Í Stafangri
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætti í gær til Stafangurs í Noregi, þar sem liðið leikur í D-riðli á lokamóti HM. Er mótið fyrsta lokamót íslenska liðsins frá því á Evrópumótinu árið 2012 og fyrsta heimsmeistaramótið frá því í Brasilíu 2011.
Íslenska liðið lék á alþjóðlega Posten Cup-mótinu í Lillehammer og Hamri í Noregi í síðustu viku í undirbúningi fyrir HM. Lék Ísland þar við Pólland, Noreg og Angóla. Þrátt fyrir þrjú töp var Eyjakonan Díana Dögg Magnúsdóttir ánægð með ýmislegt úr því verkefni, þar sem íslenska liðið átti sína spretti.
Skrekkurinn farinn úr liðinu
„Þessir leikir gáfu okkur ansi margt. Þessi fyrsti skrekkur er farinn úr liðinu. Auðvitað er margt sem við getum bætt, sem við ætlum okkur að gera,“ sagði Díana í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska liðsins í Stafangri í gær. Ísland er með Frakklandi, Slóveníu og Angóla í D-riðli á HM og því stutt í annan og mun mikilvægari leik gegn Afríkuþjóðinni.
„Það var gott að mæta Angóla, sem er öðruvísi lið, og finna taktinn hjá þeim. Það mun gagnast okkur í framhaldinu,“ sagði Díana. Angóla vann 27:24-sigur í Lillehammer en Íslenska liðið hefði hæglega getað náð í betri úrslit í þeim leik, þar sem munurinn á liðunum var lítill. Ættu möguleikarnir því að vera fínir fyrir leik liðanna á HM, sem gæti verið úrslitaleikur um sæti í milliriðli.
„Mér fannst við geta gert margt miklu betur í vörn og sókn. Við gerum það í næsta leik á móti þeim og við ætlum að gera þetta vel,“ sagði Díana.
Allir í góðum gír
Sunna Jónsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir eru einu leikmenn íslenska hópsins sem hafa áður farið á stórmót. Díana sagði íslenska liðið hafa nýtt leikina þrjá á Posten Cup til að ná úr sér skrekknum fyrir stærsta sviðið.
„Tilfinningin í maganum er góð og það eru allir spenntir. Þessi sviðsskrekkur fór úr okkur eftir leikinn á móti Póllandi. Við töpuðum boltanum of oft og áttum ekki okkar besta dag, en vonandi er það búið núna. Við ættum að vera klárar í fyrsta leik á HM. Það er góður andi í hópnum og allir í góðum gír,“ útskýrði skyttan.
Fyrsti leikur Íslands er gegn Slóveníu á morgun. Díana er spennt fyrir leiknum, gegn sterku slóvensku liði. Í því leikur m.a. Ema Hrvatin, sem er liðsfélagi Eyjakonunnar í þýska liðinu Sachsen Zwickau. Þá er hin gríðarlega sterka Ana Gros í aðalhlutverki í hægri skyttunni, en hún leikur með ungverska stórliðinu Györ. Þrátt fyrir að andstæðingurinn sé mjög sterkur er Díana brött fyrir fyrsta leik.
Ein besta skytta í heimi
„Þær eru með mjög gott landslið og það verður gaman að mæta liðsfélaga mínum. Þær eru svo með mjög sterkan miðjumann og eina sterkustu hægri skyttu í heimi. Við eigum samt fullt af möguleikum á móti þeim og getum unnið þær með okkar besta leik,“ sagði hún.
Elín Klara Magnúsdóttir, Haukakonan unga og bráðefnilega, meiddist rétt fyrir heimsmeistaramótið og verður því ekki með. Einhverjir óttuðust það versta, þar með talinn ofanritaður, þegar Díana fékk högg á öxlina gegn Angóla síðastliðinn sunnudag og fór þjáð af velli. Díana og sá sem skrifar þessi orð gátu andað léttar þegar hún var mætt aftur á völlinn nokkru síðar í sama leik.
Ótrúlegt en satt verkjalaus
„Í augnablikinu leið mér alls ekki vel. Ég fann til og var pirruð og alls ekki sátt. Ég náði samt að halda öxlinni í góðri hreyfingu og það mynduðust engar bólgur. Ég er frekar góð í dag og ekki verri en fyrir leikinn,“ sagði Díana um atvikið.
Hún sagði það ekki koma til greina að missa af heimsmeistaramótinu, jafnvel ef meiðslin væru þess eðlis. „Það gæti verið þrjóskan í mér sem leyfði aldrei þeim hugsunum að komast upp á yfirborðið. Ég hefði örugglega spilað sama hvað og talið sjálfri mér trú um að ég væri góð. Staðan á mér núna er rosalega góð og ótrúlegt en satt er ég verkjalaus,“ sagði Eyjakonan kát og ákveðin að endingu.