Hlutabréfamarkaður
Baldur Thorlacius
Framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla Nasdaq Iceland
Erlend viðskiptasjónvarpsstöð er í gangi alla daga á vinnustaðnum mínum, án hljóðs reyndar. Maður lítur endrum og sinnum á skjáinn og sér þá hvað er efst á baugi hverju sinni. Þar er fjallað um allt þetta helsta sem vekur áhuga fjárfesta, afkomu fyrirtækja, stöðu ríkisfjármála, verðbólgu og önnur efnahagsmál. Og hlutabréfaverð. Það er mikið talað um hlutabréfaverð. Álitsgjafar eru fengnir til að ræða skoðun sína á verðlagningu einstaka fyrirtækja og markaðarins almennt, sem og verð skuldabréfa, gjaldmiðla, rafmynta, hrávara og annarra fjárfestingareigna. Það er sama uppi á teningnum á öðrum erlendum viðskiptamiðlum. Verð er eðli málsins samkvæmt alltaf þungamiðjan í umfjölluninni.
Á Íslandi virðast aftur á móti fáir vera til í að tjá sig opinberlega um hlutabréfaverð. Hlutabréfaverðið sjálft og drifkraftar þess virðist vera tabú. Fjárfestar eru í mesta lagi til í að tala óbeint um hlutabréfaverð í samtölum við fjölmiðla og þá helst nafnlaust, kvarta yfir verðlagningu á markaði en eru ekki til í að stíga fram og útskýra hvers vegna þeir telji kaup- eða sölutækifæri vera til staðar. Almenningshlutabréfamarkaður er í eðli sínu lýðræðislegur. Miðlægur vettvangur sem leiðir saman fjölda fjárfesta sem geta keypt og selt hlutabréf í krafti gagnsæis og jafnræðis um aðgang að upplýsingum. Lýðræði virkar best ef því fylgir uppbyggileg umræða um málefni líðandi stundar. Það sama á við um hlutabréfamarkaði.
Orðum fylgir ábyrgð – en líka þögninni
Fjárfestar þurfa auðvitað að fara varlega þegar þeir tjá sig opinberlega um hlutabréfaverð. Nota viðeigandi fyrirvara og gæta þess að gefa ekki ranga eða villandi mynd af hlutabréfaverðinu. Greina frá eigin hlutabréfaeign ef við á, sem og öðrum mögulegum hagsmunum. Orðum fylgir jú ábyrgð. Ekkert af þessu ætti samt að koma í veg fyrir málefnalegar umræður um hlutabréfaverð.
Þögninni fylgir líka ábyrgð. Upplýst umræða auðgar markaðinn og stuðlar að auknum skoðanaskiptum og bættri verðmyndun. Um þrjátíu þúsund manns eiga skráð hlutabréf hér á landi og enn fleiri hafa fjárfest í hlutabréfum gegnum verðbréfasjóði. Á erlendum mörkuðum fá almennir fjárfestar tækifæri til að læra af fagfjárfestum, heyra hvernig þeir nálgast fjárfestingar og hvaða skoðun þeir hafa á markaðnum eða einstaka fyrirtækjum. Það á að vera hluti af samfélagsábyrgð fagfjárfesta að stuðla að upplýstri umræðu um það hvernig verðmæti verða til. En þetta snýst ekki bara um að sýna ábyrgð, þarna eru einnig tækifæri.
Tækifæri
Það mættu um 30 þúsund manns á aðalfund Berkshire Hathaway þetta árið, til að hlusta á Warren Buffett og Charlie Munger fara yfir stöðuna. Talsvert fleiri fylgdust með fundinum og/eða lásu um hann. Sama á við um bréfin sem þeir skrifa hluthöfum reglulega, enda tala þeir mikið um hlutabréfaverð og verðlagningu hlutabréfa. Efni sem þeir hafa yfirburðaþekkingu á og skiptir hluthafa þeirra (sem og fjárfesta almennt) miklu máli.
Þeir félagar eru auðvitað ekki einir um þetta, erlendir sjóðsstjórar leggja t.d. margir mikið upp úr því að vera áberandi í opinberri umræðu til að sýna að þeir eru leiðandi á sínu sviði og hvers vegna fólk ætti að treysta þeim fyrir sparifénu sínu. Þarna hljóta að liggja vannýtt tækifæri fyrir íslenska kollega þeirra.
Það má segja að hlutabréfaviðskipti hafi loksins komist aftur á dagskrá fermingarveislna þjóðarinnar árið 2020, þegar almenningur fór aftur að láta taka til sín á hlutabréfamarkaði. Þau eru ekki lengur tabú, nema þá helst meðal fagfjárfesta. Nú er komið að þeim að láta heyra í sér.