Ólafur Ágúst Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 11. júní 1944. Hann andaðist á heimili sínu 11. nóvember 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Ólafsson stórkaupmaður, f. 1916, d. 1962, og Aagot Magnúsdóttir, f. 1919, d. 1983. Systur hans eru Rósa, f. 1939, d. 1971, maki Kristján Jónasson, f. 1937, d. 2011, og Ágústa Áróra, f. 1949, maki Aðalsteinn Helgason f. 1949.

Hinn 25. nóvember 1967 kvæntist Ólafur Ágúst eftirlifandi konu sinni Margréti Guðmundsdóttur, f. 1945. Foreldrar hennar voru Guðmundur Kristjánsson skipamiðlari og Gróa Ólafsdóttir. Dóttir Ólafs og Margrétar er Ágústa, f. 1967, maki Jón Magnússon flugstjóri, f. 1962, börn þeirra Ólafur Arnar, f. 2002, og Margrét Karitas, f. 2006. Börn Jóns af fyrra hjónabandi: Magnús, f. 1986, Ásgeir, f. 1987, og Sólveig, f. 1990.

Ólafur Ágúst ólst upp á Sólvallagötu 8, Melhaga 16 og Melabraut 4. Hann gekk í Melaskólann og í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, síðan lá leiðin til Noregs á lýðháskóla í Drammen. Eftir heimkomuna tók við flugnám og útskrifaðist hann sem atvinnuflugmaður og siglingafræðingur 1966. Nokkrum árum síðar hélt hann til Bandaríkjanna til flugvirkjanáms hjá Spartan School of Aeronautics í Tulsa Oklahoma. Hann hóf störf hjá Flugfélagi Íslands, síðan Flugleiðum, 1970 og starfaði nánast óslitið, lengst af sem flugvirki, til starfsloka 2011.

Ólafur Ágúst var áhugamaður um íþróttir, var í KR, lék knattspyrnu í yngri flokkum ásamt iðkun frjálsra íþrótta. Hann stundaði hestamennsku á unglingsárunum og sjóskíðaíþróttina iðkaði hann nokkur sumur. Hægt er að segja að golfið hafi hann fengið með móðurmjólkinni, en afi hans, Ólafur Gíslason, var á sínum tíma formaður GR og forseti GSÍ. Í fjölskyldunni var golfíþróttin allsráðandi. Ólafur Ágúst iðkaði golf meira eða minna í tæp 70 ár. Hann var formaður golfklúbbs Flugleiða í um áratug og formaður golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði í þrjú ár. Veiðiskapur var eitt af fjölmörgum áhugamálum hans, einkum silungsveiði. Hann var um árabil formaður stangveiðiklúbbs Flugleiða og trillubátaútgerð fékkst hann við á tímabili. Í tuttugu ár stóð hann fyrir golfmóti fyrrverandi vinnufélaga hjá Flugleiðum sem þeir kölluðu Gullaldarmótið.

Ólafur Ágúst var félagi í Frímúrarareglunni og sinnti þar trúnaðarstörfum og um tíma tók hann þátt í starfi Kiwanis. Ólafur Ágúst og labradortíkin hans Embla störfuðu í nokkur ár hjá Rauða krossinum sem heimsóknarvinir á dvalarheimilum aldraðra á höfuðborgarsvæðinu og fóru einnig í Rjóðrið.

Fjölskyldan reisti sér sumarhús, Ártinda, í landi Ár á Skarðsströnd.

Útför hans fer fram í Fossvogskirkju í dag, 29. nóvember 2023, klukkan 13.

Elsku bróðir.

Nú ertu farinn og það er sárt.

Takk fyrir að vera minn besti vinur í gleði og sorg.

Ég mun ætíð sakna þín.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

( Hákon Aðalsteinsson)

Þín systir,

Ágústa.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(úr Hávamálum)

Það var sem þruma úr heiðskíru lofti þegar ég fékk þá harmafrétt að Óli frændi minn væri látinn. Hryggur leitar hugur minn til æskuáranna, þar sem líf okkar tvinnaðist saman og hann hefur síðan verið mér sem bróðir, besti vinur í gegnum súrt og sætt.

Ég minnist unglingsáranna þegar við unnum saman sem hestasveinar við Kjarrá, sváfum í tjaldi og böðuðum okkur í ánni. Bílar komust í þá daga ekki upp á fjall og urðu veiðimenn að notast við hesta til að komast um ána. Það fór vel á með okkur frændum á fjallinu og veiðiáhuginn fylgdi okkur alla tíð eftir það. Óteljandi dásamlegar ferðir höfum við síðan átt á fjöllum, yfirleitt var jú veiðistöngin með en líklega höfum við kannað flestar heiðar og fjallvegi á landinu á þessum ferðum okkar. Oftar en ekki var Óli upphafsmaður og skipuleggjandi og okkar elskulegu eiginkonur með í för. Eftir sitja minningarnar og þakklæti fyrir samfylgdina.

