Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Sameiginlegt verkefni okkar allra sem störfum í ferðaþjónustunni er að sjá til þess að upplifun fólks sem kemur til landsins verði sem best. Í því sambandi er miðlun réttra upplýsinga lykilatriði, svo öllum verði ljóst að Ísland sé öruggt,“ segir Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Sky Lagoon í Kópavogi.
Baðstaðurinn á Kársnesinu er fjölsóttur, ekki síst núna þegar Bláa lónið við Grindavík er lokað vegna þeirra jarðhræringa sem verið hafa á Reykjanesi. Ísland hefur af þeirri ástæðu verið í heimsfréttum og því hefur fólk sem starfar í ferðaþjónustu fundið fyrir. Sú athygli hefur verið með ýmsum tilbrigðum.
Heimsóknum fjölgar
„Við höfum verið svo lánsöm að aðsóknin hefur verið góð frá opnun, en vissulega hefur áhugi á heimsóknum aukist síðustu vikur og við því gert það sem við getum til að koma til móts við gesti á sem bestan hátt,“ segir Helga María.
„Það er mikilvægt þegar kemur að markaðssetningu á Íslandi að allir séu á sömu blaðsíðu. Fréttir sem geta skapað óvissu og ótta hafa jafnan mikil áhrif. Þegar Grindavík fór á neyðarstig vegna jarðskjálfta og hugsanlega eldgoss fór af stað skriða í fjölmiðlum með fréttum sem voru nokkuð misvísandi. Með góðu og skipulögðu starfi stjórnvalda tókst að koma þeirri umfjöllun í réttan farveg, þannig að skaði hlytist ekki af,“ segir Helga María
Ekki Ísland allt
Ferðaheildsalar sem Morgunblaðið hefur rætt við segja að nokkuð hafi verið um fyrirspurnir vegna stöðu mála á Reykjanesi. Í sumum tilvikum hafi áhyggjur verið uppi meðal fólks, en ræst hafi úr með greiðari upplýsingagjöf.
„Skiljanlega töldu sumir erlendir viðskiptavinir sem ég heyrði af að ástandið við Grindavík næði til Íslands alls. Svo slæmt var þetta nú ekki, en flugfélögin greindu frá því að eitthvað hefði hægt á bókunum. Núna virðist þetta vera komið á lygnan sjó aftur en klárlega hafa fjölmiðlar sín áhrif á hvert fólk í ferðahugleiðingum beinir sjónum sínum þegar horft er á heimskortið,“ segir Ingi Þór Guðmundsson hjá ferðaskrifstofunni Nonna Travel.