 94:88, en Kolbrún María skoraði 24 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en Þórsarar leiddu með einu stigi í hálfleik, 38:37.

Garðbæingar voru sterkari í þriðja leikhluta og leiddu með fjórum stigum, 66:62, að þriðja leikhluta loknum.

Þórsarar leiddu 77:75 þegar fimm mínútur voru til leiksloka en Garðbæingar voru sterkari á lokamínútunum og fögnuðu sigri í leikslok.

Katarzyna Trzeciak skoraði 19 stig, tók sex fráköst og gaf eina stoðsendingu í liði Stjörnunnar en Lore Devos var stigahæst hjá Þórsurum með 34 stig, 19 fráköst og sex stoðsendingar.

 Ásta Júlía Grímsdóttir átti stórleik fyrir Íslandsmeistara Vals þegar liðið hafði betur gegn Breiðabliki, 64:43, á Hlíðarenda. Ásta Júlía skoraði 18 stig, tók 12 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum en Valskonur höfðu tapað tveimur leikjum í röð í deildinni fyrir leik gærdagsins.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Valskonur leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 25:23.

Valskonur skoruðu 25 stig gegn tveimur stigum Breiðabliks í þriðja leikhluta og var leikurinn svo gott sem búinn að honum loknum.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 11 stig fyrir Val, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar en Sóllilja Bjarnadóttir var stigahæst hjá Breiðabliki með 10 stig, fjögur fráköst og eina stoðsendingu.

 Tinna Guðrún Alexandersdóttir var stigahæst hjá Haukum þegar liðið vann nauman sigur gegn nýliðum Snæfells, 78:72, í Stykkishólmi en Tinna Guðrún skoraði 20 stig, tók níu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum.

Snæfell var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með 13 stigum í hálfleik, 45:32.

Haukar mættu af krafti út í síðari hálfleikinn og voru búnir að minnka forskot Snæfells í eitt stig að þriðja leikhluta loknum, 60:59.

Haukar komust svo yfir, 63:62, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.

Sólrún Gísladóttir skoraði 19 stig fyrir Hauka, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu en Shawnta Shaw var stigahæst hjá Snæfelli með 25 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar.

 Danielle Rodriguez var atkvæðamikil fyrir Grindavík þegar liðið hafði betur gegn Fjölni, 81:76, í Dalhúsum í Grafarvogi en Rodriguez skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum.

Grindavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með fimm stigum í hálfleik, 48:43.

Grindvíkingar voru áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik en Fjölni tókst að minnka forskot Grindavíkur í eitt stig þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, 73:72. Lengra komst Fjölnir hins vegar ekki og Grindavík fagnaði sigri.

Eve Braslis skoraði 21 stig fyrir Grindavík, tók sex fráköst og gaf tvær stoðsendingar en Raquel Laneiro var stigahæst hjá Fjölni með 23 stig, níu fráköst og átta stoðsendingar.

Höf.: Bjarni Helgason