Renna myndir

um munar tjald.

Minningar hópast að.

Góður vinur

er gulli betri.

Gott er að skilja það.

Varstu hér, frændi,

fulltrúi mannlífs

er færist óðum í hvarf.

Einurð og kjarkur

aldrei þér brugðust

né alúð við sérhvert starf.

Eftir þér sé ég

með söknuði.

Sviði um huga fer.

Andi minn greinir

ófyllt skarð

eftir á foldu hér.

(Úlfur Ragnarsson)

Blessuð sé minning frænda míns.

Gísli.

„Óli frændi er dáinn.“ Óli frændi, nei, það gat ekki verið! Hann sem hafði keypt nýjan bíl deginum áður og ekkert benti til annars en að hann væri alls ekkert á förum. Svona er lífið hverfult. Óli, móðurbróðir minn, var besti frændi sem hægt var að hugsa sér, hann var sannur ættarhöfðingi – límið sem hélt fjölskyldunni saman. Hann var sá sem skipulagði og hratt í framkvæmd ættarmótum í gegnum tíðina, enda var hann ættræknasti maður sem ég hef kynnst. Án þeirra samverustunda hefði ég ekki kynnst mörgum frændum og frænkum, sem ég hefði ekki viljað missa af, og verð ég honum ævinlega þakklát fyrir það.

Óli frændi var dellukarl og prófaði alls konar hluti. Hann var golfari alla tíð og stundaði líka stangveiði og skotveiði, keypti sér eitt sinn trillu, tók mótorhjólapróf um sjötugt (þá dugði ekkert minna en Harley Davidson). Hann flaug flugvélum, stökk í fallhlíf, kafaði, stundaði garðrækt, skíði og skauta og spilaði á harmonikku. Ég gæti örugglega nefnt marga fleiri hluti, en ég held að hann hafi bókstaflega prófað allt fyrir utan eitt: Hann fékkst ekki til að læra að dansa ballett. Þar voru mörkin sett.

Það er ekki hægt að minnast á Óla án þess að nefna Möggu, sem var hans lífsförunautur í næstum sextíu ár, og studdi hann í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Magga brosti bara sínu fallega brosi en hristi kannski höfuðið. Á sinn hægláta hátt er hún bæði kennari okkar og fyrirmynd.

Þau byggðu sér yndislegan sumarbústað vestur á Skarðsströnd og ég nefndi hversu gaman yrði að fá að koma í bústaðinn. Þá svaraði Óli: Ég er ekkert að byggja þetta bara fyrir okkur, ég er að því fyrir ykkur líka og hann stendur ykkur alltaf til boða. Svona var Óli. Ef mig vantaði tjald þá var tjaldið komið um leið og ég nefndi það, ef mig vantaði bíl var hann tilbúinn að lána mér bílinn sinn, ef mig vantaði pípara var píparinn kominn í hús daginn eftir … Hann var alltaf boðinn og búinn að rétta fram hjálparhönd.

Þær eru ótal ferðirnar sem við fórum saman í gegnum tíðina í stærri og minni hópum, og eru þær allar mjög eftirminnilegar enda aldrei leiðinlegt að ferðast með Óla. Hann naut sín best með sínu nánasta fólki og þar var hann hrókur alls fagnaðar, oftar en ekki vopnaður harmonikkunni. Þá var mikið hlegið og sungið.

Ein ferð er mér sérstaklega minnisstæð, þegar við fórum tvö saman norður á Strandir. Í ferðinni varði Óli þremur dögum í að reyna að kenna mér að veiða á flugu, en þrátt fyrir þolinmæði hans tókst það ekki. Þessi ferð okkar saman er ein af mörgum dýrmætum minningum sem ég á um hann.

Óli frændi var mikill húmoristi og gat gert grín að sjálfum sér, sem er ekki öllum gefið. Hann hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, og ríka réttlætiskennd. Hann þoldi illa ef einhver var beittur misrétti – þá lá hann ekki á skoðunum sínum.

Við Óli erum þakklát fyrir að hafa átt þennan öðling að. Elsku Magga, Ágústa og fjölskylda, við vottum ykkur alla okkar samúð.

Hvíl í friði, elsku besti frændi.

Steinunn Aagot
Kristjánsdóttir.

Það var á laugardagsmorgni 11. nóvember sem ég fékk óvænt símtal um ótímabært fráfall frænda míns og nafna Ólafs Ágústs. Við vorum bræðrasynir og kynni okkar hófust snemma á lífsleiðinni. Hann var alltaf stóri frændi í mínum augum og reyndist mér ávallt vel. Það var alltaf gaman og gott að hitta Óla frænda, hann tók á móti manni með stóru faðmlagi, hallaði höfðinu til hliðar og brosti með sínu sérstaka brosi. „Sæll frændi“ heyrðist þá, spurði ávallt hvernig allir hefðu það og hvernig gengi. Væntumþykja hans ávallt til staðar. Margs er að minnast en eitt var það í gegnum árin að 8. janúar ár hvert á meðan móðir mín lifði þá var nokkurs konar ættarmót á afmælisdegi hennar í Miðtúni og þar létu Óli og Magga sig ekki vanta.

Aðrar samverustundir voru helstar í kringum ættarmót föðurfjölskyldunnar sem hófust 1985. Þess á milli lágu leiðir okkar saman við önnur tækifæri, en viðmótið var alltaf það sama. Hann fékk viðurnefnið ættarhöfðinginn eftir að föðurbróðir okkar, Ólafur Ágúst Ólafsson, lést 2016. Var hann þá elstur af barnabörnum afa og ömmu.

Óli var alla tíð mikill áhugamaður um golf og stundaði það af kappi mestallt sitt líf, var m.a. formaður Keilis nokkur ár og hlaut silfurmerki klúbbsins á 20 ára afmæli hans 1987. Einnig stundaði hann stangveiðar og hafði unun af. Að setja saman fallegar málsgreinar og tala kjarnyrt mál var ekkert vandamál fyrir hann og rithönd hans var sérstök. Alltaf þegar jólakortaflóðið kom þekkti maður strax kortið frá Óla og Möggu!

Seinustu árin áttu Magga og Óli labradortíkina Emblu, sem reyndist þeim vel. Embla átti hug hans allan og var samband þeirra alveg einstakt. Þau voru Rauðakrossvinir í allmörg ár, heimsóttu reglulega dvalarheimili aldraða og Rjóðrið, hvíldarheimili fyrir langveik og fötluð börn.

Magga og Óli byggðu sér sumarbústað á Skarðsströnd, sem þau nefndu Ártind og er í Villingadal. Þar undu þau sér vel öll þrjú og var þeim mjög annt um staðinn. Bústaðurinn var einstaklega smekklegur og vandaður og bar þess glöggt merki hverjir eigendurnir voru. Óli var handlaginn og útsjónarsamur, enda sást það á mörgum hlutum sem voru þar í kring, því til vitnis. Við Erna og sonur okkar urðum þess aðnjótandi að koma þangað og gista, þar sem stjanað var við okkur á allan hátt.

Elsku Magga, Ágústa og fjölskylda, guð varðveiti ykkur og styðji á þessum erfiðu tímum.

Hvíl í friði elsku Óli frændi, þín verður sárt saknað og ávallt minnst.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ólafur Ágúst Gíslason og fjölskylda.

Nú er komið að því að kveðja elsku frænda okkar Óla Þorsteins í hinsta sinn. Stund sem við höfðum ekki hugleitt að væri á næsta leiti en eins og önnur okkar ræddi við hann í símtali í september sl. þá veit enginn hvenær lokastundin rennur upp eða fær hana umflúið. Við Óli vorum bræðrabörn og hann nokkrum árum eldri en einhvern veginn skapaðist sérstakt samband okkar á milli í gegnum tíðina sem einkenndist af mikilli væntumþykju og virðingu. Hann hafði stóran og tilfinningamikinn persónuleika, var bráðvel gefinn og með gott skopskyn. Gull af manni en gat sýnt á sér hrjúfa hlið því undir niðri örlaði á feimni. Ólafur Ágúst, eins og hann hét fullu nafni, hlaut þá dásamlegu gjöf snemma á lífsleiðinni að eignast yndislega eiginkonu, hana Möggu sína, og saman áttu þau Ágústu, sólargeislann í lífi þeirra. Síðan komu tengdasonurinn og barnabörnin sem Óli dýrkaði og dáði. Seinustu árin bættist hundurinn Embla við fjölskylduna og tókst með þeim eindæma vinskapur. Þau gerðust Rauðakrossvinir og létu gott af sér leiða í þágu kærleika og mannúðar. Óla var margt til lista lagt og kemur fyrst upp í hugann einstaklega falleg rithönd og gott og vandað málfar.

Við viljum fyrst og síðast þakka okkar elsku frænda fyrir kærleika, frændrækni og góðvild í okkar garð og fjölskyldu okkar. Minning hans lifir og hún er eitt sem alltaf er gott að leita í og hverfur aldrei.

Ást okkar og kærleikur er með ykkur elsku Magga, Ágústa og fjölskylda.

Farðu í guðs friði elsku frændi.

Þín frænkur,

Arndís og Hildur
Gísladætur.